Getur mataræði dregið úr einkennum ADHD?

Ljósmynd/Pexels/cottonbro studio

Niðurstöður nýlegrar rannsóknar benda til þess að neysla ákveðinna matvæla geti dregið úr sumum einkennum hjá börnum með ADHD. Niðurstöðurnar hafa vakið athygli en rannsóknin var gerð í fylkisháskólanum í Ohio í Bandaríkjunum og birtist í Journal of the American Academy of Child and Adolescent Psychiatry. Science Daily fjallaði um rannsóknina á dögunum. 

Eins og flestum er kunnugt gegnir góð næring lykilhlutverki í heilbrigðri líkamsstarfsemi og hefur gefið góða raun sem hluti af meðferð við hinum ýmsu kvillum, bæði líkamlegum og andlegum, samhliða öðrum meðferðarúrræðum, til dæmis lyfja- og/eða sálfræðimeðferð. 

Rannsóknir á tengslum mataræðis og hegðunarraskana barna eru ekki nýjar af nálinni, en fyrsta rannsóknin á tengslum mataræðis barna og ADHD var gerð á þriðja áratug síðustu aldar. Síðan þá hafa orðið miklar framfarir í þekkingu og vísindum, en nýlegar rannsóknir benda til þess að heilnæmt mataræði sé mikilvægt fyrir börn með ADHD. 

Ljósmynd/Pexels/Alleksana

Gæti dregið úr einkennum 

Irene Hatsu, meðhöfundur rannsóknarinnar og dósent í næringarfræði við Ohio State University, segir rannsóknina draga upp þá mynd að heilsusamlegt mataræði, sem veitir börnum öll þau næringarefni sem þau þurfa, gæti hjálpað til við að draga úr einkennum ADHD. 

Í rannsókninni voru foreldrar 134 barna með ADHD á aldrinum 6 til 12 ára beðnir um að svara tveimur spurningalistum, annars vegar ítarlegum spurningalista um dæmigert mataræði síðustu 90 daga, og hins vegar spurningalista þar sem einkenni athyglisbrests barnanna voru metin. Niðurstöður sýndu að börn sem neyttu meira af ávöxtum og grænmeti sýndu vægari einkenni athyglisbrests.

Vert að kanna mataræði barna með ADHD

Þá vöru sömu gögn einnig notuð í tvær aðrar rannsóknir sem skoðuðu annars vegar inntöku barnanna á vítamínum og steinefnum, og hins vegar fæðuóöryggi. „Rannsóknir okkar benda til þess að það sé þess virði að kanna aðgengi barna að mat sem og gæði mataræðis þeirra til að sjá hvort það geti haft áhrif á alvarleika einkenna ADHD.

Vísindamenn telja að ADHD tengist skorti á sumum taugaboðefnum í heilanum, en vítamín og steinefni gegna lykilhlutverki í að hjálpa líkamanum að búa þessi taugaboðefni til sem og í heildarstarfsemi heilans,“ sagði Hatsu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert