6 merki um heilbrigt fjölskyldulíf

Unsplash/Jessica Rockowitz

Mörg hver eiga erfitt með að greina hvað það er sem gerir heilbrigðar fjölskyldur. Til þess að geta greint það sem gerir fjölskyldulíf óheilbrigt þarf þó fyrst að skilja hvað er heilbrigt.

Sálfræðingurinn Kaytee Gillis, sem sérhæfir sig í sambands- og fjölskylduáföllum, útskýrði á dögunum á vef Psychology Today þau sex merki sem algengt er að einkenni heilbrigt fjölskyldulíf.

1. Virtu heilbrigð tilfinningaleg og líkamleg mörk

Rétt eins og aðrir meðlimir fjölskyldunnar eiga börn rétt á einkalífi. Öll innan fjölskyldunnar eiga að skilja og virða það. Hjá heilbrigðum fjölskyldum eru það foreldrarnir sem vinna mestu vinnuna þegar kemur að tilfinningalegum þroska með því að móta samkennd, sjálfsstjórn og viðeigandi hegðun þegar brugðist er við tilfinningum eða streitu. Hlutverk barna er að læra.

2. Líttu á alla meðlimi fjölskyldunnar sem einstaklinga

Öll eiga rétt á sinni skoðun. Öll innan fjölskyldunnar eiga að virða það og leyfa öðrum að láta þær í  ljós, svo lengi sem skoðanirnar eru virðingarfullar. Þetta á jafn vel við þótt foreldrar taki allar lokaákvarðanir. Innan fjölskyldna þar sem ekki gefst rými fyrir skiptar skoðanir er algengt að börn alist upp án þess að ná að móta eigið sjálf. Þegar þeim er alltaf kennt hvernig og hvað þú átt að hugsa er eðlilegt að kunna ekki að hugsa sjálfstætt þegar komið er á fullorðinsárin.

3. Settu reglur og væntingar sem eru samræmdar, sanngjarnar og hæfa aldri

Allar fjölskyldur eru með einhverjar reglur og eðlilegt er að þær sé jafn mismunandi og fjölskyldur eru margar. Hins vegar geta reglur sem eru ósamræmdar og hæfa ekki aldri barnanna valdið ringulreið. Börn eru enn að þroskast og læra svo væntingar umönnunaraðila til þeirra ættu ekki að vera þær sömu og til sjálfs síns eða annarra fullorðinna.

4. Mættu þörfum hvers og eins á viðeigandi hátt

Öllum fjölskyldumeðlimum er annt um heilsu og velferð annarra í fjölskyldunni, þó með hætti sem hæfir þeirra aldri. Foreldrar eiga að veita börnum sínum tilfinningalegt öryggi, ekki öfugt. Fjölskyldumeðlimir gera sitt besta að mæta þörfum hinna. 

5. Allir meðlimir fjölskyldunnar upplifa öryggi

Börn sem upplifa heilbrigt fjölskyldulíf eru öruggari þegar kemur að því að læra, þroskast og gera mistök. Þau skilja hvað mistök eru og skilja að slíkt ógnar ekki öryggi þeirra. Ást er skilyrðislaus.

6. Vertu tilbúin fyrir mistök og að fyrirgefa þau með heilbrigðum hætti

Fjölskyldumeðlimir skilja að við erum öll manneskjur sem læra og þroskast. Foreldrarnir notast við viðeigandi leiðir til að takast á við ágreining og deilur. Slíkar fjölskyldur skoða mistökin til þess að skilja þau og bæta, í stað þess að skamma fyrir þau. Börnin skilja að þeim verður refsað fyrir óviðeigandi hegðun, en verður líka fyrirgefið fyrir mistök án þess að þeim sé núið um nasir þeirra í mörg ár.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert