Félagslífið í kirkjunni skemmtilegt

Fermningarmæðgurnar Tinna Karítas og Kolbrún Pálína.
Fermningarmæðgurnar Tinna Karítas og Kolbrún Pálína. Ljósmynd/Aldís Pálsdóttir

Tinna Karítas Þrastardóttir er mjög ánægð með fermingarveturinn og hefur sótt félagsstarfið í kirkjunni af krafti. Móðir hennar, Kolbrún Pálína Helgadóttir, segir þær mæðgur hafa dúllað sér í vetur við að undirbúa ferminguna sem verður í anda fermingarbarnsins.

Af hverju ætlar þú að fermast?

„Af því að ég vil halda upp á trúna,“ segir Tinna Karítas, spennt fyrir komandi fermingu.

Hvað hefur verið skemmtilegast í fermingarfræðslunni?

„Allur söngurinn, en við syngjum nánast í hverjum einasta tíma, kynnast krökkunum betur og læra meira um trúna. Fermingarferðin í Vatnaskóg stendur samt alveg upp úr. Hún var æði.“

Hvaða áhugamál hefur þú?

„Ég hef mikinn áhuga á söng og leiklist. Í vetur hefur það líka verið áhugamál mitt að stunda félagslífið í Lindakirkju en þar er alltaf verið að gera eitthvað skemmtilegt. Svo er ég nýbyrjuð í Unglinga-gospelkór Lindakirkju og er mjög spennt fyrir því.“

Færð þú að koma með óskir um hvernig veislan verður?

„Já, ég byrjaði snemma að pæla í fermingunni með fjölskyldunni minni enda svolítið spennt. Ég sendi mömmu og pabba reglulega alls konar myndir af fötum og hári og hugmyndir sem ég hef fengið.“

Ertu búin að finna föt?

„Já, ég er búin að finna föt, ég valdi mér mjög fallegan ljósan kjól úr 17, sokkabuxur og Nike-skó við.“

Ferð þú í hárgreiðslu?

„Ég fer í hárgreiðslu á fermingardaginn til Oddnýjar Guðrúnar Stefánsdóttur, vinkonu okkar, en ég er búin að fara í prufugreiðslu og var mjög ánægð. Ég ákvað sjálf hvernig mig langaði að hafa hárið og fann myndir á netinu sem ég gat sent henni.“

Hvað dreymir þig um í fermingargjöf?

„Fermingarferð, peninga fyrir framtíðina, Royal Copenhagen-bolla með stafnum mínum og skartgripi.“

Ertu með hlutverk í veislunni?

„Ég ætla að segja nokkur orð og bjóða alla gestina velkomna. Svo langar mig að vera með páskabingó og gleðja nokkra gesti.“

Gaman að eiga minningar um tvær ólíkar veislur

Mæðgurnar eiga það sameiginlegt að finnast undirbúningurinn skemmtilegur og segir Kolbrún Pálína að undirbúningurinn hafi verið öðruvísi þegar bróðir Tinnu Karítasar fermdist.

„Hann hefur verið einstaklega ánægjulegur og áreynslulaus að mestu þar sem við leyfðum okkur að vera snemma í því að hefja undirbúninginn enda fermingin bara handan við hornið. Það sakar ekkert hvað okkur þykir þetta bras skemmtilegt,“ segir Kolbrún Pálínar þegar hún er spurð að því hvernig fermingarundirbúningurinn hafi verið.

„Það er allt klárt sem snýr að fermingarbarninu á þessum tímapunkti. Hún hefur verið mjög dugleg að senda mér hugmyndir að ýmsu sem snýr að deginum sem heillar hana og henni finnst fallegt. Við sóttum fermingarsýningarnar sem voru í blómabúðunum og fengum þar alls kyns innblástur. Nú þarf foreldrateymið bara að skella í góða veislu fyrir dömuna.“

Hvernig veislu ætlið þið að halda?

„Við ætlum að halda ferminguna heima fyrir að þessu sinni, njóta þess að halda upp á daginn með okkar nánustu ættingjum og vinum og eiga fallega stund með Tinnu Karítas og skapa minningar sem hún getur yljað sér við út lífið. Við fáum gestina til okkar seinni part dags og veitingarnar því í léttu kvöldmatarformi með sætum bita á eftir.“

Það eru fimm ár síðan sonurinn, Sigurður Viðar, fermdist og þá var veislan í sal með tilbúnum veitingum. „Það verður að viðurkennast að undirbúningurinn var örlítið einfaldari fyrir vikið. Eins hafði hann nú ekki alveg jafn sterkar skoðanir á litaþema og skreytingum og systir hans. Okkur finnst því gaman að prófa að halda persónulegri veislu að þessu sinni, það er langt síðan margir hafa komið saman og þess háttar. Svo það verður bara frábært að eiga minningar um tvær ólíkar veislur.“

Hvernig ætlið þið að búa til góða stemningu í veislunni?

„Fermingarbarnið hún Tinna Karítas er mikill gleðigjafi og elskar að hafa allt fólkið sitt í kringum sig. Hún mun því bera stuðið uppi að mestu. Við ætlum að hafa myndakassa en reynslan hefur sýnt manni að það er alltaf vinsælt og skapar góða stemningu. Eins langar Tinnu að hafa páskabingó sem gæti verið mjög skemmtilegt svona til að skapa smá stuð.“

Hefur þroskast hratt í vetur

Er eitthvað stressandi við ferlið?

„Nei, alls ekki. Þetta er ekkert nema skemmtilegt finnst mér, sérstaklega þegar fermingarbarnið hefur alls kyns skoðanir og nýtur undirbúningsins með okkur foreldrunum.“

Hvernig er að fylgjast með barninu sínu fermast?

„Það fylgja því alls konar blendnar tilfinningar finnst mér að fylgjast með barninu sínu fermast. Það er búinn að eiga sér stað mjög mikill og hraður þroski undanfarna mánuði, bæði með fermingarfræðslunni og öðru sem fylgir í kringum þetta. Það er auðvitað dásamlegt að sjá börnin sín fullorðnast og fá að taka þátt í því hvers konar manneskjur þau koma til með að verða ásamt öllum sem nærri þeim standa, sem og skólanum og kirkjunni. Lindakirkja hefur haldið úti frábærri fermingarfræðslu og hefur boðið upp á einstakt félagsstarf, farið í ferðalag og margt fleira sem hefur gefið fermingarbörnunum mikið, samanber aukið sjálfstraust og gleði.“

Hvernig var þín ferming?

„Ég átti frábæran fermingardag. Veislan var haldin í litlum sal og nánustu ættingjum var boðið. Mér finnst mjög fallegt nefnilega hvað hefðirnar hafa lítið breyst frá því að ég fermdist. Sjálf var ég í beige-lituðum hnésíðum kjól og þröngum svörtum jakka yfir. Dress sem myndi alveg ganga upp í dag. Mér finnst samt skemmtilegt að sjá ungu stelpurnar í dag blanda saman fallegum kjólum og töffaralegum strigaskóm og leyfa sér að vera nákvæmlega eins og þeim líður best,“ segir Kolbrún Pálína og er það nákvæmlega það sem dóttir hennar ætlar að gera.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.185 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »