Að kveikja áhuga barna á lestri

Lestur er alltaf bestur.
Lestur er alltaf bestur. mbl.is/Styrmir Kári

Rannsóknir Hermundar Sigmundssonar prófessors sýna sterkt samband miklli ástríðu og flæðis, og milli þrautseigju og flæðis, og þessa þætti vill hann efla og nýta til að ná meiri árangri í lestrarkennslu hér á landi. Í þessari grein fjallar Hermundur um hvernig þessir þættir samtvinnast.

Í þessum pistli mun ég fjalla um tvö módel sem tengjast árangri og áhugahvöt.

Mynd 1: Árangur og áhugahvöt

Ef við skoðum mynd 1 þá sjáum við ör sem stefnir á árangur. Árangur getur verið alla vega. En í okkar tilfelli viljum við bæta lesskilning. Þar eru tveir lykilþættir. Fyrsti þátturinn er að ná að brjóta lestrarkóðann, eða ná umskráningu, sem er að kunna bókstafina og þeirra hljóð. Við köllum það bókstafshljóðakunnáttu.

Okkar rannsóknir sýna að barn þarf að kunna 19 bókstafi og þeirra hljóð til að ná læsi eða geta lesið orð eins og ÍS, HÚS, EPLI, MATUR, HUNDUR. Sú rannsókn var gerð á norskum börnum. Í Noregi eru 29 bókstafir í stafrófinu, en á Íslandi erum við með fleiri eða 35. Miðað við norsku rannsóknina erum við að tala um 23 bókstafi og þeirra hljóð í íslenska stafrófinu til að brjóta lestrarkóðann.

Annar þátturinn er málskilningur. Það að skilja tungumálið, orð og hugtök eða að efla/auka orðaforða. Það er verkefni sem er sérlega mikilvægt á fyrstu árunum, í gegnum allan grunnskólann og allt lífið. Hvað þarf til að efla þessa þætti. Jú, þjálfun, mikla þjálfun. Hvernig sköpum við og eflum áhuga/áhugahvöt til að takast á við slíka þjálfun.

Ástríða, þrautseigja og gróskuhugarfar

Þá komum við að öðrum þáttum í okkar módeli: Ástríðu, þrautseigju og gróskuhugarfari.

Ástríða: Ástríða stjórnar stefnu örvarinnar, í okkar huga er það læsi að efla lestur og lesskilning. Þá þurfum við að skapa áhuga. Áhugi skapast með því að takast á við verkefni sem okkur finnst vera áhugaverð, skemmtileg og spennandi. Að finna ástríðuna og þróa hana er mikilvægur lykill. Þar má segja að fá að velja bækur, texta, sé mjög mikilvægt. Í okkar verkefni, Kveikjum neistann, er mikilvægt að barnið fái frá fyrsta degi í skólanum að velja bók sem það vill lesa. Kennarar hafa þá flokkað bækur eftir erfiðleikastigi og þeir vita hvaða stig hvert barn getur valið frá. Hvernig vita kennarar það? Jú, með því að hafa framkvæmt einfalt stöðumat með bókstafshljóðaprófinu.

Þrautseigja: Ef við skoðum aftur myndina þá sjáum við þrautseigju. Þrautseigja er stærð og styrkur örvarinnar. Það er að segja orkan sem við leysum úr læðingi. Við finnum mjög hátt samband milli ástríðu og þrautseigju í okkar rannsóknum. Sterkur áhugi býr til mikla orku og vilja til að takast á við verkefni sem okkur finnst spennandi.

Gróskuhugarfar: Gróskuhugarfar er undirliggjandi þáttur sem er lykill að því að ná árangri. Það að trúa á vöxt, það að getum bætt okkur, á að vera alltumlykjandi í kringum börn og unglinga. Við sem foreldrar og kennarar gegnum lykilhlutverki í að byggja upp umhverfi grósku. Þar sem stikkorðið er „ekki enn“. Ef barnið, sem vill öðlast góðan lesskilning en er ekki alveg þar ennþá er spurt hvort það sé með góðan lesskilning þá á það að svara „ekki enn“. Þá liggur trúin á vöxt hjá barninu og það er mjög mikilvægt.

Mynd 2: Áskoranir miðað við færni Ég get!

Ef við skoðum mynd 2 þá byggist hún á rannsóknum hins frábæra vísindamanns Csikszentmihalyi um „flæði“. Þar sjáum við að y-ásinn stendur fyrir áskoranir og x-ásinn fyrir færni. Þegar jafnvægi er þar á milli kemst barnið i flæði. Í flæði upplifir einstaklingur að hafa vald á því sem hann er að gera og tilfinninguna „Ég get“. Algjör lykill er að barnið fái réttar áskoranir miðað við færni.

Hermundur Sigmundsson prófessor við Háskóla Íslands og Norska tækni- og …
Hermundur Sigmundsson prófessor við Háskóla Íslands og Norska tækni- og vísindaháskólann. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ef áskoranir eru í samsvari við ástríðu eða áhuga barnsins er von á góðum árangri. Í gegnum ástríðuna styrkist samspil við þrautseigjuna. Þegar barnið er á rauðu svæði eru áskoranir ekki stórar en passa við færni barnsins. Við höfum sagt að þá sé barnið að leggja grunninn að því að brjóta lestrarkóðann.

Á gulu svæði hefur barnið brotið lestrarkóðann og fær þá meiri áskoranir, getur byrjað að lesa bækur sem passa fyrir færni þess. Teiknað mynd og skrifað texta um myndina. Á grænu svæði hefur barnið náð læsi og getur þá tekist á við stærri áskoranir. Lykillinn er að skapa/styrkja áhugahvöt gegnum áskoranir miðað við færni og að barnið fái að takast á við áhugaverð verkefni.

Hvort sem það er lestur bóka, vinna með orð og hugtök, skapandi skrif eða framsögn sem tengist áhugasviði. Okkar rannsóknir sýna sterkt samband milli ástríðu og flæðis og milli þrautseigju og flæðis. Það er að segja að vinna með áhugaverð verkefni skapar flæði og að vera í flæði skapar aukna ástríðu. Sama má segja um þrautseigju og flæði. Þrautseigja skapar flæði og að vera í flæði skapar aukna þrautseigju.

Í Kveikjum neistann-verkefninu í Vestmannaeyjum vorum við svo heppin að fá Kára Bjarnason og hans starfsfólks á Bókasafni Vestmannaeyja til samstarfs. Þau hafa merkt yfir 5.000 bækur fyrir börn og unglinga eftir erfiðleikastigi sem er alveg ómetanlegt til að börn geti valið bækur með rétt erfiðleikastig og þannig fengið áskoranir miðað við færni.

Csikszentmihalyi talar um hugtakið „autotelic“ sem er hægt að þýða sem auto = sjálf og telic = markmið. Hann segir að það að fá að velja sjálfur sín markmið eða að velja viðfangsefni sé gífurlega mikilvægt til að byggja upp áhugahvöt.

Það má því segja að það að ná að skapa sterkan áhuga og styrkja áhugahvöt sé háð því að börn upplifi að þau nái valdi á verkefnum sínum eða tilfinninguna „Ég get!“ og fái að vinna með verkefni sem kveikir neista hjá þeim.

Hermundur Sigmundsson er prófessor við Háskóla Íslands og Norska tækni- og vísindaháskólann.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert