Stal senunni í hálfleik

Rihanna kom öllum á óvart í Ofurskálinni.
Rihanna kom öllum á óvart í Ofurskálinni. AFP

Tónlistarkonan Rihanna stal senunni í hálfleik Ofurskálar NFL-deildarinnar í Bandaríkjunum í nótt þegar hún steig á svið ólétt að sínu öðru barni. Níu mánuðir eru síðan Rihanna og kærasti hennar, tónlistarmaðurinn A$AP Rocky, eignuðust sitt fyrsta barn. 

Það er óhætt að segja að samfélagsmiðlar hafi farið á hliðina þegar Rihanna kom fyrst á sviðið, því strax fóru aðdáendur að spyrja hvort hún væri ólétt. Umboðsmaður Rihönnu staðfesti það svo við fjölmiðla. 

Rihanna og A$AP Rocky eiga von á sínu öðru barni.
Rihanna og A$AP Rocky eiga von á sínu öðru barni. AFP

Rihanna hafði þó gefið til kynna í viðtali vikunni fyrir að það myndi eitthvað óvænt gerast á sviðinu en aðdáendur virðast ekki hafa verið búnir undir þessi tíðindi. „Ég er að hugsa um að koma með einn. Ég er ekki viss, við sjáum til,“ sagði hún í viðtalinu. 

Aðdáendur klóruðu sér í kollinum, myndi hún njóta liðstyrks frá Jay-Z, Drake, eða kannski Eminem? Enginn bjóst allavega við því að hún myndi opinbera aðra meðgöngu sína. 

AFP
mbl.is