Það er hægt að gera fermingarveislur hrikalega skemmtilegar og flottar með nokkrum einföldum og góðum ráðum. Hér eru nokkur góð ráð til þess að gera veisluna ógleymanlega!
Mörg fermingarbörn byrja á því að velja þemalit fyrir veisluna í samráði við foreldra. Út frá því er hægt að velja blöðrur, servíettur og kerti í sama lit. Með þessari einföldu aðferð má breyta köldum sal í hátíðlegan veislusal eða stofunni í nýtt og spennandi svæði. Ef fermingarbarnið vill leigja krapvél getur krapið jafnvel verið í sama lit.
Stundum gleymist að taka myndir í fermingarveislum og þá getur verið gott að búa til sérstakt myndahorn með skemmtilegum bakgrunni í stíl við þemalit veislunnar. Það brýtur upp veisluna fyrir gestina að taka myndir og svo nýtast þær í gestabækurnar. Myndakassar eru alltaf skemmtilegir en einnig er hægt að taka myndir með gamaldags poloroid-myndavél. Tilvalið er að taka myndir með fermingarbarninu.
Ekki vilja allir háma í sig marsípankökur en það elska allir sælgæti. Nammibarir eru nauðsynlegir í allar veislur í dag. Það er einfalt að búa til nammibari með því að kaupa krukkur í ódýrum verslunum, nota skeiðar eða tangir, kaupa gott nammi og bjóða upp á poka. Ef fólk vill ekki nammi í eftirrétt vill það örugglega taka nammi með sér heim.
Ef yngstu börnunum í fjölskyldunni er boðið í veisluna er gott að hugsa um afþreyingu fyrir börnin. Það er hægt að útbúa lítið horn með litum og blöðum. Svo er jafnvel hægt að fara í bingó með börnunum eða jafnvel öllum gestum. Ef fermingarveislan er fyrir páska er hægt að vera með páskaegg í vinning.