Leynibarnið mætti með látum

Fegurðardrottningin Hulda Vigdísardóttir er orðin móðir.
Fegurðardrottningin Hulda Vigdísardóttir er orðin móðir. Ljósmynd/Aðsend

Hulda Vigdísardóttir, fegurðardrottning og fyrirsæta, og Birgir Örn Sigurjónsson flugmaður, eignuðust barn hinn 30. janúar síðastliðinn. Í heiminn kom lítill drengur sem vildi lítið láta bíða eftir sér og reyndi að drífa sig í heiminn í stigaganginum heima. Verðandi foreldrar komust sem betur fer á fæðingardeildina því drengurinn var ekki í höfuðstöðu. 

Hulda segir frá fæðingu sonar síns í fallegri færslu á Instagram, en hún fór af stað rétt eftir miðnætti á afmælisdegi sínum 29. janúar. 

„Hann tók mig í fangið og hélt á mér niður stigann (4 hæðir) en á leiðinni niður birtist fótur döðlu, enn í belgnum, undir fínu Minions-náttbuxunum hans Birgis og því var ekki um annað að ræða en að fá bláar sírenur út Bergstaðastræti. Mamma mín sem ætlaði að keyra okkur fylgdi fast á eftir sjúkrabílnum en ég bað sjúkraflutningamanninn vinsamlegast að keyra hægar því með hverri hraðahindruninni, fannst mér litli kútur vera kominn lengra út og það mátti hann alls ekki. Ég þurfti að „halda í mér“ þar sem barnið var ekki í höfuðstöðu og þessi eina gata að heiman og á spítalann hefði ekki mátt vera lengri því litla kút lá svo rosalega á að koma í heiminn,“ skrifar Hulda. 

„Hann kom út í sigurkufli, eins og amma sín sem rétt náði að vera viðstödd líka og sá þegar belgurinn var klipptur. Ég fékk strákinn okkar í fangið og mér fannst mig hljóta að vera að dreyma,“ heldur Hulda áfram. 

Hún segist þakklát fyrir alla sem hugsuðu um þau á meðan veru þeirra á Landspítala stóð og þakklát fyrir að litli drengurinn hafi fengið sinn eigin afmælisdag, 30. janúar. 

Barnavefurinn óskar þeim innilega til hamingju með litla molann!

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert