Hér má sjá PDF-skjal með upplýsingum um helstu hátíðir.">

Verslunarmannahelgin 2009

Undanfarin ára hafa Stuðmenn haldið tónleika í Húsdýragarðinum um verslunarmannahelgina.
Undanfarin ára hafa Stuðmenn haldið tónleika í Húsdýragarðinum um verslunarmannahelgina.

Hvað á að gera? Hvert á að fara? Mesta stuðhelgi ársins er að renna upp og eflaust margir sem velta nú fyrir sér hvert á að halda. Morgunblaðið tók saman helstu hátíðir verslunarmannahelgarinnar með von um að hjálpa óákveðnum ferðalöngum að finna áfangastað. Hér má sjá PDF-skjal með upplýsingum um helstu hátíðir.

Innipúkinn í Reykjavík

Í áttunda sinn geta innipúkar hangið í Reykjavík um verslunarmannahelgina en samt fengið smá útihátíðarstemningu í æð. Tónlistarhátíðin Innipúkinn fer fram á Sódómu og Batteríinu við Tryggvagötu frá föstudegi til sunnudags. Meðal þeirra sem koma fram eru: Hjaltalín, Megas og Ólöf Arnalds, Seabear, Sin Fang Bous, Singapore Sling, Trúbatrix og Benni Hemm Hemm. Miðaverð er 2.900 krónur. midi.is/tonleikar/1/5614/


Dillon í Reykjavík

Jack Live Summerfestival verður í garðinum á Dillon Rockbar á Laugavegi frá föstudegi til sunnudags. Þar spila m.a.: Dr. Spock, Agent Fresco, Vicky, Sólstafir, Mammút og Ultra Mega Techno-bandið Stefán. Helgarpassi kostar 2500 kr. eða 1500 kr. stakt kvöld. midi.is/tonleikar/1/5617

Fjölskylduhátíð SÁÁ

SÁÁ stendur fyrir fjölbreyttri skemmtun að Hlöðum, Hvalfjarðarströnd, alla helgina. Hljómsveitin Nögl, KK, Geir Ólafsson og Gylfi Ægisson eru meðal þeirra sem skemmta. Einnig er í boði listasmiðja barna, bingó, diskó unga fólksins, útileikir og helgistund. Aðgangseyrir er 3000 kr. en frítt fyrir börn 14 ára og yngri.

Sæludagar í Vatnaskógi

Í nítjánda sinn verður haldin áfengislaus fjölskylduhátíð í Vatnaskógi. Meðal þeirra sem koma fram eru Björgvin Franz og dvergurinn Dofri og Regína Ósk og Sigursveinn Þór. Miðaverð er 3500 kr. en dagsmiði kostar 2000 kr. kfum.is

Mýrarboltamót á Ísafirði

Keppt verður í mýrarbolta á Ísafirði um helgina. Enn er hægt að skrá sig til þátttöku í keppninni. Skráningargjald er 5.000 krónur og innifalið er mótsgjald auk aðgangs að lokahófi mótsins, með mat og dansleik. myrarbolti.com

Unglingalandsmót UMFÍ á Sauðárkróki

Unglingalandsmót Ungmennafélags Íslands verður haldið í 12. sinn um helgina en þar er að vanda keppt í hinum ýmsu íþróttum á borð við frjálsíþróttir, körfubolta, sund, glímu, hestaíþróttum og motocross. umfi.is/unglingalandsmot

Síldarævintýri á Siglufirði

Hljómsveitirnar Buff, Papar og Heldri menn leika á dansleikjum, Raggi Bjarna og Þorgeir Ástvaldsson taka lagið, Hara-systur halda tónleika, horfa má á Söltunarsýningu og börn geta tekið þátt í dorgveiðikeppni. sildaraevintyri.fjallabyggd.is/

Akureyri

Það verður Abba-þema á Akureyri um helgina á hátíðinni Ein með öllu og allt undir. Á dagskránni kennir ýmissa grasa en meðal annars verður boðið upp á kirkjutröppuhlaup, hlöðuball, sögugöngu, ratleik og markað. Einnig geta gestir komist á tónleika með Hjálmum, Nýrri danskri, Páli Óskari, Sálinni hans Jóns míns og Mannakorni. einmedollu.is

Neistaflug á Neskaupstað

Neistar fljúga á Neskaupstað í 17. sinn um helgina. Þar verður aðaláherslan á það að fjölskyldan skemmti sér saman. Þar verður meðal annars boðið uppá Eurovisionkvöld, auk þess sem hljómsveitirnar Ný dönsk, Buff og Bermuda leika fyrir dansi. Þá heimsækja Selma Björns, Örn Árnason og Tóti tannálfur og Jósafat mannahrellir úr Benedikt búálfi yngstu kynslóðina, svo fátt eitt sé nefnt. neistaflug.is

Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum

Rótgrónustu hátíðahöld þessarar mestu ferðahelgar ársins fara að vanda fram í Vestmannaeyjum. Fjölskyldudagskrá verður í boði fyrir fólk á öllum aldri og meðal annars verður Brúðubíllinn ferjaður út til Eyja. Tónleikadagskrá er glæsileg að vanda en meðal þeirra sem fram koma eru Skítamórall, Í svörtum fötum, Bubbi Morthens, KK, Land og synir, Hjálmar, Egó, Geir Ólafs, Páll Óskar og Ingó úr Veðurguðunum að ógleymdum Árna Johnsen. Miðaverð er 12.900 krónur, eða 10.900 í forsölu. dalurinn.is

Kotmót í Fljótshlíð

Hvítasunnuhreyfingin heldur sitt árlega Kotmót að Kirkjulækjarkoti í Fljótshlíð og er það nú haldið í 60. sinn.  Mótið hefst á fimmtudag og stendur fram á mánudag. Boðið er upp á fjölbreytta dagskrá, m.a. sérstaka dagskrá fyrir börn og einnig fyrir unglinga. Hápunktur mósins eru tónleikar bandaríska tónlistarmannsiins og gospelsöngvarans Andraé Crouch í samkomusalnum Örkinni ásamt Gospelkór Reykjavíkur og Gospelkór Fíladelfíu á sunnudag. Aðgöngumiðinn kostar 1700 kr. á tónleikana en 850 fyrir börn á grunnskólaaldri. kotmot.123.is/

Harmonikkuhátíð í Árnesi Skeiða- og Gnúpverjahreppi

Hátíðin Nú er lag verður í Árnesi um verslunarmannahelgina en það er Félag harmonikuunnenda í Reykjavík sem stendur fyrir henni. Þar verða í boði tónleikar, dans, markaður, harmonikusýning, fjölbreytt útispil og samspil nærtækra hljóðfæra.

Flúðir Hrunamannahreppi

Á Flúðum er iðulega mikið um að vera um helgi verslunarmanna. Á laugardeginum fer fram traktorstorfæra og á föstudags- og laugardagskvöldinu koma Ljótu hálfvitarnir fram í Félagsheimili Hrunamanna. Á skemmtistaðnum Útlaganum verður líka margt um að vera. Bændamarkaður er á staðnum og í byrjun sumars var opnað nýtt tjaldstæði á staðnum með strandblakvelli.

Þrastarlundur, Grímsnesi

Það verður sumarstuð í Þrastarlundi um helgina, tilvalið fyrir sumarbústaðagesti og tjaldbúa. Sigga Beinteins og Stjórnin leika fyrir dansi á laugardagskvöldinu og Grétar Örvars og Bjarni Ara verða í Elvissveiflu á sunnudagskvöldinu. Á staðnum verður ferðaleikhús fyrir börn og hoppukastali.

Færeyskir fjölskyldudagar á Stokkseyri

Færeysk stórhátíð verður í Draugasetrinu á Stokkseyri þar sem boðið verður upp á fjölbreytta færeyska tónlist og dansa. Fjörið hefst á föstudagskvöldinu með dansleik með Jens Marni og félögum. Dansleikurinn verður brotinn upp með færeyskum dansi, harmónikuspili og innslagi frá Simme og hljómsveit. Fótboltakeppni fer fram á milli Færeyja og Íslands og á sunnudeginum verður m.a bryggjusöngur með Labba í Glóru og Simme. www.stokkseyri.is

Gönguhátíð í Grindavík

Af stað, menningar- og sögutengd gönguhátíð, verður í Grindavík um helgina. Farið verður í skipulagðar gönguferðir á hverjum degi. Þátttökugjald í hverja göngu er 1000 kr. en frítt fyrir 12 ára og yngri. www.sjfmenningarmidlun.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.090 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »