„Var að flýta mér alltof mikið í gamla formið“

Brynjar Óli Ólafsson og Katrín Eva Pálmadóttir ásamt börnunum sínum …
Brynjar Óli Ólafsson og Katrín Eva Pálmadóttir ásamt börnunum sínum tveimur, þeim Björgvini Pálma og Örnu Margréti.

Hin 26 ára gamla Katrín Eva Pálmadóttir komst að því að hún væri ófrísk að sínu öðru barni þegar sonur hennar var aðeins eins árs gamall. Þrátt fyrir að hafa ekki ætlað að eignast annað barn strax fylgdi fréttunum mikil gleði, og í dag á Katrín tvö börn, tveggja ára gamla Björgvin Pálma og sjö mánaða gömlu Örnu Margréti, með kærasta sínum, Brynjari Óla Ólafssyni. 

Katrín er í fæðingarorlofi þessa stundina, en starfar hjá Danól og stundar samhliða því nám í viðskiptafræði við Háskólann á Bifröst. Katrín hefur síðustu ár stundað crossfit af kappi, en þau Brynjar kynntust einmitt á æfingu í Crossfit Reykjavík. 

„Hann var þjálfari og að æfa í stöðinni á sama tíma og ég byrjaði á grunnnámskeiði. Mig minnir að ég hafi byrjað að fylgja honum á Instagram og farið að spjalla við hann þar. Hann bauð mér svo á stefnumót og þá var ekki aftur snúið,“ segir Katrín og hlær. 

Katrín Eva á æfingu, en hún æfir Crossfit í Crossfit …
Katrín Eva á æfingu, en hún æfir Crossfit í Crossfit Reykjavík.

Við fengum að skyggnast inn í fjölskyldulífið hjá Katrínu sem ræddi meðal annars um hreyfingu á og eftir meðgöngu, ólíkar meðgöngur og fæðingar, og móðurhlutverkið. 

Skrítið að eignast barn í miðjum heimsfaraldri

Þegar Katrín komst að því að hún væri ófrísk að syni sínum segist hún hafa upplifað smá sjokk. „Ég var fljót að jafna mig á því og grét bara úr gleði. Við vorum ekki komin með íbúð og ég bjó í foreldrahúsum svo það gaf manni bara aukna hvatningu til að safna meira og leita að íbúð,“ útskýrir Katrín. 

„Kórónuveirufaraldurinn skall svo á, en það var mjög skrítið að eignast barn í því ástandi. Við vorum þó heppin að eiga yfir sumarið þegar búið var að aflétta takmörkunum að mestu,“ bætir hún við. 

Katrín segir það ekki hafa verið í plönunum hjá þeim Brynjari að eignast annað barn strax, en hún komst að því að hún væri ófrísk að dóttur sinni þegar Björgvin var rúmlega eins árs gamall.

„Stelpan okkar var samt meira en velkomin og það var …
„Stelpan okkar var samt meira en velkomin og það var alveg sama sæluvíman sem maður upplifði við þessar fréttir.“

Upplifði kvíða á fyrstu meðgöngunni

Aðspurð segir Katrín meðgöngurnar hafa verið ólíkar. „Fyrri meðgangan gekk ágætlega, en á fyrri hluta hennar var smá kvíði í mér varðandi það að missa fóstrið þar sem það blæddi af og til úr fylgjunni. Sem betur fer var það ekkert alvarlegt. Ég upplifði mikla ógleði til að byrja með sem hvarf blessunarlega í kringum 18. viku,“ útskýrir Katrín. 

Þegar leið á meðgönguna var Katrín komin með mjög stóra kúlu og átti erfitt með að ganga. „Mér leið samt almennt vel á meðgöngunni og fannst mjög gaman að vera ólétt og fylgjast með kúlunni stækka,“ bætir hún við. 

Á seinni meðgöngunni upplifði Katrín ekki jafn mikla ógleði og leið almennt betur í líkamanum, sérstaklega á fyrri hluta meðgöngunnar. „Ég var að vísu mun þreyttari þar sem ég var eltandi einn eins árs gorm, en almennt leið mér mjög vel. Ég fann hvað ég var miklu rólegri yfir þessu öllu saman en áður,“ segir Katrín. 

Fjölskyldan saman á Spáni áður en Arna Margrét kom í …
Fjölskyldan saman á Spáni áður en Arna Margrét kom í heiminn.

Æfði crossfit fram að 28. viku

Á báðum meðgöngunum gat Katrín mætt á crossfit-æfingar fram að 28. viku, en hún segir það hafa komið sér á óvart hve fljótt líkaminn varð þreyttur. „Maður áttaði sig ekki á því að maður var að burðast með manneskju í maganum allan daginn. Það kom mér á óvart hvað líkaminn varð fljótt þreyttur við það eitt að klæða sig, labba upp stiga og beygja sig niður,“ segir Katrín. 

„Á fyrri meðgöngunni mætti ég á crossfit-æfingar en tók allar þyngdir út og reyndi að aðlaga æfingarnar svo þær myndu henta mér. Ég fór einnig af og til í göngutúra, en þegar ég var komin 28 vikur á leið fann ég að ég gat ekki lengur mætt á æfingar og reyndi því að fara oftar í göngutúra. Þegar kúlan var svo orðin það stór að ég var farin að eiga erfitt með að hreyfa mig almennt reyndi ég að hvíla mig vel,“ segir Katrín. 

Á seinni meðgöngunni mætti Katrín líka á crossfit-æfingar þar til hún var komin 28 vikur á leið, en hreyfði sig lítið eftir það. Hún ákvað þó að skrá sig í meðgöngujóga á síðustu vikunum. „Það er besta ákvörðun sem ég hef tekið. Ég mæli með því fyrir allar óléttar konur. Það var miklu meira krefjandi en ég bjóst við en á sama tíma var sálin vel nærð eftir hvern einasta tíma,“ útskýrir Katrín. 

Katrín Eva mælir með meðgöngujóga fyrir allar óléttar konur.
Katrín Eva mælir með meðgöngujóga fyrir allar óléttar konur.

„Mér fannst jógað hafa hjálpað mér mikið“

Heilt yfir segir Katrín báðar fæðingarnar hafa gengið vel þó fyrri fæðingin hafi verið meira krefjandi og lengri en sú seinni. Hún var gangsett í bæði skiptin og átti son sinn á Landsspítalanum en dóttur sína á Akranesi. 

„Ég upplifði mikið streituástand þegar ég átti strákinn minn og það tók langan tíma að fæða hann. Þegar ég átti stelpuna mína þá fann ég að ég var mun rólegri og á betri stað andlega, en mér fannst jógað hafa hjálpað mér mikið,“ segir Katrín. 

Katrín Eva með son sinn, Björgvin Pálma, nýfæddan upp á …
Katrín Eva með son sinn, Björgvin Pálma, nýfæddan upp á fæðingardeild.

Katrín segir lífið hafa orðið margfalt meira krefjandi eftir að hún varð mamma, en á sama tíma hafi það líka orðið margfalt betra. „Maður hefur alls ekki jafn mikinn tíma og áður og ég reyni alltaf að nýta tímann vel. Ég fann fyrir auknum metnaði eftir að ég varð mamma og hef tekist á við allskonar áskoranir eftir það,“ segir Katrín. 

Fór alltof hratt af stað

Eftir fyrri fæðinguna var Katrín spennt að fara að hreyfa sig aftur, en hún segist þó hafa farið alltof geyst af stað. „Eftir fæðingu sonar míns var ég að flýta mér alltof mikið að koma mér aftur í gamla formið. Ég setti alltof mikla pressu á mig og fór alltof hratt af stað. Ég leyfði líkamanum ekki að hvíla sig nógu vel og fann að líkaminn var ekki tilbúinn að hreyfa sig aftur, en ég hlustaði ekki á hann,“ útskýrir Katrín. 

„Ég mæli eindregið með því að konur hlusti á líkamann og fari ekki of geyst af stað,“ bætir hún við. 

Eftir seinni fæðinguna var Katrín mun meðvitaðri um að fara rólega af stað og hlusta á líkamann. „Ég fann að mér leið mun betur andlega og líkamlega eftir seinni meðgönguna og fæðinguna. Þegar ég var tilbúin að byrja að hreyfa mig aftur þá skráði ég mig í mömmutímana í Afrek og fann að það var einmitt það sem ég þurfti,“ segir Katrín. 

Björgvin Pálmi á ekki langt að sækja áhugann á hreyfingu.
Björgvin Pálmi á ekki langt að sækja áhugann á hreyfingu.

Þakklát fyrir móðurhlutverkið

Í dag stundar Katrín mömmu-crossfit í Crossfit Reykjavík. „Ég er þakklát fyrir það að geta mætt á æfingu með öðrum ofur mömmum. Það kemur manni sífellt á óvart hvað líkaminn er magnaður og hvers hann er megnugur,“ segir hún. 

Spurð hvað hafi komið mest á óvart við móðurhlutverkið segir Katrín það vera hve mikla þolinmæði það krefjist. „Á sama tíma og þetta er mest gefandi hlutverk í heimi þá getur það verið mjög krefjandi á tímum. Maður er ótrúlega þakklátur að fá að upplifa það að vera móðir og sinna því hlutverki,“ segir hún. 

Systkinin saman í góðum gír.
Systkinin saman í góðum gír.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert