Krít hefur verið vinsæll áfangastaður meðal Íslendinga í áratugi.
Krít hefur verið vinsæll áfangastaður meðal Íslendinga í áratugi. Ljósmynd/Thinkstock

Alls kyns annað en sól á Krít

Á hinni fallegu sólareyju Krít er hálfgerð synd að láta ferðina líða og liggja bara og sleikja sólina. Fallegt og fjölbreytt landslag, lítil sveitaþorp til að heimsækja og stórmerkilegar menningarminjar Krítverja eru víða. Júlía Margrét Alexandersdóttir julia@mbl.is

Krít hefur verið vinsæll áfangastaður meðal Íslendinga í áratugi. Ástæður þess eru margar; þar er ekki aðeins ódýr matur og drykkur og nóg af sól, eins og sumir halda að sé það eina sem Íslendingar vilja, heldur býður eyjan upp á ýmislegt sem aðrir staðir bjóða ekki.

Eitt af því merkilegasta þykir hve vinsamlegir eyjarskeggjar eru, greiðviknir og hlýir. Þeir bera þess engin þreytumerki að Krít hefur verið vinsæll og vel sóttur ferðamannastaður í áratugi. Þess í stað er eins og þeir séu alltaf að taka á móti fyrsta ferðamanninum og það er góð tilfinning.

Landslagið er þá einstakt og strendurnar og svo er eitthvað alveg sérstakt við að vera á svo sögulegum slóðum, þar sem hægt er að fara stutt til að skoða nokkur þúsund ára minjar. Margir nýta sér þá að fara í siglingar og skoða fleiri grískar eyjar í leiðinni, sem eru óteljandi og jafnólíkar og þær eru margar.

Það er vissulega indælt að liggja á ströndinni eða sundlaugarbakkanum en það er líka hægt að skreyta þá sólarlegu með ýmsu skemmtilegu eins og hér má lesa um.

Falleg gönguleið á Balos svæðinu.
Falleg gönguleið á Balos svæðinu. Ljósmynd/Thinkstock

Í göngutúr að Balos

Á Krít er yndislegt að ganga um í náttúrunni og hægt að fara í fjallgöngur, bara passa að velja ekki heitasta tíma dagsins til þess. Ein skemmtilegasta gönguleiðin er í kringum Balos-lónið, og þá fyrst og fremst útsýnisins vegna, best er að leggja af stað árla morguns. Þeir sem vilja ekki fara fótgangandi til Balos geta farið með litlum bát frá Kastelli. Ströndin við Balos er líka einstök og mörgum þykir hvergi fallegri en á þessum stað.

Seitan Limania ströndin er fjarri túristaströndum.
Seitan Limania ströndin er fjarri túristaströndum. Ljósmynd/Thinkstock

Seitan Limania

Tiltölulega nálægt borginni Chania og Chania-flugvellinum er að finna litlu perlu, Seitan Limania ströndina en eyjarskeggjar passa vel að halda henni hreinni og fínni og reyna að vernda gegn massatúrisma.

Best er að mæta snemma morguns, á virkum degi, til að eiga ströndina svolítið út af fyrir sig. Sjórinn er kristaltær og stöndin gyllt og þar er alger stilla á ströndinni þar sem hún er staðsett milli hárra kletta.

Mínósku menningarinnar frá árunum 2700-1420 fyrir Krist.
Mínósku menningarinnar frá árunum 2700-1420 fyrir Krist. Ljósmynd/Thinkstock

Einstakar fornar mínóskar minjar

Á Krít fyrirfinnast minjar um eina elstu siðmenningu í Evrópu; mínósku menningarinnar frá árunum 2700-1420 fyrir Krist.

Það er einstakt að geta farið og skoðað leifar Knossos-hallanna og gömlu borgarinnar í kring sem er frá þessum tíma en Knossos er að finna suður af höfuðborg Krítar, Heraklíón. Stundum er talað um svæðið sem elstu borg Evrópu. Stærsta höllin er á tveimur hæðum, með 1.500 herbergjum og má sjá óviðjafnanlegar freskur og muni. Það sem slær allt út er hásætissalurinn. Talið er að árið 1700 fyrir Krist hafi um 100.000 manns búið á svæðinu.

Þeir sem hafa enn orku eftir þá heimsókn gætu keyrt til höfuðborgarinnar, sem er einkar skemmtileg, og satt þar söguþorstann enn meir með því að skoða ótrúlega muni á fornminjasafni borgarinnar.

Vinsælt er að sigla til Santorini en hún er 100 ...
Vinsælt er að sigla til Santorini en hún er 100 kílómetra norðan við Krít. Ljósmynd/Thinkstock

Sigldu annað

Auðvelt er að komast í dagssiglingar frá eyjunni og um að gera að nýta sér að vera staddur á eyju og geta hoppað í bát og skoðað fleiri grískar eyjar.

Vinsælt er að sigla til Santorini en hún er 100 kílómetra norðan við Krít.

Santorini er eldfjallaeyja, leifar af eldfjalli sem sprakk, og einstök í mikilfengleika sínum. Einn fallegasti staðurinn á eyjunni er bærinn Oía, staðurinn sem margir þekkja af myndum og úr bíómyndum; með hvítu húsunum sem byggð eru inn í klettana, bláu þökunum, kirkjunum og stórkostlegu útsýni.

Annars eru mörg þorp á Santorini til að skoða og hvert með sinn sérstaka stíl. Höfuðstaðurinn, Fira, og borgin Mykonos eru líflegar, með verslunum og börum, og í Fira er hægt að fara með kláfi til að njóta útsýnisins.

Gangn um Samria-gljúfrið getur verið nokkuð krefjandi á köflum.
Gangn um Samria-gljúfrið getur verið nokkuð krefjandi á köflum. Ljósmynd/Thinkstock

Samaria-gljúfrið

Samaria-gljúfrið er í raun þjóðgarður og býður upp á náttúru sem er mjög ólík þeirri sem sést á hinum grískum eyjunum. Frá Chania er rúmlega klukkutímakeyrsla að þjóðgarðinum en gljúfrið klýfur Hvítufjöllin, annan hæsta fjallgarð á Krít.

Gangan getur verið nokkuð erfið á köflum, í bröttum hlutum og stundum er slóðinn mjög grýttur, en hvíldarstaðir dúkka með reglulegu millibili upp þar sem boðið er upp á vatn. Fyrir þá fótfráu er útsýnið og náttúran þess virði, með 2000 ára gömlum trjám víða, lindum, fossum, sjaldgæfum plöntum. Það tekur um sex til átta klukkustundir að fara í gegnum gljúfrið og á endastöð tekur við hafið og falleg strönd þar sem gott er að kæla sig. Í þessa ferð þarf að vera vel skóaður, með plástra og muna að gljúfrið er sannarlega ekki hættulaust og athyglin þarf að vera hundrað prósent í göngunni.

Loutro er lítið fiskiþorp sem hefur nánast staðið í stað ...
Loutro er lítið fiskiþorp sem hefur nánast staðið í stað svo þarna fá ferðalangar í æð „gömlu, gömlu“ Krít. Ljósmynd/Thinkstock

Falinn demantur

Það er hagstætt að leigja bíla á Krít og þægilegt og gaman að keyra og heimsækja lítil þorp. Eitt af þeim fallegri er þó ekki hægt að komast nærri nema með bát, sumir reyndar fara í göngu yfir fjöllin, en þetta er þorpið Loutro.

Loutro er lítið fiskiþorp sem hefur nánast staðið í stað svo þarna fá ferðalangar í æð „gömlu, gömlu“ Krít þar sem þorpið virðist ekki hafa tekið breytingum í aldir og þess má ekki vænta að þjónusta við ferðamenn sé mikil. Þegar þangað er komið er um að gera að slaka á, njóta þess að virða fyrir sér útsýnið og mannlífið.

Ólífutréið er að minnsta kosti 2000 ára gamalt.
Ólífutréið er að minnsta kosti 2000 ára gamalt. Ljósmynd/Thinkstock

Elsta ólífutré heims

Í þorpinu Ano Vovues, ekki svo fjarri Chania, er að finna ólífutré sem talið er það elsta í heiminum. Ómögulegt er að vita nákvæman aldur þess. Í það minnsta er það 2000 ára gamalt en vísindamenn á Krít halda því fram að það sé 4.000 ára gamalt þar sem fornir kirkjugarðar eru nærri trénu og eru þeir það gamlir.

Enn þann dag í dag vaxa ólífur á trénu.

Í litlu þorpi ólífutrésins er líka safn um ólífurækt Krítverja og svo er einkar fallegt að keyra um sveitirnar í kring svo það má gera ýmislegt fleira í ferðinni en skoða þetta merka tré.