„Það er gott að líta inn á við“

Guðný Sif ásamt unnusta sínum, Árna Bergþóri og dætrum þeirra …
Guðný Sif ásamt unnusta sínum, Árna Bergþóri og dætrum þeirra Maídísi Dúu og Ástrósu Lóu. Ljósmynd/Guðný Sif Jóhannsdóttir

Guðný Sif Jóhannsdóttir er menntaður sjúkraliði sem ákvað nýverið að skipta um stefnu í lífinu. Hún hefur ásamt unnusta sínum, Árna Bergþóri Hafdal Bjarnasyni, opnað tvo veitingastaði á Selfossi á undanförnum tveimur árum. Guðný Sif er meðeigandi og rekstrarstjóri Samúelsson matbar og Groovís. Ásamt því er hún móðir tveggja ungra stúlkna, Maídísar Dúu, þriggja ára og Ástrósar Lóu, eins árs.

Þetta eru hennar helstu uppeldisráð:

Góð samskipti

„Það er ekki hægt að búast við því að börn geri eins og maður segi bara vegna þess að maður er foreldrið og „mamma segir það.“ Börn þurfa útskýringu á því, af hverju mamma er að segja, nei. Ef maður gefur sér tíma til að útskýra og rökræða, læra börnin að skilja. Hafðu væntingar þínar skýrar, útskýrðu vel, tjáðu tilfinningarnar og hjálpist að í sameiningu við að finna lausn á vandamálinu.“

Hrós er mikilvægt

„Það er ótrúlega áhrifaríkt að grípa börn þegar þau gera eitthvað rétt og benda á það í staðinn fyrir að gagnrýna. Ég er mjög dugleg við það. „Ég sá að þú lékst svo vel við systur þína og leyfðir henni að leika með dótið þitt, það er frábært hjá þér.“ Þetta mun hvetja til áframhaldandi góðrar hegðunar til lengri tíma heldur en endurteknar skammir.“

Hvetja til sjálfstæðis

„Mér finnst mikilvægt að byggja upp eiginleika barnsins og hvetja til sjálfstæðis og sjálfstrausts. Börn taka upp á ýmsum hlutum, sumu sem þau ættu alls ekki að gera, en þau eru forvitin og vilja gera sjálf, eins og að skera og klippa, klifra, blása á kerti og margt fleira. Ég tel það æskilegra að leyfa þeim að meðhöndla „hættulega“ hluti en í öruggum kringumstæðum og undir leiðsögn og þá læra þau að fara varlega. Ég passa mikið upp á þetta.“

Fyrirmyndin

„Það er nauðsynlegt að kenna börnum þá hegðun sem foreldrar vilja að þau sýni. Góð hegðun kemur ekki sjálfkrafa. Foreldri þarf að ákveða hvaða hegðun þeim þykir æskileg og kenna hana á markvissan hátt. Besta leiðin til þess að sýna hana sjálfur og gefa skýr fyrirmæli. Barnið lærir með því að sjá og herma eftir.“

Líta inn á við  

„Enginn er fullkominn og það er í góðu lagi. Það þarf ekki að vera fullkominn á öllum sviðum til að vera gott foreldri en það er gott að líta inn á við og finna eigin styrkleika og veikleika og vinna í þeim. Þarf þarf einnig að hafa raunhæfar væntingar til sjálfs þíns og barnanna.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert