Brussel í boði Stellu

Stella Vestmann býr í Brussel og býður ferðalöngum upp á …
Stella Vestmann býr í Brussel og býður ferðalöngum upp á leiðsögn um borgina. Ljósmynd/aðsend

„Ég bý rétt hjá þeim stað þar sem Napoleon tapaði gegn hinum breska Wellington hertoga, sem steikin vinsæla dregur nafn sitt af,“ segir Stella Vestmann sem hefur búið undanfarið eitt og hálft ár í Belgíu. „Þetta er þó í þriðja sinn sem ég bý í Belgíu. Sem barn var ég í eitt ár í Brugge, en hún er ein fallegasta borg í heimi og enginn ætti að láta hana fram hjá sér fara. Nokkrum árum síðar var ég aftur komin til landsins en þá til Brussel og bjó þar í þrjú ár. Árin eftir að ég flutti heim til Íslands var ég með annan fótinn í borginni því fjölskyldan mín bjó þar áfram. Nú er ég komin hingað í þriðja sinn á ævinni og með mína eigin fjölskyldu. Ég virðist hreinlega ekki geta slitið mig frá landi súkkulaðis, bjórs og franskra kartaflna.“

Í Brussel er að finna ósköpin öll af dásamlega góðum …
Í Brussel er að finna ósköpin öll af dásamlega góðum mat. Ljósmynd/Aðsend

Stella segist oftast ferðast inn í miðbæinn á bíl, skilji hann eftir á góðum stað og notist við neðanjarðarlest eða rafmagnshlaupahjól sem séu úti um alla borg. „Hjólin er hægt að leigja með smáforriti í símanum. Ég mæli með að nýta sér þau, þetta er ódýrt, einfalt, ég er fljót á milli staða og maður sér mun meira af borginni en með neðanjarðarlestinni. Neðanjarðarlestin er annar heimur, sem er á sinn eigin hátt skemmtilega athyglisverður.“

Hver er eftirlætisveitingastaðurinn þinn?

„Fjölbreytni og gæði veitingastaða í Brussel kemur mér sífellt á óvart og það leynast dásamlegar perlur út um allt. Ég vil helst ekki fara oftar en einu sinni á sama stað til að geta prófað sem mest. Sá staður sem mér finnst bestur er Hummus X Hortense og er rétt hjá Flagey-torginu. Í fyrstu getur umhverfið í kringum veitingastaðinn virkað ögn skuggalegt en þetta er frábært svæði og engin ástæða til að sleppa því að fara inn. Þeir sérhæfa sig í grænmetisréttum og bjóða ekki upp á kjötrétti. Sjálf er ég ekki grænmetisæta og elska gott kjöt, en það fer svo sannarlega engin svikinn þaðan út. Þetta eru 4-6 rétta máltíðir og með hverjum rétti fær maður vín eða kokteil sem búið er að para við réttinn. Gæðin eru einfaldlega frábær.“

Borgin er afskaplega fögur og hefur margt fram að færa.
Borgin er afskaplega fögur og hefur margt fram að færa. Ljósmynd/Aðsend

Hvert er eftirlætissafnið í borginni?

„Nýja Waterloo-safnið er viriklega vel útfært og skemmtilegt að gera sér ferð þangað til að sjá þennan sögufræga stað. Fyrir krakka og fjölskyldur er ekkert sem toppar Technopolis-safnið sem virkjar krakka í leik og þekkingu á sviði raunvísinda (já og fullorðna sem hafa engan skilning á efninu eins og mig sjálfa). Önnur skemmtileg söfn eru Hljóðfærasafnið og Magritte-safnið, en súrrealistinn Magritte er einn af frægustu belgísku listmálurunum.“

Hvert er eftirlætiskaffihúsið?

„Eins og með veitingastaðina þá reyni ég að prófa ný kaffihús ef ég mögulega kem því við. Þó er eitt sem ég hef mikið dálæti á og sest alltaf þar inn áður en ég tek á móti hópum í gönguferðir. Kaffihúsið heitir Falstaff og er staðsett við hliðina á gömlu kauphöllinni. Innréttingarnar eru í art nouveau-stíl og skapa dásamlega notalega stemningu. Mér var einu sinni sagt að Halldór Laxness hefði verið tíður gestur á þessum stað þegar hann var í Brussel, en mér hefur þó ekki tekist að fá það staðfest.“

Mikið er af fallegum byggingum í borginni.
Mikið er af fallegum byggingum í borginni. Ljósmynd/Aðsend

Hvernig lítur draumadagur út í borginni?

„Ég myndi byrja á antikmarkaðnum á Jue de Balle í Marolles-hverfinu sem er einn sá vinsælasti í Evrópu og á sér dásamlega fallega sögu. Ég er einmitt að vinna núna nýja leiðsöguferð um það svæði. Eftir markaðinn er kominn tími á hádegisverð á Peck 47, fá mér egg benedikt og góðan safa með. Seinni parturinn færi í að skoða safn, viðburð eða eitthvað sem ég hef ekki skoðað áður. Það er sama hvað ég er dugleg það bætist bara á „langar að sjá og gera“-listann minn. Um kvöldið færi ég út að borða með góðum vinum til dæmis á eþíópíska staðinn Toukoul en þar er oft lifandi jazz um helgar. Ef við færum ekki þaðan á enn einn viðburðinn, ég þreytist einfaldlega ekki á því, þá færum við á Saint-Géry-torgið í góðan drykk og skemmtilegt spjall í notalegheitum.“

Hvað er ómissandi að sjá?

„Allir sem hingað koma þurfa að sjá þekktustu kennileitin eins og Grand Place, Menneken Pis, Galleries Royales o.fl., en í gönguferðunum með mér eru allri þessir staðir heimsóttir og fólk fær góða innsýn í land og þjóð á stuttum tíma. Ég bendi svo á ýmsa litla króka og kima fyrir fólk sem það getur kannað nánar eftir ferðina með mér. Borgin er jafnframt svo miklu meira en bara gamli kjarninn, saga og menning hvert sem farið er.“

Mikið er af áhugaverðum söfnum í borgunum sem enginn má …
Mikið er af áhugaverðum söfnum í borgunum sem enginn má láta fram hjá sér fara. Ljósmynd/Aðsend

Er eitthvað skemmtilegt að gerast í borginni á næstunni?

„Núna í mars er Art Nouveau- og Art Deco-hátíð en Brussel er oft sögð vera höfuðborg Art Nouveau. Margar byggingar frá þessum tímabilum eru oftast nær lokaðar almenningi en núna gefst fólki tækifæri á að skoða þær nánar, með eða án leiðsögumanns. Einnig eru tónlistarviðburðir í tengslum við hátíðina og tímabundnar sýningar. Í lok mánaðarins er Brussels Design Market þar sem er lögð áhersla á húsgögn frá árunum 1950-1980 og yfir 100 aðilar eru með sýningar- og sölubása. Þessi markaður er orðinn mjög vinsæll meðal safnara og fólks sem hrífst af hönnun. Þetta eru stærstu viðburðirnir í þessum mánuði, fyrir utan alla aðra tónleika, danssýningar og kjötkveðjuhátíðir um allt land.“

Þess má geta að Stella býður upp á leiðsöguferðir um borgina á íslensku, sænsku og ensku. Einnig má fylgjast með Stellu á Instagram-síðu hennar; stellarwalks.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert