„Ég var ekki móðirin sem ég vildi vera“

Bandaríska leikkonan Jane Fonda opnar sig um uppeldi barnanna sinna …
Bandaríska leikkonan Jane Fonda opnar sig um uppeldi barnanna sinna þriggja. AFP

Bandaríska leikkonan Jane Fonda segist ekki hafa vitað hvernig móðir hún ætti að vera fyrir börnin sín þrjú þegar hún var ung, en nú sé hún að reyna að bæta þeim það upp.

Fonda á þrjú börn, Mary Williams, Vanessu Vadim og Troy Garity sem eru núna á aldrinum 49 til 55 ára. Í viðtali hjá CNN sagðist Fonda ekki alltaf hafa verið besta móðirin. „Ég var ekki sú móðir sem ég vildi óska að ég hefði verið fyrir börnin mín. Ég á frábær börn – hæfileikarík og klár. Ég bara vissi ekki hvernig ég átti að gera þetta,“ útskýrði hún. 

Nú segist Fonda hafa sökkt sér ofan í fræðin á bak við uppeldi og viti núna hvernig það eigi að vera. „Ég vissi það ekki þá. Svo ég er að reyna að bæta þeim það upp núna,“ bætti hún við. 

Fyrrihluti ævinnar erfiðastur

Fonda hefur áður talað um áskoranirnar sem hún stóð frammi fyrir sem ung móðir. „Það er svo erfitt að vera ungur. Láttu engan blekkja þig. Hvað á ég að gera? Hvern á ég að þekkja? Hver á ég að verða? Hverju á ég að hafa áhuga á?“ sagði hún þegar hún kom fram í hlaðvarpinu Call Her Daddy. 

„Flestir erfiðleikar sem ég hef gengið í gegnum á lífsleiðinni áttu sér stað á fyrrihluta ævi minnar. Ég þjáðist af mjög, mjög slæmri lotugræðgi. Ég lifði leynilegu lífi. Ég var mjög, mjög óhamingjusöm og gerði ekki ráð fyrir að ég myndi ná 30 ára aldrinum,“ bætti hún við. 

mbl.is