5 kynlífsráð fyrir þreytta foreldra

Ljósmynd/Unsplash/We-Vibe Toys

Það getur reynst snúið að koma kynlífi inn í pakkaða dagskrá foreldra. Lisa Hochberger, kynlífsþerapisti í New York-borg, lumar þó á nokkrum góðum ráðum fyrir þreytta foreldra sem eiga erfitt með að finna tíma og orku fyrir kynlíf.

Í tímaritinu Self deildi Hochberger fimm góðum ráðum.

Snertu maka þinn yfir daginn

Hochberger segir snertingu vera afar mikilvæga, allt frá því að kveðja maka þinn með kossi áður en hann fer í vinnunna yfir í að kúra uppi í sófa. Hún segir mikilvægt að nánd eigi sér ekki einungis stað í kynlífi, heldur einnig í daglegu lífi. Þá geti snerting yfir daginn einnig verið frábær forleikur. 

Notaðu kynlíf sem „slökun“

Kynlíf er ekki bara samfarir, en Hochberger telur mikilvægt að pör upplifi kynlíf sem tíma fyrir slökun. Þannig sé hægt að forðast væntingar um samfarir eða fullnægingu, en í staðinn er áhersla lögð á að njóta. 

Skipuleggðu tíma fyrir kynlíf

„Slepptu þeirri mýtu að tímasetningar og skipulag geti ekki verið kynþokkafullt,“ segir Hochberger. „Þegar þú vaknar klukkan sex alla morgna, ferð í vinnuna og ert svo að skutla krökkunum og græja mat, þá geta mánuðir liðið án þess að nokkuð gerist í rúminu.“

Vertu með plan-B tímasetningu

Það er margt sem getur komið óvænt upp sem veldur því að sunnudagskvöldið sem þið höfðuð tekið frá fyrir kynlíf fer í eitthvað annað. Þá er mikilvægt að vera með aðra tímasetningu tilbúna.

Ekki vera með barnaleikföng í svefnherberginu

Gerið svefnherbergið notalegt og fjarlægið öll barnaleikföng þegar þið ætlið að njóta þess að eiga góða og nána stund saman. Það eru þó ekki öll leikföng á bannlista, og sum geta jafnvel kryddað upp kynlífið. 

mbl.is