Bandarískar stórborgir í endurnýjun

Cleveland í Ohio og Pittsburgh í Pennsylvaníu, breyst mikið og …
Cleveland í Ohio og Pittsburgh í Pennsylvaníu, breyst mikið og laða nú að sér ungt og vel menntað fólk. mynd/HallurMar

Það er ekki langt síðan það kostaði mánaðarlaun verkamanns að komast til Bandaríkjanna en sem betur fer er raunin nú önnur. Virk samkeppni í flugsamgöngum hefur aukið lífsgæði hér á landi mikið. Áður en hún kom til hefði verið langsótt fyrir mig að láta gamlan draum konunnar minnar rætast, að heimsækja hið sögufræga og ægifallega Fallingwater-hús í Pennsylvaniu-ríki í Bandaríkjunum, í tilefni af stórafmæli. Í leiðinni væri hægt að heimsækja tvær bandarískar stórborgir, Pittsburgh og Cleveland í Ohio-fylki.

Stálborgin á milli fljótanna

Flogið var til og frá Pittsburgh í seinnihluta maímánaðar með stoppi í Cleveland. Pittsburgh hefur eins og svo margar stórborgir gengið í gegnum endurnýjun lífdaga á undanförnum árum þar sem gamlar byggingar fá ný hlutverk og atvinnulífið þroskast. Borgin byggðist upp í kringum öflugan stáliðnað og ber þess merki. Gamlar gotneskar stórbyggingar byggðar á uppgangsárunum á fyrri hluta síðustu aldar eru áberandi en einnig fjöldi brúa sem liggja yfir stórfljótin sem mætast við borgina og gerðu hana m.a. hentuga til stálflutninga. Brýrnar munu vera fleiri en 300 talsins! Annars eru þéttir skógar það sem fyrst grípur augað við komuna til Pennsylvaniu.

Séð yfir miðborgina í Cleveland. Torgið er nýlegt og þar …
Séð yfir miðborgina í Cleveland. Torgið er nýlegt og þar er mikið líf. mynd/HallurMar

Eins og ávallt við komuna vestur um haf vorum við hálfringluð af þreytu og tímamismun við komuna á Omni William Penn-hótelið sem á sér meira en hundrað ára sögu. Þar mun sjónvarpsstjarnan Bob Hope hafa beðið eiginkonu sinnar og menn á borð við John F. Kennedy gerðu sér glaðan dag í glæsilegum salarkynnum hótelsins. Þau hafa líklega lítið breyst á öllum þessum árum. Það er alltaf eitthvað sérstakt og kunnuglegt við að upplifa þessa hlið Bandaríkjanna. Þrátt fyrir flugþreytu var lítið annað í stöðunni en að taka léttan skoðunargöngutúr um nágrennið og panta sér svo drykk á Speakeasy-barnum í kjallaranum.

Warhol-safnið í Pittsburgh, með verkum og munum Andy Warhol, ættu …
Warhol-safnið í Pittsburgh, með verkum og munum Andy Warhol, ættu allir sem heimsækja borgina að skoða. mynd/HallurMár

Tveimur dögum skyldi eytt í að kanna Pittsburgh, söfn og verslanir áður en haldið yrði til Fallingwater. Fyrsta verkið var að kíkja á Andy Warhol-safnið en listamaðurinn, sem setti líklega mark sitt umfram aðra kollega sína á 20. öldina, ólst upp í borginni. Safnið er því nokkuð veglegt og hefur að geyma mikið af verkum og persónulegum munum popparans sérvitra. Sérstaklega var innsetningin Silfurpúðar frá árinu 1966 með svörtum veggjum, silfruðum gaspúðum og kraftmiklum viftum eftirminnileg. Á safninu er einnig aragrúi af frábærum teikningum Warhols sem hafði mikið dálæti á að teikna prívatparta samferðamanna sinna, enda drátthagur með eindæmum.

Verk eftir flesta stóru meistarana er að finna á listasafninu …
Verk eftir flesta stóru meistarana er að finna á listasafninu í Cleveland. mynd/HallurMár

Safnið var líklega hápunktur Pittsburgh-dvalarinnar ásamt máltíðum á Ace-hótelinu, fyrrnefndu William Penn-hóteli og á veitingastað sem heitir því látlausa nafni Meat & Potatoes. Þar þurftum við reyndar að fylgjast með raunum ólánsamrar ungrar konu á næsta borði og lífsviljanum fjara úr augunum á henni með hverri setningu sem sjálfhverfur sessunautur hennar lét út úr sér. Líklega hefur ekkert orðið af stefnumóti númer tvö þar.

Rúma klukkustund tekur að keyra frá Pittsburgh til Fallingwater-hússins sem að margra mati er það fallegasta sem byggt var á 20. öldinni. Þeirri heimsókn voru gerð ítarleg skil á mbl.is fyrir stuttu. Á Laurel Highlands-svæðinu þar sem húsið stendur er þó hægt að gera margt fleira. Flúðasiglingar eru vinsælar og þá ætti hjólreiðafólk að finna eitthvað við sitt hæfi á svæðinu. Great Allegheny Passage rail trail-leiðin liggur um svæðið en það er 240 kílómetra leið sem breytt var úr lestarleið í hjólastíg og nýtur mikilla vinsælda.

Fallingwater-húsið eftir Frank Lloyd Wright er einstakt og þangað kemur …
Fallingwater-húsið eftir Frank Lloyd Wright er einstakt og þangað kemur mikill fjöldi fólks. Samtök arkitekta í Bandaríkjunum völdu það fegursta hús 20. aldar. Mynd/HallurMár

Körfuboltaæði í Cleveland

Bílferðin frá Fallingwater til Cleveland tekur rúmar þrjár klukkustundir en bæði er hægt að fljúga til Pittsburgh og Cleveland með íslensku flugfélögunum. Cleveland er öllu dýnamískari borg en Pittsburgh og virðist hafa upp á meira að bjóða fyrir ferðalanga. Þar hefur einnig átt sér stað mikil endurnýjun á síðustu árum, bæði í skipulagi miðbæjarins og með yfirhalningu á gömlu byggingunum sem margar eru fallegar.

Líklega þekkja margir Cleveland helst sem heimaborg Lebron James, eins besta körfuboltamanns sögunnar. Þegar við vorum á staðnum lék Cleveland Cavaliers einmitt í úrslitakeppni NBA-deildarinnar við keltana frá Boston sem setti skemmtilegan svip á borgarbraginn. Tveir sæmilega kenndir stuðningsmenn Celtics gengu inn með látum í íþróttavöruverslun sem ég var staddur í og spurðu, svo undir tók í versluninni, hvar Celtics-vörurnar væri að finna? Án þess að hugsa sig tvisvar um sagði afgreiðslukonan þeim að koma til sín, hún væri með þær hjá sér. Skellihlæjandi að eigin fyndni gengu Celtics-mennirnir roggnir til hennar til að kíkja á úrvalið en var þó ekki jafn skemmt þegar hún tók upp ruslafötuna og tilkynnti þeim að þetta væri allt og sumt sem hún ætti fyrir stuðningsmenn Celtics. Hlaut hún góðar undirtektir viðstaddra en það var lágt risið á þeim grænklæddu þegar þeir hörfuðu rjóðir sína leið.

The Arcade í Cleveland er fallegur staður sem var byggður …
The Arcade í Cleveland er fallegur staður sem var byggður seint á 19. öld. Mikil vakning er í að viðhalda gömlum fallegum byggingum í borginni. Mynd/HallurMár

Borgin situr við Lake Earie eitt af stóru vötnunum fimm og gerði staðsetningin borgina að miðstöð verslunar og flutninga á árum áður. Við vatnið er skemmtilegt hafnarhverfi með úrvali af veitingastöðum og kaffihúsum. Sjúkrahúsið í borginni þykir afar gott og þangað sækir margt fólk sem menntar sig í heilbrigðisfræðum. Borgin er þekkt fyrir að vera heimili Rock and Roll Hall of Fame, sem hljómar í mínum eyrum eins og ofvaxinn Hard Rock-staður, en á þeim stutta tíma sem við dvöldum í borginni ákváðum við frekar að heimsækja listasafn borgarinnar, Cleveland museum of art. Það kemur skemmtilega óvart en safnið hefur í gegnum tíðina fengið rausnarlegar peningagjafir og stendur afar vel fjárhagslega, þar er að finna þekkt verk eftir marga af helstu málurum sögunnar og mikið af egypskum og asískum fornmunum. Kraftmikil leikhús- og söngleikjamenning ásamt afburða sinfóníuhljómsveit eru einnig á meðal þess sem borgin hefur upp á að bjóða. Í flestum bandarískum stórborgum er hægt að leita uppi góða veitingastaði og mæltu heimamenn með Lux sem er fyrir utan miðborgina þar sem nýir snúningar eru teknir á mat frá Miðjarðarhafinu og mikið er lagt upp úr að spila rétta tónlist og skapa stemningu. Óhætt að mæla með því.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert