Ráð til foreldra í sambandi við samfélagsmiðla

Unsplash/Getty Images

Samfélagsmiðlar geta verið mjög skemmtilegir, fræðandi og innihaldsríkir. Það getur hins vegar haft mikil áhrif á sjálfsálit, þunglyndi, kvíða og fjölda annarra geðheilsuvandamála ef þeir eru notaðir á rangan hátt. Þótt áhrif samfélagsmiðlanotkunar séu ekki að fullu ljós bendir ýmislegt til þess að samfélagsmiðlar geti haft hrikaleg áhrif á andlegan stöðugleika ungmenna.

Hér eru nokkur ráð til að hjálpa foreldrum og fjölskyldum að ákveða eigin stefnu í sambandi við samfélagsnotkun barna.

Fjölskyldureglur um samfélagsmiðla

Gott er fyrir fjölskyldur að setja sínar eigin reglur um ýmsa hluti sem eru þeim mikilvægir. Útgöngubann, háttatímaáætlanir og tölvuleikjanotkun eru dæmi um slíkt. Samfélagsmiðlar eru ekkert öðruvísi. Það finnast engar fullkomnar áætlanir eða nálganir, hver fjölskylda ætti að setja sér reglur sem henta. 

Reglurnar ættu að vera skýrar. Mikilvægt er að fjölskyldan ræði saman sem ein heild um skjátíma og hvernig eigi að setja mörk við birtingu persónuupplýsinga á netinu. Foreldrar og forráðamenn eru hvattir til þess að hlaða niður og búa til aðgang á hvaða samfélagsmiðli sem börnin þeirra vilja nota. Þannig kynnast foreldrar og forráðamenn miðlunum og eru meðvitaðir um hvers kyns vandamál sem þeim fylgir.

Setja upp tæknilaus svæði og ákveða tæknilausan tíma

Sem hluti af fjölskyldureglunum um samfélagsmiðla er gott að íhuga tímann og staði þar sem enginn skjátími ætti að vera. Lagt er til að enginn skjátími sé á síðasta klukkutímanum fyrir háttatíma, þar sem það er vel þekkt að erfitt sé að sofna eftir að hafa horft mikið á skjá. 

Tímum er hægt að breyta eftir því sem börn eldast og læra að sýna ábyrgð á margvíslegan hátt. Matartíminn er frábær til að nýta sem tæknilaust svæði. Þetta er frábær tími til að sýna hvert öðru athygli og ná hvert til annars í eigin persónu. Þetta á líka við um foreldrana.

Foreldrar og forráðamenn ættu að sýna gott fordæmi

„Gerðu eins og ég segi, ekki eins og ég geri“ er ekki góð stefna fyrir fjölskyldureglur í sambandi við samfélagsmiðla. Ef þú vilt að börnin þín yfirgefi skjáinn sinn þá þarftu að fylgja sömu reglum. Sem foreldrar og umönnunaraðilar hafið þið tækifæri til að sýna börnum ykkar gott fordæmi. Hegðun foreldra hefur mikil áhrif á bæði börn og unglinga.

Talið við aðra foreldra og fræðið hvert annað

Fjölskyldureglur verða líklega mismunandi eftir fjölskyldum. Allir foreldrar og umönnunaraðilar njóta þó góðs af því að læra hvert af öðru. Ekki hika við að spyrja aðra foreldra hvað þeir gera sem virkar eða hverju þeir hafa áhyggjur af. Stundum kemur nýr samfélagsmiðill sem margir hafa aldrei heyrt um en einhverjir hafa ákveðið að sé öruggur eða valdi vandamálum á heimili þeirra. Það er öllum til góðs að styðja hvert annað.

Psychology Today.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert