„Ég hugsaði ekkert út í aðra valmöguleika“

Eydís Blöndal leiðir listahóp á vegum Siðmenntar.
Eydís Blöndal leiðir listahóp á vegum Siðmenntar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Eydís Blöndal ljóðskáld er leiðbeinandi í fermingarfræðslu Siðmenntar. Eydís leiðir listasmiðju og segir algjör forréttindi að fá að leiða smiðjuna með unglingunum en hún lítur frekar á sig sem þátttakanda en hefðbundinn kennara.

„Ég fermdist í Grensáskirkju á sínum tíma, hreinlega vegna þess að ég hugsaði ekkert út í aðra valmöguleika. Ég trúði ekki á guð frekar en nokkuð annað. Ég var svo fengin til að leiðbeina í fermingarfræðslu hjá Siðmennt fyrir nokkrum árum og hef verið viðloðandi fræðsluna síðan þá,“ segir Eydís þegar hún er spurð hvort hún hafi fermst borgaralega.

Er næsta skref að sjá um athafnir eða er skemmtilegra að sjá um fræðsluna?

„Mér finnst mjög gefandi að kynnast fermingarkrökkunum og spjalla við þau um þær spurningar sem eru vakna á námskeiðinu. Eins og staðan er núna læt ég það duga.“

Hvernig er fermingarfræðslan hjá Siðmennt?

„Ég var ráðin inn í tímabundna stöðu árið 2021 til að skrifa námskrá fermingarfræðslunnar. Hún byggist á áralangri reynslu og stefnumótun sem hafði átt sér stað árunum á undan. Út frá henni braut ég viðfangsefnin niður í fjögur sambönd sem manneskjan á í yfir lífsleiðina: Samband manneskjunnar við tilvistina, samband hennar við sjálfa sig, sambandið sem er okkar á milli, og síðan samband manneskjunnar við umhverfi sitt. Þannig getum við fjallað um þessi helstu heimspekilegu viðfangsefni sem koma fermingarkrökkum við, til dæmis gagnrýna hugsun, siðferði, sjálfsmynd, samskipti, réttlæti og umhverfismál. Þetta nálgast leiðbeinendur svo með það að markmiði að virkja fermingarkrakkana til sjálfstæðrar hugsunar. Þetta eru hlutir sem koma okkur öllum við, óháð samfélagslegum og hvað þá trúarlegum skoðunum, og krefjast þess að hvert og eitt okkar raunverulega staldri við til að svara spurningunum. Mikil áhersla er lögð á að krakkarnir komist sjálfir að eigin niðurstöðu og byggi vísvitandi þannig sterkan grunn að sinni heimsmynd á upplýstan máta.“

Tækifæri í læra í gegnum listina

Er hægt að taka þátt í listsköpun og tækla í leiðinni stórar spurningar sem Siðmennt leggur áherslu á í starfi sínu?

„Ein af nýjungunum sem við komum með samhliða nýrri námskrá var ný nálgun á tímana sjálfa. Fram að því höfðu námskeiðin verið kennd með svipuðu fyrirkomulagi og krakkarnir þekkja úr skólastofunum, en það blasir við að sú aðferðafræði hentar alls ekki öllum. Þess vegna bættum við við námskeiðum, til dæmis listsköpunarnámskeiði, útvistarnámskeiði og síðan námskeiði á Úlfljótsvatni. Þessi námskeið hafa slegið í gegn og eru mjög vinsæl. Ég kenni öðrum hópnum í listsköpuninni í ár og það er svo frábært að nálgast viðfangsefnin og umræðurnar í gegnum aðra miðla en við erum vön. Kennslan verður meira í flæði og opnari finnst mér og ekki jafn bókstafleg.“

Hefur þú séð börnin blómstra á óvæntan eða skemmtilegan hátt í listasmiðjunni?

„Já, ég sé hvernig sú kennsluaðferð virkar allt öðruvísi á krakka en sú hefðbundna. Samskiptin og dýnamíkin á milli mín og þeirra verður meira lifandi og á skemmtilegri grundvelli. Listin gefur okkur oft rými til að vera í friði frá því sem annars vill tíðkast í kennslustofu, þar sem kennari eða leiðbeinandi stendur andspænis hópnum og predikar í von um að koma einhverju til skila. Ég lít ekki á þetta þannig að ég sé að kenna krökkunum, heldur erum við saman að skapa rými fyrir þau til að hugsa um þessar grundvallarspurningar sem leggja línurnar að allri annarri hugsun hjá okkur. Það eru nefnilega algjör forréttindi að fá að velta spurningum fermingarfræðslunnar fyrir sér og nokkuð sem sumt fólk gefur sér í raun aldrei tíma í.“

Hafa þau kennt þér eitthvað í vetur?

„Svo margt. Aðallega hvað það er gagnlegt að leyfa sér að vera óhefluð og fyndin.“

Fermingarbörnin njóta þess að mála og velta fyrir sér heiminum …
Fermingarbörnin njóta þess að mála og velta fyrir sér heiminum í gegnum listina. Ljósmynd/Aðsend
Teikiningar úr fermingarfræðslunni.
Teikiningar úr fermingarfræðslunni. Ljósmynd/Aðsend
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert