Húsverk sem henta aldri barnanna þinna

Pexels/Gustavo Fring

Fyrir marga foreldra getur það verið erfitt að fá börnin til að taka til hendinni á heimilinu. Best er að byrja að kenna börnum að taka þátt í heimilishaldinu á unga aldri, alveg niður í 18 mánaða aldur. Mikilvægt er að finna börnunum húsverk sem henta aldri þeirra til að auðvelda ferlið.

Hér eru nokkur ráð til þess að koma börnum upp á lagið með húsverkin, flokkuð eftir aldri.

12 til 18 mánaða

Þótt það fari náttúrulega eftir börnum, þá eru flest þeirra tilbúin til að hjálpa til við 18 mánaða aldurinn. Þeim líður vel með að fá að hjálpa. Mikilvægt er að þvinga börnin ekki til þess að taka þátt í húsverkunum. Í raun elska börnin að fá að hjálpa til, þegar verkefnin hæfa aldri þeirra. 

Sem dæmi má taka er að fá börnin til að hjálpa til við að týna upp púslið af gólfinu með því að breyta því í hluta af leiknum. Með því að gera tiltektina skemmtilega verður barnið tilbúnara til að taka þátt í henni. Í eldhúsinu er hægt að sýna þeim hvar ruslið er og hvað á að fara í ruslið. Í svefnherberginu er hægt að kenna ungum börnum að setja óhreinu fötin í þvottakörfuna, ná í föt úr neðstu skúffunni og jafnvel klæða sig með aðstoð.

18 mánaða til þriggja ára

Á þessum aldri byrja börnin að herma eftir því sem foreldrarnir gera. Um leið og þau gera það er gott að kenna þeim hvernig á að taka til eftir sig og jafnvel leyfa þeim að taka þátt í eldamennskunni. Smábörn geta einnig hjálpað til með að búa um rúmið, sópa gólfið, vökva plöntur og jafnvel vaska upp. 

Á þessum aldri snýst þetta um samstarf á milli foreldra og barns. Þótt þú þurfir eflaust að laga aðeins til eftir þau þá hafa börnin gaman af því að hjálpa til og læra í leiðinni á húsverkin. 

Fjögurra til fimm ára

Þegar barn nær fjögurra ára aldri er það yfirleitt tilbúið til að sinna ákveðnum venjubundnum húsverkum. Sem dæmi er að halda vatnsskálinni fyrir köttinn alltaf fullri eða hjálpa til við að taka úr uppþvottavélinni.

Við fjögurra ára aldur ættu börn að geta brotið saman þvott, mælt og blandað hráefni í bakstri, aðstoðað við matreiðslu og sett föt í skúffurnar sínar. Mikilvægt er að gera þetta með börnunum því þá verður það skemmtilegra.

Sex til tólf ára

Börn á grunnskólaaldri eru flest tilbúin til að hjálpa við að útbúa kvöldmat, ganga frá innkaupum, fara út með gæludýrin og halda herberginu sínu hreinu upp á eigin spýtur, með smá hjálp einstaka sinnum.

Við sjö eða átta ára aldurinn ættu börn að geta hjálpað til við þvottinn með því að setja óhrein föt í körfuna, síðan í þvottavél og þurrkara. Ekki má gleyma að þetta er ferli, börn verða að læra hvernig ferlið við að þvo þvott gengur fyrir sig. Þegar börnin hafa fylgst með og hjálpað til í einhvern tíma geta þau séð um þvottinn sinn sjálf.

Í kringum tíu til tólf ára aldurinn geta börn farið að elda fyrir fjölskylduna, með hjálp að sjálfsögðu. Hægt er að leyfa þeim að velja einfaldar uppskriftir, fara með þeim að kaupa inn og aðstoðað svo í eldhúsinu við að útbúa máltíðina.

13 til 18 ára

Þegar börn komast á táningsaldurinn ættu þau að vera orðin fær í að sinna sömu húsverkum og fullorðna fólkið, eins og að þrífa baðherbergið, slá grasið, þvo bílinn og útbúa einfaldar máltíðir. 

Þetta er hins vegar það tímabil í lífi barnsins sem foreldrarnir þurfa að bakka aðeins svo ekki myndist togstreita á milli þeirra og unglinganna. Svefnherbergið er gott dæmi. Svo lengi sem matur sé ekki að rotna þar inni, þá ætti að leyfa unglingum að búa í svínastíunni sem þeir hafa myndað. Í þágu þeirra eigin sjálfræðis og sjálfstæðis ætti að leyfa þeim það.

Gott er fyrir foreldra að hugsa hvort sé mikilvægara, gott samband við unglinginn eða skítugt leirtauið. Auðvelt er fyrir hlutina að stigmagnast og breytast í átök. Gefið unglingunum smá pláss og tíma. Þegar allir aðilar eru rólegir er svo hægt að setjast niður og ræða saman.

Washington Post 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert