Langþráður draumur rættist

Bríet Sunna Gunnarsdóttir og prinsessan Mía.
Bríet Sunna Gunnarsdóttir og prinsessan Mía. Ljósmynd/Rán Bjargar Photography

Bríet Sunna Gunnarsdóttir er í 9. bekk grunnskóla Snæfellsbæjar. Bríet fermdist á hvítasunnudag hinn 5. júní í fyrra og fékk langþráðan draum sinn uppfylltan þegar hún fékk lítinn hvolp í fermingargjöf.

„Fermingardagurinn minn var frábær og stóð alveg undir væntingum. Dagurinn byrjaði á að ég fór í hárgreiðslu og fór svo heim og klæddi mig og gerði mig klára fyrir athöfnina sem byrjaði klukkan 11.00 stundvíslega. Allt gekk að óskum í kirkjunni og mér fannst alveg frábært að fermast með flestum bekkjarsystkinum mínum. Eftir kirkjuna var farið í salinn þar sem veislan var haldin og klárað að gera allt klárt; blása blöðrur, fylla á nammið á nammibarnum, setja upp myndakassa og uppáhaldið mitt; gera krapvélina klára. Þegar veislan byrjaði var ég frekar stressuð að taka á móti öllu fólkinu en það gekk vel og ég fékk einnig nokkrar vinkonur til mín í veisluna, sem var alveg frábært. Dagurinn var alveg meiriháttar í alla staði, gott veður og gaman að sjá alla vini og ættingja sem sáu sér fært að koma og fagna með mér á fermingardeginum,“ segir Bríet.

Systkinin Matthías Daði og Bríet Sunna.
Systkinin Matthías Daði og Bríet Sunna. Ljósmynd/Rán Bjargar Photography

Skemmtilegt að halda veislu í íþróttahúsi

Fermingarveislan fór fram í íþróttahúsi Snæfellsbæjar og bauð Bríet Sunna gestum sínum upp á matarhlaðborð með uppáhaldsmatnum sínum, hún var sérstaklega ánægð með kjúklingabringurnar og BBQ-sósuna. Í eftirrétt var kökuhlaðborð. „Það var efst á óskalistanum hjá mér að vera með krapvél og myndakassa eins og var í veislunni hjá Matthíasi Daða bróður mínum og gaman að fá þá ósk uppfyllta. Þetta var skemmtileg veisla og það var mjög skemmtilegt að vera með hana í íþróttahúsinu því þá var hægt að vera að leika og spila leiki í salnum meðan fullorðna fólkið var að borða og spjalla saman.“

Veislan fór fram í íþróttahúsi og var það vel skreytt.
Veislan fór fram í íþróttahúsi og var það vel skreytt. Ljósmynd/Aðsend

Hvað fékkstu í fermingargjöf?

„Í fermingargjöf fékk ég mikið af fallegum skartgripum, rúm, rúmföt og peninga, en það sem stendur upp úr er að ég fékk lítinn hvolp, sem mig hefur dreymt um alla ævi og ég hef beðið um síðan ég var pínulítil. Nokkru fyrir ferminguna fékk ég að fara að sækja litlu maltese-prinsessuna hana Míu.“

Bríet Sunna fermingarbarn
Bríet Sunna fermingarbarn Ljósmynd/Aðsend

Samveran með mömmu stendur upp úr

„Það var gaman að taka þátt í fermingarundirbúningnum og fermingarfræðslan var skemmtileg. Við gátum því miður ekki farið í fermingarferðalag vegna kórónuveirufaraldursins en það var í lagi því það var gott að geta skipulagt þetta allt án þess að hafa miklar áhyggjur af faraldrinum eins og árin á undan. Ég tók virkan þátt í undirbúningnum með mömmu og við fórum á fermingarsýninguna í Garðheimum og Blómavali og keyptum margt til þess að nota í veislunni og við keyptum kerti í Karmelklaustrinu í Hafnarfirði, sem ég er mjög ánægð með, sem er eins og fermingarkertið hennar mömmu.

Við mamma fórum sérstaka ferð til Reykjavíkur að kaupa kjól og ég var með mjög ákveðnar skoðanir á því hvernig kjól ég vildi. Við fórum í nokkrar búðir en að lokum fundum við kjólinn sem migr langaði í, á Laugavegi, í búðinni Kjólum og konfekti. Kjólinn var hvítur með stuttum ermum og fékk ég eyrnalokka, hálsmen og armband frá My letra við kjólinn. Ég fór í hárgreiðslu á hárgreiðslustofunni Pastel í Ólafsvík og var einnig með sterkar skoðanir á því hvernig ég vildi hafa hárið og fékk alveg að hafa það eins og ég vildi. Ég fór fyrst í prufu og svo í fermingarmyndatöku í Reykjavík sama dag hjá Rán Bjargar Photography. Mér fannst skemmtilegast við undirbúninginn að fá að taka virkan þátt í öllu ferlinu og samveran með mömmu í þessu.“

Bríet fékk hundinn í fermingargjöf.
Bríet fékk hundinn í fermingargjöf. Ljósmynd/Aðsend
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.185 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »