Bjóða upp á sumarnámskeið fyrir börn á leikskólaaldri

Í Fjölskyldulandi er að finna fjölbreytta afþreyingu fyrir börn.
Í Fjölskyldulandi er að finna fjölbreytta afþreyingu fyrir börn. Samsett mynd

Fjölskyldumiðstöðin Fjölskylduland býður upp á leikjanámskeið fyrir leikskólabörn í sumar. Samkvæmt stofnanda miðstöðvarinnar, Kriztinu G. Agueda, er ekki mikið um skipulagt starf fyrir börn á þessum aldri yfir sumartímann og sé þetta þeirra leið til að hjálpa foreldrum. Í Fjölskyldulandi eru börn hvött til skapandi leiks og rannsókna og lögð er áhersla á samverustundir allrar fjölskyldunnar.

Námskeið Fjölskyldulands eru hálfsdagsnámskeið í viku senn og hægt er að velja um fyrri eða seinni part dagsins. Fyrsta námskeið hefst mánudaginn 26. júní og því síðasta lýkur 18. ágúst. Aðstaðan er öll innandyra og því þurfa foreldrar ekki að hafa áhyggjur af því að veðrið setji strik í reikninginn.

„Í ágúst viljum við svo hjálpa foreldrum barna sem hafa útskrifast úr leikskólanum og bíða þess að byrja í skóla í haust,“ segir Krisztina.

Fjölbreytt afþreying fyrir börn

„Við viljum bjóða upp á leikjanámskeið til að brjóta upp daginn í sumarfríinu og standa fyrir skapandi og skemmtilegri afþreyingu,“ segir Kriztina. Hver dagur byrjar á frjálsum leik á leikvelli miðstöðvarinnar. Því næst er farið í íþróttakennslu, til að vinna með hreyfiþroska og hreyfiþörf, og listkennslu þar sem börnin fá útrás fyrir listsköpun sína. Að sjálfsögðu er einnig tími inni á milli til að fá sér nestisbita.

Fjölskylduland var opnað árið 2022 og er fyrsti og eini heildræni innileikvöllurinn á Íslandi. Krisztina stofnaði og rak Hreyfiland frá árinu 2003 og sá mikla þörf á Íslandi fyrir fjölskyldumiðstöð með sérhönnuðu leiksvæði fyrir ung börn upp að grunnskólaaldri eins og hún þekkir frá störfum sínum erlendis. 

Kriztina G. Agueda stofnaði Fjölskylduland árið 2022.
Kriztina G. Agueda stofnaði Fjölskylduland árið 2022. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert