Sparar ekki endilega svo mikið með því að elda sjálf

Línu Guðnadóttur þykir fátt skemmtilegra en að halda veislur en hún reynir að láta tímann vinna með sér og er ófeimin við að fá aðstoð fagmanna. Það hefur mikið gengið á hjá Línu Guðnadóttur og fjölskyldu undanfarin ár því þau hafa haldið þrjár fermingarveislur á fimm árum.

Lína er einkaþjálfari hjá Hress og á með manni sínum tvær uppkomnar stjúpdætur og að auki þrjár dætur á táningsaldri. Fjölskyldan er í söfnuði Hvítasunnukirkjunnar og voru dæturnar því ekki fermdar heldur fengu það sem kirkjan kallar unglingablessun.

„Sá munur er á siðum þjóðkirkjunnar og Hvítasunnukirkjunnar að í stað þess að skíra börn skömmu eftir fæðingu fá börnin blessun og nafngjöf. Í stað þess að staðfesta trúna með fermingu fá unglingarnir blessun og svo geta þau kosið að taka skírn þegar þau vilja og allur gangur á því á hvaða aldri fólk ákveður að stíga það skref,“ útskýrir Lína.

Umgjörð unglingablessunarinnar er á flesta vegu svipuð fermingu og sækja táningarnir m.a. fræðslu hjá kirkjunni og láta blessast við hátíðlega athöfn. Ættingjum og vinum er boðið til veglegrar veislu og gjafirnar vitaskuld á sínum stað.

Yngri dæturnar þrjár eru fæddar á árunum 2004 til 2008. Fékk sú elsta þeirra unglingablessun árið 2018, næsta árið 2021 og loks sú þriðja 2022. Ætti Lína því að vera komin í góða æfingu þegar kemur að veisluhöldum og segist hún reyndar hafa mjög gaman af því að halda stórar veislur: „Það er margt við umstangið fyrir þessa viðburði sem minnir á þegar ég hélt mína eigin brúðkaupsveislu, ekki síst þar sem það eru ungar stúlkur sem eiga í hlut. Kallar dagurinn því á það að fara í förðun, naglasnyrtingu og hárgreiðslu, og vitaskuld þarf að velja rétta kjólinn. Ef eitthvað er fannst mér ég þurfa að hafa minna fyrir brúðkaupsdeginum,“ segir Lína glettin.

Hlutfall heimagerðu réttanna hefur farið minnkandi

Meðal þess sem reynslan hefur kennt Línu er að reyna að undirbúa veislurnar með góðum fyrirvara og vera ófeimin við að nýta sér aðstoð fagmanna. „Ég byrja undirbúninginn ári áður en veislan fer fram og mér finnst gott að vera skipulögð og láta tímann vinna með mér frekar en að gera hlutina í miklu fáti og tímaleysi. Fyrst af öllu gerum við drög að gestalista, finnum sal, og pöntum ljósmyndun. Þá höfum við leyft unglingunum að ráða ferðinni með það hvenig þær vilja hafa veisluna. Tvær þeirra kusu að bjóða upp á smárétti en sú sem lét blessast í miðjum kórónuveirufaraldrinum valdi að fá hamborgarabíl í heimsókn.“

Lína og fjölskylda elda alltaf eða útbúa hluta af matnum sjálf, en hún segir að með hverri veislunni hafi hlutfall heimagerðu réttanna farið minnkandi. Er verðið hjá veisluþjónustunum orðið mjög samkeppnishæft og ekki endilega mikið hægt að spara með því að ætla að sjá sjálfur um eldamennskuna. „Síðasta veisla kostaði á að giska 300.000 kr., þ.e. fyrir salinn, veitingar, drykki, ísbar og nammibar,“ segir hún.

Það má láta þá rétti sem eru í boði endurspegla …
Það má láta þá rétti sem eru í boði endurspegla litaþema veislunnar.

Fyrir síðustu veislu útbjó Lína m.a. ostabakka og einfaldar litlar skyrkökur í krukkum. „Ég gerði líka ostasalat, en sleppti því síðast að gera heimabökuð brauð og pestó. Sparar það svo mikinn tíma að kaupa tilbúnar veitingar og er í dag ekkert mikið dýrara en að ætla að gera allt sjálfur.“

Að leigja sal þarf heldur ekki að kosta nein ósköp og hefur Lína m.a. nýtt veislusal Blaðamannafélagsins. „Það er afskaplega gott að losna við það að þurfa að undirbúa heimilið fyrir stóra veislu, og þurfa jafnvel að tæma heilt herbergi til að koma fyrir borðum og stólum. Vissulega er vinalegt, þegar það á við, að bjóða gestum heim í veislu og skapar notalega stemningu, en það er afskaplega gott að geta einfaldlega kvatt salinn að veislu lokinni og komið heim í hreint hús.“

Lína segir að með hverri veislunni hafi hlutfall heimagerðra rétta …
Lína segir að með hverri veislunni hafi hlutfall heimagerðra rétta farið minnkandi.

Veitingarnar í hlutverki skreytinga

Af góðum sparnaðarráðum nefnir Lína að gæta hófs í skreytingum og nota veisluborðið til að lífga upp á salinn: „Við höfum valið þemalit fyrir veislurnar og keypt kerti og fersk blóm í stíl við litinn. Í síðustu veislu varð ferskjulitur fyrir valinu og fékk liturinn m.a. að njóta sín á fermingarkökunni, á nammibar sem við komum upp og á kleinuhringjum sem við pöntuðum. Mér finnst það ósköp fallegt að hafa skreytingarnar frekar látlausar en í staðinn nota matarborðið sjálft sem eina stóra skreytingu.“

Lína hugar líka að ýmsum smáatriðum sem gera góða veislu enn betri. Nefnir hún að í síðustu veislu hafi fjölskyldan pantað lítil sérmerkt súkkulaðistykki sem sett voru hjá hverjum einasta gesti. „Við vorum líka með lítil blöð á borðum þar sem fólk gat ritað niður spakmæli eða heilræði handa fermingarbarninu, eða kveðju í tilefni dagsins,“ útskýrir hún.

Sú hefð hefur einnig orðið til á heimilinu að táningarnir þakka fyrir sig með því að senda gestum kort að veislunni lokinni. „Við gætum þess þegar gjafirnar eru opnaðar að skrifa niður hver gaf þeim hvað, og senda svo þakkarkort í pósti. Langar okkur að brýna fyrir stúlkunum að það er mikils virði að aðrir skuli kaupa handa þeim gjöf, klæða sig upp og samgleðjast þeim á þessum degi, og alls ekki sjálfgefið. Við höfum líka fundið það greinilega hvað frændfólki okkar þykir vænt um að fá þakkarbréf. Tekur það um klukkustund að handskrifa þakkarbréfin.“

Einnig hefur það komið vel út að hafa svokallaða „lifandi gestabók“ í veislunum. „Eru gestir þá myndaðir með polaroid-vél og myndin límd inn í sérstaka gestabók þar sem jafnframt má rita litla kveðju og skreyta með límmiðum. Þannig verður til betri heimild um daginn og táningurinn eignast góða bók með myndum af sínum nánustu.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.185 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »