Hvernig ræðir þú geðheilsu við börnin þín?

Ljósmynd/Pexels/Kindel Media

Andleg og líkamleg heilsa barna og unglinga leggur grunninn að velferð þeirra í lífinu. Á meðan líkamleg veikindi fara oftast ekki framhjá foreldrum getur reynst erfiðara að koma auga á það ef barni líður illa andlega eða tilfinningalega. Þess vegna er mikilvægt að veita geðheilsu barna sérstaka athygli og tryggja að þau öðlist hæfni til að tala um tilfinningar sínar og segja frá því hvernig þeim líður. 

Því þurfa foreldrar að geta átt samtöl um geðheilbrigði við börn sín og unglinga á farsælan máta, en það getur þó vafist fyrir foreldrum. Hvernig á maður að hefja samtalið? Hvernig veit maður hvort maður sé að segja réttu hlutina? Er þetta rétta tímasetningin til að hefja samtalið?

Á vef BBC má finna fjögur góð ráð sem hjálpa þér að hefja samtalið og fylgja því eftir. 

1. Veljið skemmtilega afþreyingu til að gera saman

Til þess að gera spjallið léttara fyrir þig og barnið, og til að koma í veg fyrir að barninu líði eins og því sé stillt upp við vegg, er mælt með því að byrja á því að taka 20 mínútur í einhverja afþreyingu sem báðir aðilar hafa gaman að. Það býr til mun afslappaðra andrúmsloft sem gerir það auðveldara að spyrja út í tilfinningar. 

Það er fullt af skemmtilegri afþreyingu til að velja úr, en það er algjört lykilatriði að hún sé einföld og skemmtileg fyrir báða aðila svo það gefist nægur tími til að spjalla líka. Með þessu býrð þú til öruggt rými fyrir barnið til að tala um tilfinningar sínar án þess að spjallið verði yfirþyrmandi. 

Ljósmynd/Pexels/Mikhail Nilov

2. Að hefja samtalið

Þú ert að koma samtalinu af stað til þess að gefa ykkur báðum tækifæri á að tala um tilfinningar og veita huggun. Ef þú átt í erfiðleikum með að ákveða hvað þú átt að segja getur verið sniðugt að byrja á einhverju almennu, til dæmis: 

Hvernig líður þér?

Ef þú gætir byrjað daginn aftur, hvað myndir þú gera öðruvísi?

Þaðan er hægt að fara í sértækari spurningar, eins og:

Hvert var stærsta vandamálið sem þú glímdir við í dag?

Viltu tala um það sem er að gerast?

Hvernig get ég stutt þig í gegnum þetta?

Ljósmynd/Pexels/Ketut Subiyanto

3. Vertu traustvekjandi

Þegar þú talar við barnið þitt er mikilvægt að þú hlustir án þess að dæma. Ef barnið kýs að opna sig, vertu þá viss um að það viti að þú sért á þeirra hlið og munir hjálpa þeim að komast í gegnum þetta. Barnið þitt gæti upplifað mikinn þrýsting og því er mikilvægt að þú veitir því það traust og þá ást sem það þarf.

Hafðu í huga að barnið þitt sé mögulega ekki tilbúið að opna sig strax. Ef svo er, láttu það vita að þú sért til staðar ef það þarf á þér að halda. Ef þú heldur að barninu líði ekki vel með að opna sig undir fjögur augu gæti virkað betur að prófa annan samskiptamáta, til dæmis að senda skilaboð eða bréf.

Jafnvel þó það taki tíma fyrir barnið að opna sig, ekki gefast upp. Reyndu að ýta ekki of mikið á barnið né vera í uppnámi ef það opnar sig ekki strax, það gæti tekið tíma. 

4. Fylgdu samtalinu eftir

Þegar barnið þitt opnar sig, vertu viss um að hlusta á það og gefa því tækifæri til að útskýra hlutina almennilega áður en þú segir eitthvað. Jafnvel ung börn geta skilið tilfinningar og hefðun ef þú gefur þeim tækifæri til að tala um það. 

Taktu samtalið á rólegan máta og leiðbeindu þeim með dæmum, eins og:

Þegar þú getur ekki sofnað, er eitthvað í huganum þínum sem veldur þér áhyggjum?

Hvað er að gera þig svona reiðan?

Þá er mikilvægt að þakka þeim fyrir að deila því sem er að gerast með þér, vera hvetjandi og hrósa þeim fyrir að hafa opnað sig og viðurkennt tilfinningar sínar. 

Ljósmynd/Pexels/Keira Burton

Ef þú heldur að barnið þitt þurfi meiri stuðning er mikilvægt að leita faglegrar aðstoðar.

mbl.is