„Mamma, eru það ekki bara konur sem fljúga flugvélum?“

Berglind Jóhannesdóttir sinnir starfi sínu sem flugmaður af mikilli elju …
Berglind Jóhannesdóttir sinnir starfi sínu sem flugmaður af mikilli elju ásamt móðurhlutverkinu. Samsett mynd

Berglind Jóhannesdóttir er vön því að halda mörgum boltum á lofti. Hún er móðir þriggja ungra og orkumikilla drengja ásamt eiginmanni sínum, ballettdansaranum Yannier Oviedo. Berglind starfar sem flugmaður hjá Icelandair og er að ljúka við meistaragráðu í spænsku frá Háskóla Íslands.

Hún er þar af leiðandi ekki óvön fjölverkavinnslu (e. multitasking) og sóar ekki einni sekúndu í sólarhringnum. „Fjölskyldan er auðvitað í fyrirrúmi. Ég vil njóta sem flestra stunda með þeim ásamt því að ferðast um heiminn,“ segir Berglind.

Synir Berglindar og Yannier eru þeir Jóel Oviedo, níu ára, Þór Oviedo, átta ára og sá yngsti heitir Vilmar Oviedo og er fjögurra ára gamall.

Sambland af leyfandi og ábyrgum uppeldisstíl

Berglind og Yannier hafa gjörólíkar hugmyndir hvað varðar uppeldi og leggja þar af leiðandi áherslur á ólíka hluti.

Hver er uppeldisstíllinn þinn og hefur hann þróast með hverju barni?

„Þetta er sambland af leyfandi og ábyrgum uppeldisstíl. Ég er mjög afslöppuð og set ef til vill ekki nægar reglur. Ég var sjálf alin upp á þann hátt. Ég leyfi strákunum að reka sig á og veiti þeim mikið frelsi til þess. Ég reyni að gera mitt allra besta en er langt frá því að vera sérfræðingur í þessum málum.

Maðurinn minn, Yannier er frá Kúbu og erum við með mjög ólíkar skoðanir á uppeldi, enda alin upp á ólíkan hátt. Á Kúbu er lögð mikil áhersla á aga og virðingu. Eiginmanninum finnst ég aðeins of lin þegar kemur að uppeldinu.“

Berglind ásamt eiginmanni sínum Yannier Oviedo.
Berglind ásamt eiginmanni sínum Yannier Oviedo. Ljósmynd/Berglind Jóhannesdóttir

Hverjar eru áherslur þínar sem foreldri?

„Ég legg mikla áherslu á að synir mínir geri sér grein fyrir ástandinu í heiminum. Ég sýni þeim iðulega fréttir og myndbönd af börnum út um allan heim þar sem verið er að þræla út og fara illa með börn.

Börn á Íslandi taka öllu sem sjálfsögðu. Mér finnst gott að minna syni mína á hvaðan málmarnir í símunum okkar koma eða skórnir sem þeir ganga í.“

Hvernig hveturðu börnin þín áfram?

„Ég hvet þá til að elta ekki hjörðina og að vera óhrædda við að vera öðruvísi. Eina sem ég óska þeim er að þeir séu hamingjusamir, eins klisjulegt og það kann að hljóma og þegar þú tekur skref frá hjörðinni og treystir á þig þá gerast ótrúlegir hlutir.“

Bræðurnir að njóta sín í fjölskylduferðalagi.
Bræðurnir að njóta sín í fjölskylduferðalagi. Ljósmynd/Berglind Jóhannesdóttir

„Við látum þetta ganga í sameiningu“

Það brá engum þegar Berglind sóttist eftir flugmannsprófi enda hefur hún ávallt verið heilluð flugvélum og ferðalögum erlendis og var kölluð fiðrildi í æsku af föður sínum. Það getur þó reynst krefjandi að sinna flugmannsstarfinu en það tekur Berglindi frá fjölskyldunni mjög reglulega. Hún er þó skipulögð þegar kemur að tíma og samviskusöm og lætur þetta því allt ganga upp.

Hvernig er að vera móðir og flugmaður?

„Það getur verið erfitt. Það er eitt að tvinna saman vinnu, börn og húsverk en svo eru bara ýmsar aðrar áskoranir sem lífið býður upp á. Vinnutími eiginmannsins, flogaveikt barn og barn með adhd/mótþróaþrjóskuröskun og það eykur álagið töluvert. Við látum þetta samt ganga í sameiningu.“

Hvernig líður þér þegar þú ert í vinnunni og í burtu frá fjölskyldunni?

„Mér líður vel, enda á ég frábæra starfsfélaga. Það var oft erfitt að fara yfir nótt þegar gormarnir voru litlir en núna er fínt að nota tímann til að hreyfa sig, lesa og borða góðan mat.“

Finnst þér þú vera að missa af mikilvægum augnablikum í lífi barna þinna?

„Það kemur fyrir að ég missi af íþróttamótum og viðburðum en ég reyni ávallt að skipuleggja mig vel og biðja um frí þessa daga. Mér finnst mikilvægt að vera á staðnum.“

„Bara eins og hvert annað starf“

Hvað er það besta við að vera útivinnandi foreldri?

„Það besta er auðvitað fólkið sem þú hittir í vinnunni. Við þurfum öll á skemmtilegum samskiptum að halda. Ég veit ekki hvort að orðið sjálfsmynd sé rétta orðið en jú, það styrkir sjálfsmyndina að vera í vinnu sem þú brennur fyrir. Það gerir mig líka að mun betri móður.

Ég fann það þegar kórónuveiran geisaði að þá fannst mér ég ekki hafa mikinn tilgang í lífinu þó svo það hljómi kjánalega.“

Hvernig finnst börnum þínum að eiga móður sem er flugmaður?

„Þeim finnst þetta bara eins og hvert annað starf. Við hjónin hlógum mikið fyrir nokkrum árum þegar við vorum að fara um borð í flugvél Icelandair. Tveir eldri synir okkar sáu bara karlmenn í flugstjórnarklefanum, göptu af undrum og sögðu: Mamma, eru það ekki bara konur sem fljúga flugvélum?“

Berglind ásamt elsta syni sínum, Jóel.
Berglind ásamt elsta syni sínum, Jóel. Ljósmynd/Berglind Jóhannesdóttir

Það snýst allt um körfubolta

Það er ansi mikið fjör á heimili fjölskyldunnar í Vesturbænum. Bræðurnir byrjar og enda flesta daga á hoppi, skoppi og drippli, foreldrunum til mismikillar ánægju.

Hvað er vinsælast hjá strákunum?

„Hér snýst allt um körfubolta. Afi þeirra og bróðir hans voru báðir í landsliðinu og stefna Oviedo-strumparnir okkar á það líka. Annars eru þeir oft ansi uppteknir við að spila Fortnite og Minecraft.

Það er stundum gott að planta þeim fyrir framan skjá til að öðlast smá ró og næði,“ segir Berglind og hlær.

Körfubolti er lífið þessa dagana hjá sonum Berglindar og Yannier.
Körfubolti er lífið þessa dagana hjá sonum Berglindar og Yannier. Ljósmynd/Berglind Jóhannesdóttir

Hvað er besta ráð sem þú hefur fengið?

„Það er mjög einfalt og gott ráð sem ég fékk frá þjálfunarflugstjóranum Sigurvini Bjarnasyni heitnum. Þegar taugarnar fóru að taka völdin minnti hann mig einfaldlega á að staldra aðeins við og njóta þess að fljúga þotunni. „Enjoy, Berglind, enjoy!“ sagði hann alltaf við mig.

Ég heyri þessi orð mjög reglulega í huga mér í hvert sinn er ég stressast upp.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert