Leiðir til að styðja barn með kvíða

Unsplash/Joice Kelly

Algengt er að börn finni fyrir ótta eða kvíða. Hvort tveggja er eðlilegur hluti af þroskaferlinu. Stundum verður þó kvíðinn viðvarandi og að því virðist óyfirstíganlegur. Hvort sem barnið þitt glímir við greinda kvíðaröskun eða upplifir stundum kvíðvænleg augnablik, þá er skiljanlegt að þú viljir leita raunhæfra leiða til að hjálpa barninu þínu að ná stjórn á kvíðanum. Þegar öllu er á botninn hvolft ert þú sem foreldri í framlínunni þegar kemur að því að hjálpa barninu að takast á við hvað sem verður á vegi þess.

Hér eru nokkrar leiðir til að styðja börn sem upplifa mikinn kvíða.

Hugsaðu fyrst um eigin geðheilsu

Fyrsta skrefið til þess að hjálpa barninu þínu að stjórna sínum kvíða er að hugsa um sjálfa(n) þig. Ef þú glímir líka við kvíða er mælt með að komast að rótum þess og íhuga jafnvel að leita sálfræðihjálpar.

Að eiga umhyggjusamt, tillitsamt og jafnlynt foreldri er lykillinn að því að barnið þitt geti tekist á við kvíða. Börn eru ótrúlega skynsöm og taka upp tilfinningar foreldra sinna.

Forðastu frasa líkt og „ekki hafa áhyggjur“

Það getur verið freistandi að sefa kvíða barnsins með því að nota frasa eins og „róaðu þig“ eða „ekki hafa áhyggjur“. Það er þó mikilvægt að láta barnið vita að það er í lagi að vera hræddur stundum og það ætti ekki að finnast það þvingað til að þykjast vera hugrakkt ef því líður ekki þannig.

Kvíðin börn trúa því oft að það sé slæmt að finna fyrir hræðslu eða kvíða og að það beri að forðast hvað sem það kostar. Með því að segja þeim að vera ekki hrædd styrkir þessa trú, ógildir tilfinningar þeirra og hjálpar á endanum ekki.

Kenndu barninu þínu öndunaræfingar

Ein besta leiðin til að koma í veg fyrir að kvíðinn vaxi er að nota djúpa öndun, sem róar taugakerfið með náttúrulegum hætti. Mælt er með því að kenna barninu þínu slíkar öndunaræfingar.

Sem dæmi má taka að anda inn og út um aðra nösina í senn og halda fyrir hina. Skipt er á milli við hvern andardrátt. Einnig má nota svokallaða boxöndun þar sem andað er inn á fjórum, andanum haldið í tvo, út á sex og haldið í tvo svo dæmi sé tekið. Gott er að hafa útöndunina lengri en innöndun því það ræsir sefkerfi líkamans sem hjálpar til við að róa huga og líkama. 

Sýndu barninu að það búi yfir seiglu

Stundum geta börn talið sjálf sig á að þau séu ekki í stakk búin til að takast á við erfiðar aðstæður. Oft viljum við kenna þeim að stundum er lífið erfitt og sárt en þau þoli það. Foreldrar geta gert þetta með því að benda börnunum á þau augnablik í lífi þeirra þar sem þau sýndu hugrekki. 

Rétt eins og við minnum börn okkar á að vöðvar þeirra og bein vaxi og styrkist, er mikilvægt að minna þau á að innra með þeim vex einnig seiglan.

Hvettu barnið þitt til að horfast í augu við ótta sinn

Það virðist þversagnarkennt, en með því að láta barnið þitt forðast aðstæður sem það hræðist getur óttinn við þau aukist. Foreldrar ættu að hvetja börn sín til að gera hlutina sem þau hræðast, svo framarlega sem það sé innan öruggra marka.

Aðstæður sem börn hræðast verða enn skelfilegri því lengur sem þau forðast þær. Því er gott fyrir foreldra að leiðbeina börnum varlega í átt að því sem vekur upp kvíða, sérstaklega ef það fylgir því neikvæðar afleiðingar að forðast þær. Sem dæmi má taka að fara í skólann og tjá sig í félagslegum aðstæðum.

Ef barn sýnir mikil kvíðaviðbrögð gæti þetta verið rétti tíminn til að ráðfæra sig við geðheilbrigðisstarfsmann, til að kanna hvers vegna viðbrögð barnsins séu svona sterk.

Búðu til áhyggjukassa eða áhyggjukrukku

Þú getur útbúið eins konar áhyggjukassa eða áhyggjukrukku til að hjálpa barninu þínu að takast á við kvíðahugsanir sínar. Þetta er verkefni sem þið getið unnið að saman.

Þegar barnið finnur fyrir kvíða eða áhyggjum skaltu gefa því tækifæri á að tala um tilfinningar sínar. Síðan getur þú sagt barninu að ímynda sér að setja áhyggjurnar í hendurnar og ganga að krukkunni eða kassanum og setja áhyggjurnar þar ofan í. Þar verða þær geymdar þangað til tækifæri gefst til að ræða þær á ný.

Gakktu úr skugga um að ílátið sé með loki og læsingu, svo að áhyggjurnar sleppi ekki út.

Fáðu barnið til að hreyfa sig

Ein besta leiðin til að stjórna kvíða er með hreyfingu. Kvíði er líkamleg upplifun, einnig hjá börnum. Hvort sem það er krakkajóga, hlaup um garðinn eða hreyfingar með höndum, eins og að púsla eða mála, þá hjálpar hreyfing á tvo vegu.

Í fyrsta lagi getur það dregið athyglina frá óþægilegri líkamlegri tilfinningu kvíðans. Í öðru lagi getur hreyfing veitt börnum þá upplifun að líkami þeirra geti veitt þeim gleði, ekki bara kvíða.

Minntu barnið á að þetta mun líða hjá

Þegar börn upplifa kvíða þurfa þau að finna fyrir von, þau þurfa að vita að upplifunin er tímabundin. Þess vegna er mikilvægt að minna barnið á að þetta líður hjá því börn festast oft í miklum tilfinningum sínum og trúa því að slæmu tilfinningarnar muni aldrei hverfa. Með þessu læra börnin að kvíðatilfinningin er tímabundin.

Skoðaðu meðferðarmöguleika

Ef barnið þitt glímir við kvíða þá þarftu ekki að standa einn í bataferlinu. Meðferð er mörgum börnum dásamleg og áhrifarík leið til að stjórna kvíða sínum. Sem dæmi um meðferðarúrræði fyrir börn eru leikjameðferð og listmeðferð. Einnig er hægt að skoða aðrar leiðir, svo sem hugræna atferlismeðferð.

Kannaðu meðferðarmöguleikana í þínu nærumhverfi og sýndu barninu stuðning hvað varðar að byggja upp samband við meðferðaraðila sinn. Þetta á sérstaklega við ef barnið hefur upplifað áverka, missi eða aðskilnað. Áhrif áfalla hverfa ekki með tímanum heldur þarf markviss inngrip heilbrigðisstarfsfólks.

Parents

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert