Barnfóstra Harrys og Meghan opnar sig

Harry og Meghan með nýfæddan son sinn árið 2019.
Harry og Meghan með nýfæddan son sinn árið 2019. AFP

Hertogahjónin af Sussex, Meghan og Harry, fengu barnfóstruna Loreen Khumalo til liðs við sig þegar þau eignuðust frumburðinn Archie árið 2019. Khumalo bjóst við töluvert meiri formlegheitum af hjónunum áður en hún kynntist þeim. 

Khumalo er viðkunnanleg kona frá Simbabve. Hún virðist vera í góðum samskiptum við hjónin og kom fram í heimildarþáttunum um Harry og Meghan á Netflix. Í nýjum hlaðvarpsþáttum játar barnfóstran að hafa verið stressuð fyrir fyrsta viðtalinu við hjónin.

Þegar haft var samband við Khumalo var hún stödd í Þýskalandi með fjölskyldu sem hún starfaði fyrir. Hún flýtti sér til Bretlands og alls konar hugsanir komu upp í huga hennar á leið í viðtalið. Hún fékk meira að segja sekt fyrir of hraðan akstur á leið í Frogmore Cottage þar sem hjónin bjuggu. 

Harry og Meghan með Archie.
Harry og Meghan með Archie. AFP

„Hvernig líta barnfóstrurnar þeirra út, eru þær í hælum?“ sagðist Khumalo hafa hugsað og bar sig saman við myndir af barnfóstru Vilhjálms Bretaprins og Katrínar prinsessu af Wales en sú klæddist brúnum einkennisbúningi. Hún sagði að slíkur búningur hentaði alls ekki sínum húðlit. Hún ákvað að fara í snyrtilegan klæðnað í viðtalið og litla hælaskó. „En ég notaði ekki neinn farða. Ég sagði ef þau vilja mig þá taka þau mér eins og ég er. Ég var ekki fædd með silfurskeið í munni.“

Rétt áður en hún hitti hjónin spurði hún mann sem vann fyrir Harry hvort hún ætti að hneigja sig en maðurinn hló bara. „Þú átt eftir að sjá það. Harry prins er frábær,“ sagði maðurinn. Þegar hún hitti Harry tók prinsinn á móti henni og faðmaði hana. „Mér leið svo vel. Þetta var ekki eins formlegt og ég átti von á. Þetta var bara venjulegt heimili.“ 

Harry Bretaprins ásamt Meghan hertogaynju.
Harry Bretaprins ásamt Meghan hertogaynju. AFP/Danny Lawson/Pool
mbl.is