Gott skipulag í ferðatöskunni getur létt lífið.
Gott skipulag í ferðatöskunni getur létt lífið. Mynd/pxhere.com

Fimm ráð fyrir ferðatöskuna

Eins og það er gaman að ferðast á nýjar slóðir þá er það frekar leiðinlegt að pakka fyrir ferðalagið.

Með því að vera nokkuð skipulagður og hafa góða yfirsýn er þetta þó yfirstíganlegt. Ferðavefurinn hefur tekið saman nokkur góð ráð sem ættu að létta þér lífið.

Búðu til lista

Þú gerir þér líklega í hugarlund hvað þú ætlar að taka með þér en það er öruggara að skrifa lista yfir það sem þú ætlar að taka með. Með því færðu betri yfirsýn og getur þá tekið ákvörðun um hvort allt á listanum sé nauðsynlegt. Það er hundleiðinlegt að þurfa að ganga frá dóti sem þú ætlar ekki að taka með hvort sem er.

Töskur eða pokar sem koma betra skipulagi á farangurinn.
Töskur eða pokar sem koma betra skipulagi á farangurinn. Mynd/Pixabay

Komdu skipulagi á dótið

Það er upplagt að skipta fatnaði og því dóti sem þú ferðast með upp og setja annaðhvort í poka eða endurnýtanlegar töskur. Til dæmis er gott að hafa nærföt í einni tösku, sokka í annarri og svo snyrtivörur í enn einni. Og já, ekki gleyma að koma skipulagi á allar snúrur og hleðslutæki.

Ilmandi farangur

Stundum getur komið ólykt upp úr töskunni, þá sérstaklega eftir langt ferðalag. Notaðu annaðhvort ilmkort með léttum ilmi eða svokölluð ,,Dryer Sheets”. Alls ekki nota neinn ilm í fljótandi formi, þú gætir endað eins og lifandi pot pourri.

Maður veit aldrei hvenær maður þarf á plástri eða verkjatöflum ...
Maður veit aldrei hvenær maður þarf á plástri eða verkjatöflum að halda. Mynd/Pixabay

Notist í neyð

Það getur verið ágætisávani að taka alltaf með sér litla sjúkratösku í handfarangur með öllu því helsta eins og til dæmis plástur, verkjatöflur og hælsæraplástur.

Rúllaðu upp

Flestir raða flíkum ofan á hver aðra í ferðatöskuna líkt og um skáp væri að ræða. Það er þó víst betra að rúlla þeim upp áður því það bæði fer betur með flíkurnar og nýtir plássið betur.