Bestu vinkonur og fermast tvær saman

Herdís Arna Úlfarsdóttir fermist á annan í páskum.
Herdís Arna Úlfarsdóttir fermist á annan í páskum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Herdís Arna Úlfarsdóttir ætlar að fermast með bestu vinkonu sinni á annan í páskum. Hún valdi að fermast í kirkju þar sem hún trúir á guð. Herdís Arna ætlar að baka sjálf fyrir ferminguna sína.

Hvar og hvenær fermist þú?

„Ég fermist í Garðakirkju hinn 10. apríl, á annan í páskum, en ég og ein af bestu vinkonum mínum, Bergþóra Hildur, fermumst tvær saman. Amma Bergþóru er Jóna Hrönn Bolladóttir prestur og ætla hún og Matthildur föðursystir Bergþóru að ferma okkur.“

Hvaða áhugamál áttu þér?

„Ég æfi frjálsar íþróttir hjá ÍR og síðan er ég í unglingakór Vídalínskirkju. Mér finnst einnig mjög gaman að baka, les mikið, mála og vera á hestbaki.“

Hvaða væntingar ertu með varðandi fermingardaginn?

„Góður dagur með ættingjum og vinum.“

Hvernig veislu ætlið þið að halda?

„Ég á mjög stóra fjölskyldu en foreldrar mínir eiga samtals 10 systkini þannig að líklega verður um 100 manns boðið. Við ætlum að hafa matarvagn, erum að reyna að ákveða hvaða vagn við viljum hafa. Síðan ætla ég að baka sjálf kökur til að hafa í eftirrétt en ég elska að baka.“

Hvað finnst þér skemmtilegast að baka og hvað ætlar þú að baka fyrir ferminguna þína?

„Mér finnst skemmtilegast að baka súkkulaðikökur og kökur sem hægt er að skreyta. Mér finnst líka mjög gaman að baka bollakökur og skreyta þær. Ég er alveg dugleg að reyna að finna nýjar uppskriftir og prufa að baka þær, en oftast baka ég kökur sem ég get skreytt. Fyrir ferminguna mína er ég búinn að ákveða að gera Dumlegott og svo ætla ég líka að baka franska súkkulaðiköku.“

Hér er Herdís Arna ásamt foreldrum sínum, Úlfari Ragnarssyni og …
Hér er Herdís Arna ásamt foreldrum sínum, Úlfari Ragnarssyni og Lindu Björk Halldórsdóttur. Með þeim á myndinni eru bræður hennar þeir Kristján Ragnar og Bjarki Már.

Hvað dreymir þig um í fermingargjöf?

„Mig langar í upplifun með fjölskyldunni minni eins og utanlandsferð en annars er ég mjög lítið að hugsa um þetta.“

Í hvernig fötum ætlarðu að vera?

„Mig langar að vera í kjól og er að byrja að skoða þá þessa dagana með mömmu.“

Ætlar þú að fara í hárgreiðslu?

„Ég er svo heppin að mágkona mömmu er hárgreiðslukona og ætlar að greiða mér. Mig langar að hafa blóm og greiðslu þar sem krullurnar mínar fá að njóta sín.“

Hvernig verður veislan?

„Veislan verður í stærri kantinum og hef ég fengið að ráða hvað verður í boði í samráði við forelda mína. Ég er ekki búin að ákveða hvort einhver atriði verða.“

Til hvers hlakkar þú mest á fermingardaginn?

„Ég hlakka til að njóta dagsins með ættingjum og vinum. En það verður líka gaman að eiga dekurdag fyrir mig, fara í hárgreiðslu og fá förðun og svoleiðis,“ segir Herdís Arna.

Stutt síðan stóri bróðir fermdist

Hjónin Linda Björk Halldórsdóttir og Úlfar Ragnarsson fylgdust með syni sínum fermast fyrir tveimur árum svo þau eru öllu vön. „Herdís Arna er fermingarbarn númer tvö, en Kristján Ragnar fermdist fyrir tveimur árum. Við erum mjög vön að aðstoða ættingja við veislur og höfum svo sem haldið ýmsar veislur áður eins og stórafmæli, útskriftir og skírnir. Okkar mottó er líka að reyna að njóta og þetta þarf ekki að vera flókið þótt það sé alltaf einhver vinna í kringum veisluhald,“ segir Linda Björk.

Hvernig er að eiga ungling í dag?

„Við eigum tvo unglinga og erum í raun mjög heppin með þau. Rólegri og þægilegri unglinga er varla hægt að hugsa sér. Þau eru á fullu í íþróttum og finnst notalegt að eiga gæðastundir með okkur og litla bróður sínum á milli þess sem þau stunda æfingar og keppni.“

Hafi þið foreldrarnir lært eitthvað í gegnum fermingarfræðsluna?

„Það er kannski ekki eitthvað eitt sem við höfum lært en mikilvægir hlutir sem minnt er á og mega ekki gleymast. Eins og til dæmis að tala við unglinginn, fá hans álit og leyfa honum að vera með í ákvarðanatöku, sérstaklega í málefnum sem varða hann sjálfan. Einnig eyða tíma saman, það er líklega besta forvörnin, að gera eitthvað saman sem allir hafa gaman af.“

Var þín veisla frábrugðin veislunni sem þið eruð að skipuleggja?

„Veislan í sjálfu sér er ekkert mikið frábrugðin að því leyti að nánustu ættingjum og vinum verður boðið að fagna með okkur deginum. Vissulega hafa skreytingar og það sem boðið verður upp á breyst í gegnum tíðina, jú og kannski föt fermingarbarnsins. En fyrst og fremst verður þetta bara notalegur dagur með okkar nánustu.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.185 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »