Sólarupprás á Snæfellsjökli

Heiðblár himinn og alhvítur jökullinn tóku á móti göngufólkinu.
Heiðblár himinn og alhvítur jökullinn tóku á móti göngufólkinu. Ljósmynd/Ragnar Antoniussen

Klukkan var eitt eftir miðnætti einn laugardag í byrjun febrúar þegar nokkrir göngumenn lögðu af stað frá Reykjavík meðan aðrir sváfu enn. Þeir sem enn sváfu höfðu keyrt vestur fyrr og komið sér fyrir í gistingu nálægt Arnarstapa. Áfangastaðurinn var hinn víðfrægi Snæfellsjökull, 1.446 metra hár jökull yst á Snæfellsnesi. Ætlunin var að hefja gönguna á hann klukkan fjögur um nóttina, í svarta myrkri með höfuðljósin ein til að lýsa hópnum veginn. Takmarkið var að vera á toppi jökulsins við sólarupprás. 

Þegar hópurinn hittist var ekkert sem benti til þess hvar jökullinn væri nema skilti sem á stóð „Snæfellsjökull“ og benti í áttina til hans.  Myrkrið var algert og það eina sem lýsti mannskapnum voru ljósin á bílunum og höfuðljósin sem göngumenn voru með á höfðinu. Eftirvæntingin var mikil fyrir því að hefja gönguna jafnvel þótt strax kæmi í ljós að ganga þyrfti töluvert lengra en ætlað var því ekkert var hægt að aka upp á jökulhálsinn því vegurinn upp á jökulháls var alveg ófær. Í ferðinni voru átta manns og tveir fararstjórar frá Ferðafélagi Íslands. Þetta var fyrsta ferð hópsins á jökulinn að fararstjórunum undanskildum.

Strax og slökkt var á bílljósunum og augun höfðu vanist myrkrinu tók við magnað sjónarspil stjarna og dansandi norðurljósa. Fjarri allri ljósmengun birtist útsýni sem sjaldgæft er fyrir borgarbúana að sjá nema í hugarheimi. Til að auka á áhrifin var tunglið nánast ósýnilegt en nýtt tungl átti að hefjast tveimur dögum síðar svo lágmarksbirtu stafaði af tunglinu.

Útsýnið af Snæfellsjökli er óviðjafnanlegt.
Útsýnið af Snæfellsjökli er óviðjafnanlegt. Ljósmynd/Ragnar Antoniussen

Áður en lagt var af stað kannaði fararstjóri hvort allir væru með réttan jöklabúnað á sér. Það þurfti jöklabrodda, ísöxi, klifur- eða göngubelti og eina læsta karabínu til að festa göngumenn við línuna sem gengið var í. Flestir gengu á snjóþrúgum þessa nótt. 

Fram undan var 18 km löng ganga upp á jökulinn og var áætlaður göngutími um 9-10 klukkustundir. Engin ský voru á himni, það var logn og um -14 gráðu frost þegar lagt var af stað í gönguna.

Á göngunni upp fjallið var reglulega stoppað og slökkt á höfuðljósunum til að njóta sjónarspils stjarna og norðurljósa og ekki síður til að hlusta á náttúruna. Í svona aðstæðum verður manneskjan svo agnarsmá og auðmjúk. Eftir því sem ofar kom herti frostið. Veðurstofa íslands var búin að spá -22 stiga frosti á toppnum og um hádegið átti svo að byrja að blása. Þetta yrði einn af kaldari stöðum landsins þennan dag.

Hópurinn var kominn í um 1.000 metra hæð þegar fyrsta birta dagsins fór að sýna sig. Í fjarskanum birtist appelsínugulur bjarmi sem stækkaði og lýsti upp sjóndeildarhringinn með fallegum rauð-appelsínugulum lit. Appelsínugula röndin breikkaði og sortinn blámaði. Uppi á jöklinum mátti horfa eftir Snæfellsnesinu endilöngu og sjá hvernig bjarminn lýsti upp nesið sunnanmegin meðan norðanvert Snæfellsnesið var enn kolsvart og minnti helst á Mordor í Hringadróttinssögu. Þetta var magnað að sjá.

Ískalt var á toppnum eða -22 gráður og væri vindkæling …
Ískalt var á toppnum eða -22 gráður og væri vindkæling tekin með samsvaraði það um -33 gráða frosti. Ljósmynd/Ragnar Antoniussen

Litirnir á himninum héldu áfram að breytast, frá rauðu yfir í appelsínugult og gult, úr svörtu yfir í dökkblátt og svo blátt. Göngumenn gleymdu kuldanum á toppnum og störðu á sjónarspilið þegar sólin reis upp fyrir sjóndeildarhringinn. Strýturnar á toppi jökulsins urðu rauðleitar eins og jökullinn sjálfur.

Veðurspáin reyndist rétt og reyndist frostið vera um -22 gráður og væri vindkæling tekin með samsvaraði það um -33 gráða frosti. Þetta þýddi að ekki mátti stoppa mjög lengi á toppnum umfram það sem nauðsynlegt var til þess að njóta augnabliksins. Haldið var af staður niður af jöklinum og var gengið rösklega til að fá hita aftur í fingur og tær. Hópurinn var þó fljótlega minntur á það að jökulgöngur eru ekki hættulausar. Ísbrú yfir jökulsprungu hafði gefið sig en sem betur fer ekki alveg. Passað var vel upp á að öryggislínan yrði aldrei slök og allt fór þetta vel.

Þegar komið var niður af jöklinum og mannskapurinn kominn úr öryggislínu hægði á hópnum. Það var eins og hann vildi draga þetta ferðalag á langinn. Hópurinn sem mætti í ferðina á hrós skilið, ferðin var löng og færið erfitt en göngumenn reyndust vera þrekmikil hörkutól.

Nú var himininn heiðblár, jökullinn alhvítur, snjór yfir öllu og hvergi spor að sjá nema eftir göngumennina sjálfa. Náttúran var búin að sýna hópnum allar sínar bestu hliðar – landið okkar er magnað.

Þessi ferð var hluti af útivistarverkefninu „Gengið á góða spá“ hjá Ferðafélagi Íslands en Ragnar Antoniussen var fararstjóri ferðarinnar og er umsjónarmaður verkefnisins. Honum til aðstoðar í þessari ferð var Þór Svendsen Björnsson.

Gengið á góða spá er opið útivistarverkefni sem snýst um þá meginhugmynd að stunda útivist og fjallgöngur í góðu veðri. Ferðirnar eru fjölbreyttar að umfangi, bæði fjallgöngur og annars konar útivist. Allar ferðir í verkefninu eru farnar þangað sem mestar líkur eru á góðu gönguveðri og fjallaútsýni og eru auglýstar með stuttum fyrirvara eða 4-5 dögum fyrir hverja ferð. Ferðirnar standa öllum opnar en nauðsynlegt er að skrá sig og greiða fyrir hverja ferð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert