Opin fyrir því að eignast fimmta barnið

Fyrirsætan Heidi Klum segist vera opin fyrir því að eignast …
Fyrirsætan Heidi Klum segist vera opin fyrir því að eignast fimmta barnið. Getty Images via AFP

Ofurfyrirsætan Heidi Klum segist vera opin fyrir því að eignast barn með eiginmanni sínum, Tom Kaulitz. Klum tók á móti sínu fyrsta barni árið 2004, en hún á fjögur börn á aldrinum 13 til 18 ára.

Klum kom fram í þættinum The Jennifer Hudson Show á fimmtudaginn, en þar var hún spurð hvort hún myndi einhvern tímann eignast annað barn.

Fyrirsætan segir dagamun vera á því hvort hana langi í annað barn eða ekki, en á endanum sagðist hún þó opin fyrir því. „Ég hef gert þetta fjórum sinnum. Svo var ég með hvert barn í átta mánuði á brjósti, og svo varð ég ófrísk þrisvar í röð,“ sagði Klum við Hudson. Eftir að hafa talið upp aldur barnanna sinna ákvað Klum að lokasvar hennar væri „já.“

Eiginmaðurinn frábær með börnunum

Elstu dótturina, Leni, á Klum með hinum ítalska Flavio Briatore. Þegar dóttirin kom í heiminn höfðu Klum og Briatore hins vegar farið hvort í sína áttina og fyrirsætan þegar í sambandi við breska tónlistarmanninn Seal. Klum og Seal eignuðust þrjú börn saman, þau Henry, Johan og Lou áður en þau skildu árið 2012.

Klum gekk í hjónaband með núverandi eiginmanni sínum árið 2019, en hún hefur talað opinskátt um að Kaulitz sé frábær með börnunum hennar. „Ég er viss um að það er ekkert auðvelt að stíga inn í fjölskyldu og eignast allt í einu fjögur börn og unglinga,“ sagði fyrirsætan í samtali við Us Weekly í fyrra. 

mbl.is