Nær að fela óléttuna á ótrúlegan hátt

Leikkonan Gemma Atkinson er ófrísk af sínu öðru barni.
Leikkonan Gemma Atkinson er ófrísk af sínu öðru barni. Samsett mynd

Leikkonan Gemma Atkinson birti nýverið myndskeið sem sannar hve blekkjandi samfélagsmiðlar geta í raun verið. Atkinson er ófrísk af sínu öðru barni með kærasta sínum, Gorka Marquez, en í myndskeiðinu náði leikkonan að fela óléttukúluna á ótrúlegan hátt. 

Með myndskeiðinu vonast Atkinson til þess að aðdáendur hennar skilji að á samfélagsmiðlum sé ekki allt sem sýnist. Hún dró magann inn og náði þar með að fela óléttukúlu sína, en um leið og hún slakaði á aftur sást óléttukúla hennar greinilega.

„Fljótleg áminning um að ef ég get falið barn, hvað getur annað fólk falið með réttu stellingunum og lýsingunni?“ skrifaði leikkonan við myndskeiðið. „Ekki láta myndir af öðrum hafa of mikil áhrif á þig. Flestar þeirra eru ekki raunverulegar,“ bætti hún við. 

Skjáskot/Instagram

Lítill drengur á leiðinni

Atkinson og Marquez eiga fyrir eina dóttur, Miu, sem er þriggja ára gömul. Þau deildu nýverið miklum gleðifregnum um að þau ættu von á litlum dreng síðar á þessu ári. Með færslunni birtu þau fallegar svarthvítar myndir úr myndatöku þar sem Atkinson sýndi óléttukúlu sína.

Í myndatextanum sagði Atkinson frá því að Mia væri yfir sig spennt yfir fréttunum og grínaðist með það að sonur þeirra yrði kallaður „Barbí“ ef það væri undir dóttur þeirra komið að velja nafnið.

mbl.is