„Það var mjög súrrealískt að ganga út af spítalanum“

Vaka Vigfúsdóttir tók á móti sínu fyrsta barni síðastliðið sumar …
Vaka Vigfúsdóttir tók á móti sínu fyrsta barni síðastliðið sumar í Kaupmannahöfn.

Vaka Vigfúsdóttir hefur verið búsett í Kaupmannahöfn ásamt kærasta sínum, Ívari Elí Schweitz Jakobssyni, í rúmlega fjögur ár. Vaka og Ívar tóku á móti sínu fyrsta barni, Hugó Thor, á Ríkisspítalanum í Kaupmannahöfn í júlí 2022. Vaka segir tilhugsunina að ganga í gegnum meðgöngu og fæðingu á öðru tungumáli hafa verið mun verri en upplifunin leiddi í ljós, en hún lýsir Danmörku sem sannkallaðri paradís fyrir barnafólk. 

Fjölskyldan er búsett í Nørrebro ásamt franska bolabítnum Krumma og kunna afar vel við sig þar. Vaka segist alla tíð hafa verið haldin mikilli útþrá, enda elskar hún að ferðast og upplifa nýja staði og menningu. Hún hafði áður verið búsett í Lundúnum, en eftir töluvert flakk milli Íslands og Danmerkur haustið 2018 ákvað hún að láta danska drauminn rætast og flutti til Kaupmannahafnar í ársbyrjun 2019. 

Vaka skráði sig í skiptinám við Kaupmannahafnarháskóla, en hún varð strax hugfangin af borginni og skólanum sem er staðsettur í gömlum spítala í miðri borginni.

Ívar flutti til Kaupmannahafnar haustið 2018 til að stunda nám, …
Ívar flutti til Kaupmannahafnar haustið 2018 til að stunda nám, en Vaka flutti síðan út til hans í ársbyrjun 2019.

Upplifir Kaupmannahöfn eins og heimamenn

Seinna sama ár festu Vaka og Ívar kaup á afar fallegri íbúð í Nørrebro, en að sögn Vöku er hverfið á besta stað í Kaupmannahöfn. „Íbúðin er staðsett í húsi sem er yfir 100 ára gamalt við rólega götu þar sem hátt er til lofts og upprunalegar rósettur prýða loftin, sannkallaður danskur draumur. Í hverfinu er skemmtileg blanda af fólki frá öllum heimshornum, en hverfið er stútfullt af góðum veitingastöðum, sætum búðum og fallegum svæðum þar sem alltaf er nóg um að vera,“ útskýrir Vaka. 

Vaka er mikill fagurkeri, en þau Ívar hafa innréttað heimili …
Vaka er mikill fagurkeri, en þau Ívar hafa innréttað heimili sitt á afar smekklegan máta.

„Það má segja að hér upplifi maður Kaupmannahöfn eins og heimamenn þar sem lífið snýst um rólega sunnudaga í hverfinu þar sem rölt er á milli loppumarkaða og kaffihúsa og stress er ekki til í dæminu. Ein fallegasta gata Kaupmannahafnar, Jægersborggade, er í okkar nærumhverfi, en þar er hægt að finna dásamlegar litlar búðir, kaffihús og margverðlaunaða veitingastaði,“ bætir hún við. 

Vaka segir fjölskylduna vera afar lukkulega með hverfið enda njóti þau staðsetningarinnar til fulls og eru mestmegnis utandyra bróðurpart ársins. „Rétt handan við hornið er stór garður sem við erum dugleg að nota í gönguferðir, til að hitta vini eða sóla okkur á góðum sumardegi. Okkur þykir ótrúlega vænt um að fá að upplifa Kaupmannahöfn á þennan hátt á meðan við búum hér, í gamalli íbúð á lifandi stað í borginni þar sem við þurfum einungis að stökkva út um dyrnar til að fá innblástur,“ segir Vaka. 

„Núna, eftir fjögur ár, er Kaupmannahöfn enn að koma okkur …
„Núna, eftir fjögur ár, er Kaupmannahöfn enn að koma okkur á óvart og okkur líður alltaf meira eins og heima hjá okkur þó það sé alltaf jafn dýrmætt að kíkja heim til Íslands eða fá fjölskylduna í heimsókn hingað.“

„Óléttan kom okkur báðum á óvart“

Vaka og Ívar voru á leið í rómantíska ferð til Parísar þegar þau komust að því að þau ættu von á sínu fyrsta barni í nóvember 2021. „Óléttan kom okkur báðum á óvart en við fundum þó fljótt að þetta væri bara spennandi verkefni sem við vorum alveg tilbúin að kasta okkur í, enda búin að vera saman í fimm ár og ala upp loðbarnið hann Krumma,“ segir Vaka. 

„Við fórum til Parísar 10 dögum eftir að við komumst að óléttunni og varð sú ferð ekki alveg eins og við höfðum ætlað okkur. Ég var gífurlega þreytt og sofnuð klukkan níu öll kvöld. Þar með fuku langir rómantískir kvöldverðir og kampavínsglös út um gluggann, enda orkan oftast búin eftir flakk dagsins. Við áttum þó dásamlega daga í þessari einstöku borg þar sem við minntum hvort annað á það sem koma skyldi með tilhlökkun,“ bætir hún við. 

Eftir Parísarferðina hófu Vaka og Ívar að undirbúa íbúðina fyrir komandi breytingar og höfðu þar skynsemina í fyrirrúmi. „Við vorum ekkert að stressa okkur á að græja neitt alltof snemma. Okkur þótti mikilvægt að íbúðin væri enn okkar en myndi þó geta sinnt öllum þörfum lítils barns þegar að því kæmi,“ segir Vaka. 

„Við vönduðum valið og vorum dugleg að nýta okkur stóru …
„Við vönduðum valið og vorum dugleg að nýta okkur stóru „second hand“ senu Danmerkur í stað þess að strauja kortið fyrir milljónir í Babysam. Þá friðaði ég líka samviskuna fyrir kaupsýkinni með þeirri hugsun að ég væri að gefa hlutum nýtt líf og væri á sama tíma hagsýn húsmóðir – ekki svo galið.“

Mikil þreyta til að byrja með

Vaka lýsir meðgöngunni sem dásamlegri, enda hafi henni liðið ótrúlega vel og upplifði litla sem enga fylgikvilla. „Heimsástandið, sem enginn vill tala um lengur, hjálpaði fyrstu mánuðina þar sem þreytan lét segja til sín. Á þeim tíma var fólk hvatt til að vinna heiman frá og því auðvelt að taka því rólega heima við tölvuna með kaffibolla á meðan mesta þreytan gekk yfir. Svo fór allt á fullt aftur, en þá hafði ég endurheimt orkuna og meira en til í að fara að hitta samstarfsfélaga og vini mína aftur og lifa lífinu eins og ég er vön,“ útskýrir hún. 

Vaka hafði í mörgu að snúast á meðgöngunni, en tveimur vikum fyrir fæðingu Hugós útskrifaðist hún með meistaragráðu í stjórnun og stefnumótun frá Háskóla Íslands.  Í dag starfar hún sem mannauðsfulltrúi hjá dönsku gagnastjórnunarfyrirtæki þar sem hún sér meðal annars um ráðningar og utanumhald. „Svo les ég einnig inn bækur fyrir Storytel, skemmtileg blanda sem veitir mér ólíka ánægju í lífið,“ segir Vaka. 

„Daginn fyrir fæðingu þá hjólaði ég einmitt eina sjö kílómetra í stúdíóið til þess að klára að lesa inn bók, en ég tók það ekki í mál að skilja við verkið hálfklárað og því var ekkert annað í stöðunni en að skella sér á hnakkinn og drífa þetta af,“ bætir hún við og hlær. 

„Viðfangsefni meistararitgerðarinnar var vegferð kvenna upp metorðastiga atvinnulífsins í æðstu …
„Viðfangsefni meistararitgerðarinnar var vegferð kvenna upp metorðastiga atvinnulífsins í æðstu stjórnunarstöðu fyrirtækja, en leið þeirra getur orðið töluvert hlykkjóttari en karlkyns jafningja þeirra og þar spila barneignir stórt hlutverk. Það var því virkilega áhugavert viðfangsefni fyrir ólétta unga konu að hella sér yfir og vægast sagt nóg að gera þessa síðustu önn þar sem ég var í tveimur vinnum, að skrifa meistararitgerð og ólétt í hreiðurgerð.“

Keypti ekki eina einustu meðgönguflík

Vaka hefur alla tíð verið mikil tískudrós, en á meðgöngunni þótti henni fráleitt að eyða peningi og plássi í fataskápnum í meðgöngufatnað sem hún myndi einungis nota í örfáa mánuði. „Óléttukúlan lét lítið á sér bera þangað til rétt síðustu mánuðina, svo fram að því gat ég notað nánast öll fötin mín og keypti mér ekki eina einustu meðgönguflík,“ útskýrir Vaka og bætir við að henni hafi þar að auki þótt úrvalið af meðgöngufatnaði ábótavant. 

„Það var ákveðin áskorun að láta núverandi fataskáp ganga upp …
„Það var ákveðin áskorun að láta núverandi fataskáp ganga upp á meðgöngunni, en það heppnaðist og nú eru þó nokkrar flíkur sem mér þykir enn fallegri með kúlunni undir.“

Kaupmannahöfn er þekkt fyrir að vera mikil tísku- og hönnunarborg, en Vaka hafði gaman af því að fylgjast með tísku hjá öðrum ófrískum konum í borginni. „Ég valdi mér fyrst og fremst föt sem létu mér líða vel en passaði mig þó á því að minn eigin karakter og stíll hyrfi ekki þó ég væri ólétt. Strákurinn minn fæddist um mitt sumar, en hitinn þessa síðustu mánuði fór vel í mig og mér þótti þægilegt að þurfa ekki að vera kappklædd til að komast út um dyrnar,“ bætir hún við.  

Á meðgöngunni ferðaðist Vaka þvert og endilangt eftir borginni á …
Á meðgöngunni ferðaðist Vaka þvert og endilangt eftir borginni á hjóli.

Í gangsetningu á 39. viku

Tæpum þremur vikum fyrir settan dag kom í ljós að Vaka væri með óvenju háan blóðþrýsting og var í kjölfarið sett í strangt eftirlit. „Ég þurfti að mæta tvisvar í viku í blóðþrýstingsmælingu, CTG skanna og blóðprufu sem bentu svo til þess að ég væri mögulega með meðgöngueitrun. Því var ákveðið að ég yrði sett af stað á 39. viku,“ útskýrir Vaka. 

Vaka mætti upp á spítala í gangsetningu morguninn 7. júlí. „Við eyddum deginum á spítalanum umvafin frábærum ljósmæðrum, sóluðum okkur í spítalagarðinum og fórum í gönguferð í ísbúð rétt hjá á meðan við biðum eftir að hlutirnir færu að gerast. Undir kvöldið voru verkirnir farnir að aukast, en mér var ráðlagt að taka verkjalyf, reyna að sofa yfir nóttina og halda svo áfram næsta dag,“ segir hún. 

„Það gekk heldur betur ekki, en ég náði að sofa í einn og hálfan tíma áður en ég vaknaði við að ferlið væri komið á fullt,“ bætir hún við. 

Eftirviðburðarríka nótt kom Hugó Thor í heiminn á sólríkum morgni hinn 8. júlí 2022 á Ríkisspítalanum í Kaupmannahöfn. Vaka segir fæðinguna hafa gengið vonum framar og verið frábær upplifun í alla staði. 

„Hafði alltaf verið kvíðavaldandi tilhugsun fyrir mig“

Nýbökuðu foreldrarnir fengu að fara heim með soninn fimm tímum eftir fæðinguna þar sem allt gekk vel, en Vaka segir mikinn eril hafa verið á spítalanum þennan dag og þar sem blóðþrýstingurinn hafi verið eðlilegur hafi þau fengið að fara heim, þrátt fyrir gangsetningu.

„Fæðingin hafði alltaf verið kvíðavaldandi tilhugsun fyrir mig, en ljósmóðirin mín var dugleg að fylgjast með að sá kvíði myndi ekki sjóða upp úr á meðgöngunni. Ég get þó með sanni sagt að þrátt fyrir að fæðingin hafi verið líkamlega erfið þá var hún ein skemmtilegasta og mest valdaeflandi upplifun lífs míns,“ segir Vaka og lofsamar Ívar sem var ómetanlegur stuðningur í gegnum allt ferlið.  

„Það var mjög súrrealískt að ganga út af spítalanum með …
„Það var mjög súrrealískt að ganga út af spítalanum með litla snúðinn í bílstólnum, en við fórum beint heim í rólegheit þar sem beið okkar langþráð sushi.“

„Danmörk sannkölluð paradís fyrir ungt fólk með börn“

Eftir fæðinguna segir Vaka eftirlitið hafa verið svipað og á Íslandi, en í Danmörku haldi ljósmæður hins vegar áfram að koma í heimsóknir þar til barnið er átta mánaða og eru til taks símleiðis á milli heimsókna. „Það er mjög þægilegt fyrir nýbakaða foreldra sem eru með þúsund spurningar,“ segir hún. 

„Danmörk er sannkölluð paradís fyrir ungt fólk með börn. Hér er gott velferðarkerfi þar sem nær öll þjónusta er frí, góðar menntastofnanir, fallegir leikvellir á hverju strái og endalaust af skemmtilegri afþreyingu fyrir börn og foreldra. Hér eru margir sem sækja börnin tiltölulega snemma á leikskólann og skella sér svo á leikvöll þar sem börnin fá að leika lausum hala á meðan foreldrarnir hafa það notalegt með góðan kaffibolla eða bjór, enda enginn að kippa sér upp við slíkt hér í Danmörku,“ útskýrir hún. 

„Fjölskyldulífið er samruni lífs barnanna og foreldranna þar sem einingin …
„Fjölskyldulífið er samruni lífs barnanna og foreldranna þar sem einingin fylgist að og allir eru með, hvort sem það erá leikvellinum eða á fínum veitingastað.“

Tilfinningarússíbani fyrstu vikurnar

Vaka segir óumflýjanlegt tilfinningaflóð, bæði af góðum og slæmum toga, fylgja móðurhlutverkinu. „Þessi nýja ást er ólýsanleg og kvíðinn sem fylgir því að gera allt rétt lætur alveg finna fyrir sér inn á milli. Ég trúi því að lífið leiti bara í nýtt jafnvægi þar sem allir þrífast vel og eru sáttir, það þarf bara að gefa því smá tíma,“ útskýrir hún. 

Vaka upplifði allan tilfinningaskalann fyrstu vikurnar tengda brjóstagjöfinni. „Nú hefur orðið meiri vitundavakning um brjóstagjöfina og mér þykir það góð þróun, en sjálf hélt ég að þetta kæmi svolítið bara með kalda vatninu. En það kom á óvart hvað ég þurfti að hafa mikið fyrir þessu til að byrja með. Þetta var mikill tilfinningarússíbani fyrstu vikurnar að láta þetta allt saman ganga upp,“ segir hún. 

„Lukkulega heppnaðist brjóstagjöfin þó vel og njótum við þess enn …
„Lukkulega heppnaðist brjóstagjöfin þó vel og njótum við þess enn að eiga þessar stundir saman sjö mánuðum seinna og ætlum að halda áfram svo lengi sem allir eru sáttir.“

Láta ekkert stoppa sig

Vöku hefur gengið vel að fóta sig í nýju hlutverki, en þau Ívar voru staðráðin í að láta foreldrahlutverkið ekki stoppa sig. „Við erum miklar félagsverur með stóran vinahóp og höfum ekki látið það stoppa okkur í neinu sem okkur langar að gera að vera orðnir foreldrar, Hugó hefur bara fengið að fljóta með í matarboð og vinkonu hittinna. Ég tel það sérstaklega mikilvægt þar sem við búum erlendis, langt frá öryggisnetinu á Íslandi og ekki hlaupið að því að redda pössun við hvert tilefni,“ útskýrir Vaka. 

„Það sem hefur breyst mest eftir að Hugó kom í heiminn er að ég kann að meta dauða tímann töluvert betur – það að geta setið í rólegheitum með kaffibollann minn eða knúsast í hundinum okkar ótrufluð. Nú eru gæðastundirnar einfaldari og maður spyr sig hvað maður var eiginlega að gera við tímann sinn fyrir foreldrahlutverkið, en það var einhvernvegin alltaf brjálað að gera,“ segir Vaka. 

„Ég myndi ekki hika við að ganga út á heimsenda …
„Ég myndi ekki hika við að ganga út á heimsenda fyrir þennan litla unga. Við hringsnúumst bæði í kringum hann og myndum ekki vilja hafa það á neinn annan hátt, enda sjáum við ekki sólina fyrir honum. Markmið verða háleitari og metnaðurinn meiri þar sem nú er mættur annar einstaklingur í reikninginn sem ekkert má skorta.“

Mikilvægt að staldra við

Að lokum segir Vaka það vera góða reglu að hlusta á innsæið þegar kemur að foreldrahlutverkinu. „Það er gott að staldra við þegar foreldrahlutverkið verður yfirþyrmandi með öllum þeim ráðleggingum og reglum sem dynja yfir foreldra í dag með tilheyrandi samviskubiti. Maður gerir sitt allra besta og knúsar þau aldrei of mikið. Á þessum stuttu sjö mánuðum sem foreldri er líklega það besta sem ég hef verið minnt á að reyna að stressa sig ekki of mikið á litlu hlutunum,“ segir Vaka. 

„Annars er meðgangan sjálf eitt það magnaðasta sem mannslíkaminn gengur í gegnum og þykir mér sú pæling alveg sturluð að litli strákurinn minn hafi mótast og vaxið í maganum á mér í heila níu mánuði. Maður upplifir aldrei fyrstu meðgönguna aftur og ég vildi óska þess að ég hefði gefið mér örlítið meiri tíma stundum í að staldra við og njóta þess þegar ég fann litlar hreyfingar sem urðu svo fljótt að kröftugum spörkum,“ bætir hún við. 

„Ef ég verð svo heppin að eignast annað barn seinna …
„Ef ég verð svo heppin að eignast annað barn seinna á lífsleiðinni mun ég hafa þetta í huga og vera duglegri að taka mér tíma í að upplifa og meðtaka áður en ég held áfram með verkefni dagsins, þau fara lítið á meðan þessi mögnuðu augnablik líða fljótt hjá.“
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert