Selling Sunset-stjarna eignaðist dreng

Tarek El Moussa og Heather Rae Young tóku á móti …
Tarek El Moussa og Heather Rae Young tóku á móti sínu fyrsta barni saman á dögunum. AFP

Selling Sunset-stjarnan og fasteignasalinn, Heather Rae Young, tók nýverið á móti sínu fyrsta barni með eiginmanni sínum, Tarek El Moussa. Drengurinn kom í heiminn hinn 31. janúar síðastliðinn.

Hjónin deildu gleðifregnunum í sameiginlegri færslu á Instagram þar sem þau birtu mynd af syninum. „Drengurinn okkar er hér. Móðir og barn eru hamingjusöm, heilbrigð og þreytt en hafa það gott. Hjörtu okkar eru full af gleði,“ skrifuðu þau við myndina.

Glímdi við ófrjósemi

Drengurinn er fyrsta barn Young en fyrir á El Moussa 12 ára dóttur og 7 ára son með fyrrverandi eiginkonu sinni Christina Haack, en þau skildu árið 2018. Ári síðar kynntust Young og El Moussa, en þau trúlofuðu sig 2020 og gengu í hjónaband í október 2021 við glæsilega athöfn.

Eftir brúðkaupið fóru hjónin strax af stað í barneignarferli og hafa talað opinskátt um ferlið, sem reyndist þeim erfitt, í von um að hjálpa öðrum konum sem glíma við ófrjósemi. Sumarið 2022 fengu hjónin hins vegar miklar gleðifregnir þegar þau komust að því að þau ættu von á barni í miðju tæknifrjóvgunarferli.

mbl.is