Logi á einum helgasta stað kylfinga, St. Andrews.
Logi á einum helgasta stað kylfinga, St. Andrews. Ljósmynd/Aðsend

Hvað er svona merkilegt við golfferðir?

Logi Bergmann Eiðsson hlýtur að teljast einhvers konar sérfræðingur í golfferðum. Nógu margar hefur hann farið.

Hann er einmitt á leið í eina í byrjun apríl, þá sem fararstjóri hjá Úrvali-Útsýn til Hacienda Del Alamo, sem er nýr áfangastaður en margir Íslendingar þekkja vel. Frábær golfvöllur og glæsilegt hótel enda þetta svæði, í kringum Alicante, þekkt fyrir góða velli.

En hvað er það sem gerir golfferðir svona merkilegar? 

„Það er í fyrsta lagi stemmningin. Við sem spilum golf gerum það alltaf með öðru. Við erum að stressa okkur á að klára hringinn svo við náum að kaupa í matinn eða sækja börn eða vera einhvers staðar. Í svona ferð ertu bara í golfi. Ég held að það sé ekki hægt að fá meiri slökun,“ segir Logi. „Svo er það félagsskapurinn. Það er gaman í golfi og það er líka góð leið til að kynnast fólki. Það segir sig sjálft að ef þú ert með einhverjum í fjóra tíma þá ertu aðeins farinn að þekkja hann þegar þið ljúkið leik.“

„Það er líka svo notalegt fyrir kylfinga, og reyndar bara alla, að komast aðeins til útlanda og í almennilegt veður eftir þetta hræðilega sumar sem við fengum. Það voru margir sem spiluðu nánast ekki neitt í fyrra og vorið er einmitt tækifæri til að koma sér strax í gang. Það eru alltaf einhverjir sem líta á þetta sem æfingaferðir, eru bara allan daginn á æfingasvæðinu. Ég verð að viðurkenna að ég er ekki í þeim hópi.“

Tími til að vinna í brúnkunni

Logi hefur spilað golf í fimm heimsálfum og er búinn að vera lengi að. Hann hefur líka oft verið fararstjóri, einkum í golf- og fótboltaferðum. En hvort ætli honum finnist skemmtilegra? „Það er klárlega golfið. Það er eitthvað svo notalegt við þær. Andrúmsloftið er svo afslappað. Ekki bara á golfvellinum, heldur líka að sitja á barnum á eftir og monta sig af öllu því sem heppnaðist á hringnum og kannski skella sér svo aðeins í laugina til að vinna á bolabrúnkunni.“

Logi í smá veseni.
Logi í smá veseni. Ljósmynd/Aðsend

En hvert er þá hlutverk fararstjóra í svona ferð?

„Það er bara að sjá til þess að allt gangi vel fyrir sig, sjá um rástíma, setja upp mót og halda utan um skor. Og bara reyna að passa að allir fái að njóta sín. Svo er ýmislegt annað sem fylgir. Fyrir nokkrum árum skipulagði ég til dæmis ferð í verslunarmiðstöð með konunum sem voru að spila en kallarnir urðu allir eftir. Þeir voru rosa ánægðir með mig þá.“