Engin undankomuleið

Brynhildur ásamt kenískri nöfnu sinni. Hún segir að það hafi …
Brynhildur ásamt kenískri nöfnu sinni. Hún segir að það hafi verið tilfinningaþrungin stund þegar hún hitti börnin sem hún er búin að styrkja í mörg ár. Mynd/SólveigJónsdóttir

Kjartan Jónsson hefur margoft komið til Afríku í tengslum við hjálparstarf og námskeiðahald. Í júní síðastliðnum fór hann í tveggja vikna ferð til Kenía og Tansaníu ásamt hópi vina og fjölskyldumeðlima á aldrinum þrettán til áttatíu ára.

Í hópnum voru, auk Kjartans, eiginkona hans, Sólveig Jónasdóttir, og börn þeirra, Jónas Hákon og Inga Sóley; móðir Kjartans, Inga Þyri Kjartansdóttir, og hennar maður, Bergþór Úlfarsson; og Brynhildur, systir Kjartans, ásamt eiginmanni hennar, Erlendi Ólafssyni, og dætrum þeirra, Gunnhildi og Elínu Halldóru. Auk þess voru vinahjón með í för, Guðrún Halldórsdóttir og Ólafur Jóhannsson og sonur þeirra, Axel. Allir í hópnum, fyrir utan Kjartan, Sólveigu og Bergþór, voru að koma á þessar slóðir í fyrsta sinn.

Öll fjölskyldan samankomin. Frá vinstri til hægri: Axel Ólafsson, Ólafur …
Öll fjölskyldan samankomin. Frá vinstri til hægri: Axel Ólafsson, Ólafur Jóhannsson, Guðrún Halldóra Sveinsdóttir, Bergþór Úlfarsson, Inga Þyri Kjartansdóttir, Kjartan Jónsson, Jónas Hákon Kjartansson, Erlendur Þór Ólafsson, Gunnhildur Katrín Erlendsdóttir, Brynhildur Jónsdóttir, Elín Halldóra Erlendsdóttir, Sólveig Jónasdóttir og Inga Sóley Kjartansdóttir fremst. Mynd/Úreinkasafni

Tilgangur ferðarinnar var að heimsækja fósturbörn sem fjölskyldan hefur styrkt í gegnum árin í Naíróbí í Kenía og kíkja á skóla við Viktoríuvatn sem félagið Vinir Kenía hefur stutt um áraraðir; auk þess að ganga frá samningi um byggingu vatnstanks við lítinn skóla í Tansaníu.

Inga Þyri og Brynhildur hafa einnig stutt fjölmörg börn í skólanum Little Bees í fátækrahverfi Naíróbí í mörg ár. Það er því óhætt að segja að ferðin hafi haft mikið tilfinningalegt gildi, sérstaklega fyrir þær mæðgur.

„Ég hafði ekki komið þarna áður,“ segir Brynhildur, „og þetta var algjörlega ólýsanlegt. Þetta var mjög tilfinningaþrungið. Að fá að hitta börnin sem maður er búinn að styrkja og börnin sem ég er búin að fylgjast með frá því þau voru tveggja ára. Þessir dagar sem við vorum þarna voru bara ein gæsahúð.“

Eins og það gerist verst

Sólveig fór til Kenía fyrir tólf árum og heimsótti þá Little Bees-skólann. „Sú upplifun situr ennþá í mér. Skólinn er inni í miðju fátækrahverfi og þarna eru opin holræsi og eiginlega bara eins og það gerist verst.“ Hún segir þó mikið hafa breyst til batnaðar og aðbúnaður barnanna sé orðinn mun betri en hann var þá. Hún hafi líka séð mikinn mun á börnunum. „Það er greinilega vel hugsað um þau, þau voru opin og örugg. Það var líka annar andi þarna og byggingarnar orðnar miklu betri.“

Hluti af fósturbörnunum í Little Bees. Aðbúnaður þeirra hefur farið …
Hluti af fósturbörnunum í Little Bees. Aðbúnaður þeirra hefur farið batnandi. Mynd/BrynhildurJónsdóttir

Kjartan tekur undir með Sólveigu og segir að þegar hann hafi fyrst komið í skólann hafi svæðið verið eitt drullusvað. „Þetta var bara röð af hreysum úr bárujárni og þarna rann í rauninni bara ræsi í gegnum staðinn. Þá voru um þrjátíu til fjörutíu börn í skólanum en nú eru þau um þrjú hundruð.“ Hann segir að hverfið sé enn gríðarlega fátækt og umhverfið í kringum skólann beri þess merki. En aðstaðan í skólanum sjálfum sé góð og í stað bárujárnskofanna séu nú komnar styrktar byggingar með steinsteyptu gólfi í stað moldargólfa.

Beðin um að lýsa húsnæðinu segir Brynhildur að þótt það þætti ekki flott á íslenskan mælikvarða sé það mjög fínt miðað við umhverfið í kringum skólann. „Allt er mjög snyrtilegt innandyra. Áður rann skólpið í gegn inni í skólanum þegar rigndi þannig að það kom upp malaría. Það var því mikið heilbrigðismál að loka þessu og félagið Little Bees safnaði fyrir því,“ segir Brynhildur.

„Einu sinni kom upp kólerufaraldur og þá dóu held ég þrjú börn. Þarna eru ber gólf og veggir og búið að teikna kennslutöflur á veggina. En það er í raun nánast ekkert kennsluefni, þannig lagað séð.“

Hvernig var upplifunin að koma inn í fátækrahverfið?

„Það er ekkert mjög geðslegt að koma þarna að, maður þarf til dæmis að klofa yfir fljótandi ræsi,“ segir Kjartan. Brynhildur tekur í sama streng og segir að það sé ekkert skipulagt grunnkerfi þarna. „Það kemur enginn að hirða sorpið, það er ekkert rennandi vatn og það eru engin almenningsklósett. Og já, aðkoman að skólanum... Það eru svona eins og litlir skurðir í miðjum veginum þar sem alls konar flýtur og þegar rignir, eða er blautt, þá gýs upp alveg ólýsanleg lykt.“ Þau fengu einmitt að upplifa það þegar rigndi á meðan á heimsókninni stóð. „Og þetta búa börnin við. Sum í skóm og sum ekki,“ bætir Brynhildur við.

Íslenska landsliðið mætt

Þeim ber öllum saman um að íslenski hópurinn hafi fengið góðar móttökur. Brynhildur segir algjört fótboltaþema hafa verið í gangi, enda Ísland að keppa á heimsmeistaramótinu á þessum tíma. Það hafi verið slegið upp fótboltaleik milli þjóðanna og kenísku börnin hafi verið búin að merkja treyjurnar sínar með nöfnum íslensku landsliðsmannanna. „Þannig að allt íslenska landsliðið var hreinlega mætt,“ segir Brynhildur og brosir að minningunni. „Þjóðsöngurinn var spilaður og allt.“

„Ísland vann með tveimur mörkum gegn einu,“ segir Kjartan. „Það fór reyndar aðeins um mann því aðstæðurnar þarna voru í raun stórhættulegar. Það var spilað mjög þröngt og sitt hvorum megin við voru bárujárnshús með hvössum brúnum.“ Brynhildur segir þetta vera aðstæður barnanna til leiks og Vini Little Bees langi meðal annars að bæta leikaðstöðuna og setja upp gott leiksvæði fyrir börnin.

Íslenski hópurinn ferðaðist frá Kenía yfir til Tansaníu og stoppaði …
Íslenski hópurinn ferðaðist frá Kenía yfir til Tansaníu og stoppaði meðal annars við Viktoríuvatn. Mynd/SólveigJónasdóttir

Eftir tveggja daga dvöl í Naíróbí hélt hópurinn af stað yfir til Tansaníu. Sólveig skipulagði ferðina ásamt Kjartani. „Hann þekkir auðvitað vel til á þessu svæði, enda búinn að koma þarna margoft og ég svo sem komið þarna einu sinni líka,“ segir Sólveig. „Við vissum alveg nokkurn veginn hvar við vildum gista; við vorum auðvitað með börnin og tengdó sem er öðruvísi en þegar maður er bara einn á ferð. Þannig að við vildum hafa ákveðin þægindi, eins og sundlaug og fjölskylduherbergi. Ég sá ekki fyrir mér að fljúga með börnin mín til Afríku og hafa þau svo í öðru herbergi.“ Þau Sólveig og Kjartan pöntuðu flug og gistingu á netinu og Sólveig segir það allt hafa gengið vel og allt hafa staðist. Það hafi ekkert komið á óvart og hlutirnir voru eins og þeir höfðu verið á myndunum. Á einum stað hafi þau fengið rangt herbergi afgreitt en því hafi strax verið kippt í lag.

Hópurinn dvaldi í Naíróbí í tvo daga en hélt svo af stað yfir til Tansaníu. „Við leigðum rútu með bílstjóra,“ segir Sólveig, „og keyrðum í gegnum Kenía í átt að Kisumu við Viktoríuvatnið. Þar fórum við yfir með ferju og héldum svo áfram þaðan til Tansaníu.“

Flestir foreldrar sem hafa keyrt langar vegalengdir með börn og unglinga vita að þolinmæði þeirra getur verið af skornum skammti.

Leiddist unglingunum ekkert að sitja svona lengi í bíl?

„Ó, nei,“ segir Sólveig. Maður þurfti ekkert að hafa áhyggjur af því að neinum leiddist eða að einhver væri límdur við símaskjáinn. Krakkarnir horfðu bara út um gluggann enda var allt í gangi þarna úti,“ segir Sólveig.

Ljónin komin eftir tvo, þrjá daga

Hópurinn heimsótti Serengeti-þjóðgarðinn í Tansaníu. Hann er rúmlega þrettán þúsund kílómetrar að stærð, með fjölbreyttu dýralífi og stórfenglegri náttúru. Farið var í þriggja daga jeppaferð í gegnum þjóðgarðinn og þau Kjartan, Sólveig og Brynhildur eru sammála um að sú upplifun hafi verið einstök.

„Ég hef ferðast mjög mikið, en ég hefði ekki trúað því hvað þetta var mikil upplifun,“ segir Sólveig. „Við vorum í jeppum sem hægt var að opna toppinn á og maður gat næstum því teygt sig yfir í næsta ljón.“

„Þetta var magnað; miklu magnaðra en ég hefði haldið,“ segir Kjartan sem hafði áður farið í lítinn þjóðgarð í Nakuru í Kenía. „Það var ekkert þessu líkt. Þarna í Serengeti horfði maður á endalausar gnýjahjarðir fara yfir veginn fyrir framan okkur; það sá ekki fyrir endann á þeim.“

Hópurinn fékk að stoppa til að taka myndir af dýrunum …
Hópurinn fékk að stoppa til að taka myndir af dýrunum en enginn mátti fara út úr bílunum. Mynd/ÓlafurJóhansson

Sólveig segir þau hafa stoppað af og til fyrir myndatökur en þau hafi hvergi mátt fara út úr bílunum. „Við stoppuðum á einum stað til að fylgjast með hlébarða sem var með unga uppi í tré. En um leið og hann stökk niður úr trénu og labbaði í áttina að okkur var ekið af stað aftur. En við til dæmis stoppuðum heillengi, nokkra metra frá ljónum, að taka myndir.“ Sólveig segir bílunum hafa verið ekið eftir ákveðnum slóðum en enginn hafi mátt skipta sér af dýrunum. „Við sáum til dæmis sært dýr en verðirnir sögðu að það mætti ekkert gera við því, ljónin yrðu komin eftir tvo, þrjá tíma.“

Í þjóðgarðinum gisti hópurinn í lúxustjöldum sem þau Brynhildur, Kjartan og Sólveig segja að hafi einnig verið mikil upplifun. Þar hafi ekki verið neinar girðingar og þau hafi heyrt í dýrunum á nóttunni. Enginn hafi farið út úr tjöldunum eftir að rökkva tók nema vörður fylgdi viðkomandi. Þá varð að gefa vörðunum merki með flautu, vasaljósi eða í gegnum talstöð.

Voruð þið ekkert hrædd?

„Nei, ég svaf alla vega svakalega vel allan tímann,“ segir Sólveig og hlær. „Í svona ferð er maður bara í ákveðnum gír, varkár og auðvitað stressaður en ekkert meira hræddur í þessum aðstæðum heldur en annars staðar. Maður var alveg jafn hræddur bara í umferðinni inni í borg.“

Síðasta daginn í Tansaníu fór hópurinn í aðra safaríferð, í þjóðgarðinum Ngorongo. „Þetta er í rauninni eldgígur sem maður keyrir ofan í og hann er sneisafullur af dýrum í mikilli nálægð,“ segir Sólveig. „Það er líka mikið af Masai-stríðsmönnum þarna og mörg Masai-þorp sem hægt er að heimsækja. Það var mjög áhugavert að koma þarna og sjá að fólk skuli lifa við þessar aðstæður. Þetta var mjög frumstætt. Eiginlega bara skelfilegt. Kofarnir eru svolítið mismunandi. Þarna eru huggulegir leirkofar en svo líka taðkofar. Þetta var auðvitað sérkennileg upplifun; að fólk búi við þessar aðstæður en svo sé bara sjónvarp ekkert langt frá og allir nettengdir.“

Hvað fannst ykkur standa upp úr í ferðinni?

 „Börnin,“ segir Brynhildur. „Þau voru svo glöð og yndisleg.“

„Þjóðgarðurinn,“ segir Sólveig og bætir við að hún hefði viljað hafa meiri tíma. „Ég hefði gjarnan viljað hafa eina viku í viðbót, við fórum yfir svo stórt svæði á stuttum tíma.“

Kjartan segir margt eftirminnilegt úr ferðinni. „Meðal annars það að liggja í tjaldinu í þjóðgarðinum og hlusta á dýrin úti í nóttinni, skammt frá manni. Svo var gaman þegar við settumst inn á bar, sem var nú bara bárujárnskofi, og horfðum á íslenska landsliðið keppa við það nígeríska á HM. Sjónvarpið var með sólarsellu sem þurfti að slökkva á í hléinu.“ Hann hlær að minningunni þegar Íslendingarnir þurftu frá að hverfa, heldur lúpulegir, á meðan Afríkumenn voru afar kátir.

Í Serengeti-þjóðgarðinum gisti hópurinn í lúxustjöldum.
Í Serengeti-þjóðgarðinum gisti hópurinn í lúxustjöldum. Mynd/Sólveig Jónasdóttir

Brynhildur, Kjartan og Sólveig segja að heimsóknin hafi haft mikil áhrif á íslensku krakkana sem hafi strax farið að velta upp hugmyndum hvernig þeir gætu lagt sitt af mörkum. „Dætur mínar voru dálítið aumar eftir heimsóknina fyrsta daginn í Little Bees. Það reynir á að geta bara hjálpað nokkrum börnum en ekki öllum,“ segir Brynhildur.

„Ég held að krakkarnir hafi uppgötvað þessi grimmilegu örlög sem fólk getur átt, hvort sem það eru krakkar á þeirra aldri eða fullorðið fólk. Fátækt er eitt, en það er bara engin undankomuleið þarna,“ segir Sólveig að lokum.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert