Fermdist árið 2007 og fermir nú í fjórða sinn

Pétur Ragnhildarson fermdist árið 2007. Núna er hann 29 ára …
Pétur Ragnhildarson fermdist árið 2007. Núna er hann 29 ára prestur í Breiðholtsprestakalli. Ljósmynd/Samsett

Pétur Ragnhildarson, prestur í Breiðholtsprestakalli, var vígður prestur fyrir þremur árum, þá aðeins 26 ára. Hann segir ungan aldur ekki hafa mikil áhrif á starfið þó svo einu sinni hafi verið hringt og beðið um fullorðinn prest. Hann fermir börn eins og undanfarin ár en þegar hann fermdist hélt hann óhefðbundna fermingarveislu. 

Pétur segir fermingar alveg einstakt tímabil í kirkjunni.

„Það er svo mikil eftirvænting, bjartsýni og gleði í loftinu. Í fermingarathöfninni sjálfri eru ungmennin að ljúka áfanga eftir veturinn þar sem þau hafa fengið fjölbreytta fræðslu og tekið þátt í skemmtilegum viðburðum. Þau eru mjög spennt fyrir fermingardeginum sínum, degi þar sem þeim er fagnað og þau taka þá góðu ákvörðun að gera Jesú að leiðtoga lífsins. Þetta eru mikil tímamót fyrir fermingarbörnin,“ segir Pétur.

Hefur þú alltaf verið trúaður?

„Ég er svo heppinn að vera alinn upp í kristinni trú svo ég lærði biblíusögur og að biðja sem lítill drengur. Ég hef því alltaf átt trú síðan ég man eftir mér en svo á menntaskólaárunum þegar ég fór að kynna mér málin betur sjálfur þá dýpkaði trúin og varð að því sem hún er í dag. Trúin er nefnilega ferli, með tímanum fékk trúin að vaxa innra með mér. Eitt sinn var sagt við mig að það væri heimskulegt að trúa eins og það að trúa fæli í sér að slökkva á gagnrýnni hugsun. Ég svaraði viðkomandi þá að tilvistarspurningar sem hann hefur afgreitt í eitt skipti fyrir öll er ég að kljást við á hverjum degi. Við sem játum kristna trú og iðkum hana erum stöðugt að hugsa, íhuga trú okkar og afstöðu til lífsins. En það sem er svo gott við trúna er að þá á ég þetta traust, traust til Guðs sem ég vil byggja líf mitt á og hvíla í.“

Úr lögfræði í guðfræði

Lá það beint við að fara í guðfræði eftir framhaldsskóla?

„Það hafði alltaf blundað í mér að verða prestur en eftir menntaskólann fór ég í lögfræði og varði tveimur árum þar. Á þessum tíma starfaði ég í æskulýðsstarfi kirkjunnar og fann mig vel í því. Ég var sífellt að hugsa hvernig ég gæti nýtt laganámið í kirkjustarfinu og ákvað svo að lokum að fara í guðfræði og sá svo sannarlega ekki eftir því.

Ég vígðist sem prestur 1. mars 2020 og var þá yngsti prestur landsins, 26 ára gamall. Ég var ekkert smá spenntur að byrja að starfa og leggja mín lóð á vogarskálarnar en svo einungis tveimur vikum síðar voru komnar samkomutakmarkanir vegna kórónuveirunnar og allt hefðbundið safnaðarstarf sett á ís. Fyrstu árin mín í prestsskap áttu því eftir að verða frekar óhefðbundin en mjög lærdómsrík. Það vakti stundum athygli hvað ég væri ungur prestur en mín upplifun var sú að fólk væri mjög jákvætt fyrir því. Eitt sinn hafði reyndar samband við kirkjuna kona sem vantaði prest vegna útfarar og var bent á mig. Daginn eftir hringdi hún aftur upp í kirkju og spurði hvort þau ættu einhvern fullorðinn prest í staðinn. Mér finnst þetta mjög fyndin saga en almennt var mér alltaf tekið vel þegar ég var að taka mín fyrstu skref í starfi.“

Hvað leggur þú áherslu á í fermingarfræðslunni?

„Aðaláherslan er á að börnunum líði vel í fræðslunni og eignist jákvæðar minningar af fermingarstarfinu. Þar sem ég starfa höfum við verið með ýmsa viðburði til hliðar við hina hefðbundnu fermingartíma til þess að hafa fræðsluna fjölbreyttari. Ég hef alltaf lagt áherslu á að kenna biblíusögur og reyna að miðla þeim til þeirra þannig að þær veki áhuga og verði þeim eftirminnilegar. Verkefni okkar presta í fermingarfræðslunni er einmitt að kenna fermingarbörnunum þessi grunnatriði kristinnar trúar, að þau læri að biðja, þekki biblíusögur og boðskap þeirra. Það er gott veganesti út í lífið sem er ekki sjálfsagt í dag að þau eignist annars staðar en í fermingarfræðslunni.“

Aldurinn skiptir ekki máli

Þú ert að fara að ferma í fjórða sinn, er þetta alltaf eins eða verður maður betri í að ferma?

„Það er auðvitað með fermingar eins og allt annað að því oftar sem maður gerir það því öruggari verð maður í því. Ég hef komið að mjög mörgum fermingarathöfnum þar sem í kórónuveirufaraldrinum voru þetta oft fámennar athafnir, stundum bara tvö til fjögur börn í sömu athöfn. Suma daga vorum við því með fjórar til fimm athafnir svo ekki leið á löngu þar til ég var orðinn reyndur í því að ferma.“

Finnst þér þú ná á einhvern hátt öðruvísi til fermingarbarna en hinir prestarnir af því að þú ert nær þeim í aldri?

„Ég held að aldurinn hafi mjög lítið að segja að þessu leyti þar sem sá prestur sem náði minni athygli á hvað bestan hátt var sjálfur að nálgast sjötugt. Aðalatriðið er að mæta fermingarbörnunum þar sem þau eru, sýna þeim einlægan áhuga og reyna að gera efnið lifandi fyrir þeim.“

Hafa krakkarnir kennt þér eitthvað í vetur?

„Ég læri alltaf eitthvað nýtt með hverjum fermingarárgangi. Fermingarbörnin sjá hlutina með sínum hætti og komast oft beint að kjarna málsins. Þegar ungmennin komast á flug þá er gaman að rabba við þau, kynnast pælingum þeirra og hvernig þau sjá heiminn. Í vetur hefur verið mjög sterkt í huga mínum hvað það skiptir miklu máli að foreldrarnir sinni vel börnunum sínum á þessum aldri. Að þau séu þátttakendur í lífi barnanna. Það gefur svo mikið og það er dýrmætt fyrir fermingarbörnin að finna áhuga þeirra og hlýju.“

Sér Pétur á fermingardaginn.
Sér Pétur á fermingardaginn.

Sviðið breyttist í hlaðborð

Hvernig var fermingin þín?

„Mín ferming var reyndar frekar óhefðbundin þar sem í staðinn fyrir að bjóða til hefðbundinnar veislu bauð ég fólkinu mínu til leiksýningar. Ég lék aðalhlutverkið í þeirri sýningu og svo eftir að leikritinu lauk breyttist sviðið í hlaðborð fyrir gestina. Móðir mín átti hugmyndina að þessari útfærslu sem sló eftirminnilega í gegn.

Við fjölskyldan fórum svo á kransakökunámskeið og gerðum þar kransakökur sem gestum var boðið upp á í veislunni. Mín þótti reyndar ekki alveg nógu flott útlitslega svo hún var geymd heima fyrir nánustu fjölskyldu eftir veisluna.“

Finnst þér eitthvað hafa breyst síðan þú fermdist?

„Eitt af því sem breytist auðvitað alltaf á milli fermingarára er tískan sem er í gildi. Ég til dæmis var með ljósar strípur þegar ég fermdist 2007 enda hnakkatískan í hápunkti. En að öllu gamni slepptu þá er stærsta breytan sem ég sé auðvitað tilkoma snjalltækja og samfélagsmiðla. Það er ótrúleg breyting á einungis nokkrum árum sem hefur mikil áhrif á fermingarbörnin.

Kjarni fermingarfræðslunnar hefur ekki breyst þótt umgjörðin og kennsluaðferðirnar hafi ef til vill gert það. Boðskapur Jesú og kristin trú falla aldrei úr gildi og eiga alltaf erindi við okkur. Að fylgja Jesú er ein besta ákvörðun sem hægt er að taka. Líf með honum er líf í fullri gnægð, líf sem gefur af sér. Þegar við tileinkum okkur kærleiksboðskap Jesú verðum við besta útgáfan af sjálfum okkur og verðum farvegur fyrir kærleika hans. Þeir sem fylgja Jesú verða ekki fyrir vonbrigðum enda getum við leitað til hans með bæninni hvar sem við erum stödd í lífinu og hvernig sem okkur líður. Þetta dýrmæta vinasamband við hann er ómetanlegt og getur reynst okkur traust haldreipi á göngu lífsins. Þess vegna óska ég öllum fermingarbörnum, nær og fjær innilega til hamingju með ferminguna í vor og þessa góðu ákvörðun sem hefur reynst okkur mörgum svo vel.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.185 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »