„Það gekk allt eftir áætlun en ég var mjög stressuð“

Kristel fann fermingarkjólinn sinn í Kjólum og konfekti.
Kristel fann fermingarkjólinn sinn í Kjólum og konfekti. Ljósmynd/Dóra Dúna

Kristel Eva Kristófersdóttir er í tíunda bekk Garðaskóla. Hún fermdist í Vídalínskirkju í Garðabæ 20. mars 2021 og fylgdi því töluvert stress þar sem heimsfaraldur geisaði.

Hvernig var fermingardagurinn þinn?

„Fermingardagurinn minn var mjög góður og skemmtilegur,“ segir Kristel Eva.

Kom eitthvað óvænt upp á?

„Það gekk allt eftir áætlun en ég var mjög stressuð um að ég gæti ekki fermst út af Covid-19. Eftir mína fermingu var hætt við allar aðrar fermingar út af hertum samkomutakmörkunum.“

Hvernig var veislan?

„Ég fermdist í miðjum kórónuveirufaraldri, á þeim tíma voru samkomutakmarkanir og þurftum við að halda tvær veislur fyrir fjölskylduna. Mér fannst mjög leiðinlegt að fjölskyldan gat ekki verið öll saman en það var samt mjög gaman að hitta alla og fagna fermingardeginum með þeim. Það var töluvert meira vesen að halda tvær veislur en það gekk allt upp.“

Hvað fékkstu í fermingargjöf?

„Ég fékk mjög flottar fermingargjafir. Ég fékk sjónvarp, rúm, farsíma, ferðatöskur, skartgripi, peninga og fleira. Ég keypti mér úlpu og ákvað að leggja restina af peningunum inn á sparnað hjá bankanum mínum, ég setti pening inn á framtíðargrunn og í verðbréfasjóð. Þegar ég lagði peningana inn á sparnað gaf bankinn mér peninga, held að það hafi verið 12.000 krónur.“

Hvernig voru fermingarfötin?

„Ég fermdist í hvítum blúndukjól frá Kjólum og konfekti og var í hvítum Nike-skóm.“

Hvað var skemmtilegast við allt fermingarferlið?

„Skemmtilegast við fermingarferlið er að fara í gegnum þetta allt með vinum mínum og fara í ferðir með þeim. Í einni ferðinni fórum við í Vatnaskóg, við gistum þar eina nótt og það var mikið stuð, kvöldvaka og bátsferð. Það var áhugavert að læra um trúna og gera verkefnin með vinum mínum. Við fengum líka góðar veitingar í fræðslunni.“

Kristel fermdist í Vídalínskirkju.
Kristel fermdist í Vídalínskirkju. Ljósmynd/Aðsend
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.185 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »