Dreymir um að eignast annað barn

David Foster og eiginkona hans Katharine McPhee.
David Foster og eiginkona hans Katharine McPhee. PAUL ARCHULETA

Söngkonan Katharine McPhee greindi nýlega frá því að draumurinn sé að eignast annað barn með eiginmanni sínum, tónlistarmanninum David Foster. Foster er 73 ára gamall og á sex börn, en yngsta barn hans verður tveggja ára í næsta mánuði. 

„Ég myndi gjarnan vilja eignast annað barn, en við munum sjá til. Við erum ekki í neinu brjáluðu flýti, en ég held í vonina því ég elska að vera mamma. Ég elska það virkilega,“ sagði McPhee í viðtali við Jennifer Hudson í síðustu viku. 

McPhee er 38 ára gömul, en þau Foster tóku á móti sínu fyrsta barni saman í ársbyrjun 2021. Fyrir á Foster fimm dætur úr fyrri samböndum sem eru á aldrinum 36 til 52 ára. 

Sér ekki eftir barneignum á áttræðisaldri

Foster hefur talað opinskátt um áskoranirnar sem fylgja því að ala upp ungt barn á áttræðisaldri, en hann sér þó ekki eftir neinu. „Ég hef elskað hvern einasta dag,“ sagði hann í samtali við People síðastliðið haust. 

Þó uppeldið geti reynst krefjandi segir Foster marga kosti fylgja því að vera eldri faðir. Hann geti til að mynda eytt mun meiri tíma með syni sínum en dætrum sínum, enda hafi hann verið ungur þegar hann átti þær og hafi að eigin sögn unnið dag og nótt. 

„Jafnvel þó ég verði ekki til staðar þegar hann verður 50, 40 eða jafnvel 30 ára, þá held ég að ég geti gefið honum visku frá þessum 73 árum mínum á jörðinni,“ bætti hann við.

mbl.is