53 ára amma varð ófrísk að tvíburum

Ljósmynd/Unsplash/Andrew Seaman

Það kom 53 ára gamalli þriggja barna móður og ömmu verulega á óvart þegar hún fékk jákvætt þungunarpróf. Henni var þó enn meira brugðið þegar hún komast að því að hún væri ófrísk að tvíburum.

Konan, sem kom ekki undir nafni, fór í viðtal við vef Parents þar sem hún deildi reynslu sinni af því að verða ófrísk að tvíburum 53 ára að aldri. Hún hafði kynnst eiginmanni sínum á stefnumótasíðu á netinu þegar hún var 49 ára, en þá var hann 50 ára. 

Með sex börn á aldrinum 16 til 27 ára

Að sögn konunnar leist honum strax vel á hana en sagðist virkilega vonast til að eignast fleiri börn. Hún hélt að það væri ekki líklegt að ósk hans myndi rætast, enda væri hún þriggja barna móðir og nýlega orðin amma.

„Ári eftir að við giftum okkur ráðfærði ég mig við lækni sem sagði mér að það gæti gerst að ég yrði ófrísk því ég væri „ung fyrir minn aldur“,“ útskýrði konan, en hún og eiginmaður hennar voru bæði fráskilin og áttu þrjú börn hvor á aldrinum 16 til 27 ára.

Eignaðist tvo drengi 

Stuttu síðar komst hún að því að þau ættu von á tvíburum. Hún segir viðbrögðin hafa verið misjöfn, sérstaklega meðal barnanna þeirra. Í viðtalinu segir hún frá því hve skrítið það var að undirbúa sig undir að vera með tvö nýfædd börn á meðan flestir vinir þeirra voru að taka á móti barnabörnum og njóta þess að ferðast og vera í sólinni.

Á meðgöngunni þurfti konan að vera undir miklu eftirliti, enda flokkast fjölburameðgöngur sem áhættumeðgöngur. Konunni fæddust svo tveir heilbrigðir drengir sem voru teknir með keisaraskurði. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert