Skildi eiginkonuna og barnið eftir í almennu farrými

Ljósmynd/Unsplash/Paul Hanaoka

Móðir nokkur, sem talin er vera frá Bretlandi, hefur gert allt vitlaust eftir að hún skrifaði færslu um eiginmann sinn á uppeldissíðuna Mumsnet

Í færslunni segir móðirin frá því að eiginmaður hennar hafi logið að sér og pantað flugsæti fyrir sjálfan sig í viðskiptafarrými, en pantað sæti í almennu farrými fyrir hana og ungabarn þeirra í 14 tíma flugi. 

„Ég er á leið í langt flug á föstudaginn – 14 tíma flug. Maðurinn minn er á leið í vikulanga vinnuferð og vildi að ég og barnið okkar kæmum með honum í frí. Ég samþykkti að fara með en var með eitt skilyrði, að ég og barnið okkar myndum fljúga í fyrsta farrými þar sem flugið er langt og ég yrði ein með barnið okkar á meðan hann væri í viðskiptafarrými,“ skrifaði konan og útskýrði að vinnan hefði greitt fyrir miðann hans. 

„Maðurinn minn sagði að það væri ekkert mál, bókaði flugmiðana og sagði mér að hann hefði bókað fyrsta farrými. Sex vikum síðar uppgötvaði ég að hann hefði logið að mér og bókað ódýrustu miðana sem völ er á,“ bætti hún við. 

Valdi ódýrustu og „verstu“ sætin

Konan útskýrir fyrir lesendum að hún hafi reynt að breyta flugmiðunum, en þá hafi fyrsta farrými orðið fullt. Hún hafi þá hætt að pæla í þessu og ákveðið að passa að velja góð sæti, glugga- og miðjusæti, þegar hún kæmi upp á flugvöll. 

Þegar hún kom upp á flugvöll var hins vegar ekki hægt að breyta sætunum, en þá hafði maðurinn hennar pantað miðjusæti og sæti við ganginn, sem hentar illa með lítið barn. Konan lýsti reiði sinni í færslunni þar sem hún sagði eiginmann sinn vera eigingjarnan og gaf í skyn að hann væri hugsunarlaus. 

Eigingirni og níska

„Ég er brjáluð út í eiginmann minn því mér finnst hann vera eigingjarn þar sem hann var of nískur til að panta sætin sem ég bað um þegar hann bókaði miðana. Á meðan ætlaði hann að láta fara vel um sig í viðskiptafarrýminu,“ sagði hún og spurði hvort hún væri ósanngjörn.

Lesendur voru hneykslaðir á eiginmanninum, og sumir gengu jafnvel svo langt að efast um hjónaband þeirra. „Segðu honum að þú verðir heima og vonir að hann eigi góða ferð. Í alvöru, ef þú ferð verður þú alltof reið til að njóta þín og gefur í skyn að hann geti komist upp með þetta,“ skrifaði einn lesandi við færsluna. 

Þá furðuðu margir sig á því að hann skyldi ljúga að henni á meðan öðrum fannst fráleitt að hún hefði þurft að standa í því að reyna að breyta miðunum og sætunum. Þá voru fjölmargir þeirrar skoðunar að konan ætti ekki að fara í ferðina. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert