Sniðug ráð sem hvetja til fósturhreyfinga

Prófaðu þessi ráð og sjáðu hvort að barnið sparki.
Prófaðu þessi ráð og sjáðu hvort að barnið sparki. Ljósmynd/Colourbox

Allir verðandi foreldrar bíða óþreyjufullir eftir því að finna fyrsta sparkið frá barni í móðurkviði og bara alla hreyfingu sem það gefur frá sér yfir meðgöngutímabilið. Biðin getur þó oft á tíðum verið erfið. Hér eru því nokkur ráð og brögð fyrir verðandi mæður sem hægt er að reyna til þess að fá barnið til að hreyfa sig á öðrum og þriðja þriðjung meðgöngu. 

Fáðu þér snarl

Barnið á það til að bregðast við hækkun á blóðsykri. Næst þegar þú vilt fullvissa þig um að það sé allt í góðu í bumbunni og eða reyna að framkalla spark, skaltu athuga með að borða hollt og gott snarl. Það er tilvalið að prófa kex og osta sem má leyfa sér á meðgöngu, brauð með hnetusmjöri, gríska jógúrt eða ávexti og hnetur. Til þess að auka líkurnar á bumbufjöri er einnig sniðugt að drekka glas af náttúrulegum ávaxtasafa. 

Gerðu nokkra sprellikarla og fáðu þér sæti

Þetta sniðuga ráð fékk ein verðandi móðir að heyra þegar hún mætti í 20 vikna sónar. Fóstrið var eitthvað feimið við myndavélina og því erfitt að ná nákvæmum mælingum. Ljósmóðirin sendi hana því fram á gang og sagði henni að gera nokkra sprellikarla (e. jumping jacks) eða skokka á staðnum. Það virkaði svona vel því þegar hún lagðist aftur á bekkinn, fann hún gott spark og barnið var búið að færa sig til í leginu og klárt í ómskoðun.

Þrýstu létt á bumbuna

Slatti af verðandi mæðrum hafa sagst finna fyrir hreyfingu barnsins í móðurkviði með því að þrýsta blíðlega á magann. Það þarf bara að passa að gera þetta lauslega – þú ert með dýrmætan farm fyrir innan.

Vasaljós beint á bumbuna

Í kringum 22. viku meðgöngunnar er mögulegt fyrir barnið að skynja ljós og skugga. Það er því líklegt að barnið bregðist við, ef vasaljósi er lýst á magann. Barnið gæti verið að snúa sér frá eða bara verið að forðast sviðsljósið en það má búast við hreyfingu. 

Leggstu niður

Yfir daginn eru flestar verðandi mæður athafnasamar og á ferðinni. Þess vegna taka margar óléttar konur eftir því að um leið og þær leggjast niður til að hvíla eðað sofa, þá vaknar barnið og verður mjög virkt, sparkar mikið og lætur finna fyrir sér. 

Gerðu eitthvað sem gerir þig örlítið taugaspennta

Adrenalín streymir í gegnum æðar þínar þegar þú ert með fiðrildi í maganum. Sú tilfinning nær til barnsins. Ef þú horfir á spennuþrungna bíómynd, hugsar um fæðinguna eða verður stressuð þá finnur fóstrið það og svarar kannski með sparki eða hreyfingu. 

Syngdu vögguvísu eða hækkaðu aðeins í tónlistinni

Ef daglegt rabb þitt er ekki að ná barninu til að snúa sér eða sparka, reyndu þá að syngja ljúfa vögguvísu eða lag. Sumar verðandi mæður setja heyrnartól á bumbuna og leyfa barninu að njóta ljúfra tóna Beethoven eða Mozart. 

Góðar líkur eru á því að barnið verði dansandi glatt við að heyra rödd þína eða skemmtilegs lags en vertu bara viss um að hafa ekki of hátt þar sem það er ekki gott fyrir eyru barnsins sem eru að þroskast. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert