Fjallamennskan er fíkn

Ostakarið á Húsavíkurhöfða ofan við Húsavíkurbæ er ein af heitu …
Ostakarið á Húsavíkurhöfða ofan við Húsavíkurbæ er ein af heitu laugunum í bókinni Heitar laugar á Íslandi. Jón G. Snæland

Jón G. Snæland, ferðabókahöfundur, hefur nú sent frá sér sína fjórðu bók sem hann skrifar að þessu sinni með konu sinni, Þóru Sigurbjörnsdóttur. Bókin nefnist Heitar laugar á Íslandi. Jón var fenginn til að segja lítillega frá bókinni en fyrst var hann spurður um ástæður þess að þetta efni varð fyrir valinu.

 „Ástæðurnar eru fyrst og fremst þær að ég hef verið mikið á hálendinu, verið að skrifa um hálendisleiðir og fleira í þeim dúr en einnig ferðasögur. Við erum á þessum ferðum alltaf að koma að laugum á hálendinu sem oft fáir vita um. Það má því segja að það hafi farið að safnast svolítið upp hjá mér af hálendislaugum. Í byrjun voru þetta því fyrst og fremst hálendislaugar og þær urðu síðan kveikjan að því kannski væri forvitnilegt að að huga að laugum á láglendinu líka.“

Jón segir að þannig hafi eitt leitt af öðru og úr varð svolítið safn en í framhaldinu var síðan ákveðið að holufylla það frekar. „Mér leiðist fátt meira en að vita af fólki vera að aka framhjá náttúruperlum af því að það veit ekki af þeim,“ segir Jón ennfremur.

„ Þetta á jafnvel við um fólk sem á heima í næsta nágrenni. Það er nú einu sinni með þessar laugar að þær láta ekki mikið yfir sér, það ber afskaplega lítið á þeim í landslaginu og svo er það dálítill kækur hér á landi að það er svo mikið af leyndarmálum í gangi; fólk vill ekki láta vita af leiðum, laugum, fossum og einu og öðru sem það vill hafa fyrir sig.“

Jón segist hins vegar hafa verið á þeirri línu að láta fólk vita af náttúruperlunum því að með því að upplýsa almenning og ferðafólk um þessar perlur þá dreifi það álaginu. „Fólk fer eitthvað annað líka. Það fara ekki bara allir í Landmannalaugar eða Strútslaug.“

Í bókinni er getið eða lýst liðlega 100 laugum. Þetta eru ekki sundlaugamannvirki í þeim skilningi orðsins en Jón vill heldur ekki skilgreina bókina þannig að eingöngu sé verið að fjalla um „náttúrulegar“ laugar.

„Nútímalegust er sennilega Seljavallalaug sem er auðvitað komin til ára sinna og einnig laugin  Brautartunga í Lundareykjadal, Það eru óskaplega fáar laugar sem eru hreinar „náttúrulaugar“ í þeim skilningi því að yfirleitt hefur mannshöndin með einhverjum hætti komið að þeim, hlaðið í kringum þær eða sett í þær fiskikar eða eitthvað þvíumlíkt. Það eru ekki nema örfáar sem við getum sagt að séu tilkomnar eingöngu af náttúrunnar hendi“

Jón segir að í nokkrum tilfellum sé laugar nánast í hlaðvarpanum eða túnfætinum við bæi og sé þá látið duga að nefna þær en mest sé fjallað um laugarnar á hálendinu, „enda má segja að ég þekki hálendið miklu betur en láglendið.“

Mestu fjallagarparnir ekki á Glitnis- eða SP fjármögnunar-jeppum

En hvernig skyldi fjallaáhugi Jóns G. Snælands til kominn? „ Það er kannski ekkert einhlítt svar við því. Faðir minn, Kristinn Snæland, ferðaðist mikið og smám saman óx áhuginn og síðustu 15 árin eða svo hef ég verið „upp fyrir eyru“ í þessu. Nú er ég fíkill - þetta er orðin fíkn og við þessari fíkn er ekki til nein meðferðarstöð. En þetta er áreiðanlega betri fíkn en spilafíknin.“

Jón hefur áður skrifað tvær bækur um hálendisleiðir og sitthvað þeim tilheyrandi bæði um sumar og vetrarleiðir. „Síðan hef ég skrifað ferðasögubók um nútíma jeppakalla sem heitir Á fjöllum og kom út í fyrra hjá Skruddu. Núna er ég að taka fyrir skála, eða öllu heldur óbyggðaskála, þ.e. skálar ferðafélaga, fjallamannakofar og neyðarskýli, öll flóran eins og hún leggur sig. Þessi bók er nánast tilbúin.“

Jón segir enda bókina um laugarnar nokkurs konar hliðarspor og þar þurfti hann á aðstoð konu sinnar að halda. „Verkaskiptingin var í megin atriðum sú að hún annaðist gagnasöfnunina, vafraði á vefnum og svo er hún GPS manneskjan en við skráum niður öll hnitin og eins á leiðunum.“

Jón er jeppakall, og því er hann spurður hvort menn þurfi ekki að vera með ofboðslega fína og margbreytta jeppa í svona fjallaferðum. „Nei, öðru nær,“ svarar hann.  

„Þeir sem ferðast mest eru ekki á Glitnis- eða SPfjármögnunar-jeppum. Þeir eru á gömlum jeppum sem þeir hafa smíðað meira og minna sjálfir. Það mjög algengt og þessir sönnu jeppakallar missa sig ekki í flottræfilshætti. Ég er til dæmis á mikið breyttum jeppa en það er eitthvað sem ég hef gert sjálfur. Það er nefnilega alveg hægt að vera á ódýrum jeppum á fjöllum - það er mikill misskilningur að maður komist eitthvað meira á glansandi jeppa en möttum.“

Jón er einn af forsprökkum Ferðaklúbbsins 4x4 og er þar í svokölluðu ferlaráði sem felur í sér að hann er að sjá um mælingar af hálfu klúbbsins fyrir Landmælingar og reyndar fleiri kortafyrirtæki. Hann er mikill áhugamaður um stikun leiða en 4x4 klúbburinn hefur unnið að því að stika leiðir á hálendinu í um tvo áratugi.

„Við erum að vinna að þessum í samráði við sveitarfélögin með því að fá grænt ljós á að stika þessa eða hina leiðina. Við sjáum það ótvírætt að þegar við erum búnir að stika þar sem mikið er af slóðum að þá dragast þeir fljótlega að stikuðu leiðinni. Það er sem sagt ekki einbeittur brotavilji hjá þeim sem eru að aka út um allt heldur vita þeir einfaldlega ekki betur. Þeir eru fyrst að elta einhver dauf för en þegar þeir svo sjá að það eru komnar stikur þá elta þeir stikurnar. Við teljum því að þetta sé eitt af því besta sem við getum gert til að sporna gegn utanvegaakstri.“

10 athyglisverðar laugar, leiðir og staðir að vali Jóns G. Snæland

mbl.is

Bloggað um fréttina