Forðastu þennan mat fyrir flug

Loftþrýsingur í flugi hefur áhrif á meltingarveginn.
Loftþrýsingur í flugi hefur áhrif á meltingarveginn. Ljósmynd/Pexel

Líkaminn virðist bregðast öðruvísi við ýmiss konar mat í 40 þúsund fetum heldur en á jörðu niðri og er það loftþrýstingi að mestu um að kenna en afleiðingar af því fyrir líkamann eru að farþegar geta orðið töluvert loftmeiri en ella. Ákveðin tegund matar getur aukið á þessi áhrif og því best að forðast hann að mestu fyrir flug.

Grænmeti og ávextir

Eins hollur og þessi matarflokkur er þá getur hann verið ansi trefjaríkur og þá sérstaklega það grænmeti og ávextir sem innihalda leysanleg trefjaefni en það meltist ekki í þörmum en brotnar niður í ristli með tilheyrandi loftmyndun. Það getur því verið ágætt að sleppa því að fá sér baunarétt og berjamauk rétt fyrir flug.

Kryddaður matur

Ef þú finnur fyrir viðkvæmni í maga þegar þú borðar mjög kryddaðan mat skaltu fyrir alla muni sleppa því að borða hann fyrir flug. Það er fátt verra en að vera illt í maganum í flugi og geta lítið sem ekkert gert í því.

Skyndibitamatur

Eins freistandi og það er að grípa sér hamborgaratilboð fyrir flugið þá er betra að sleppa því þar sem bæði steikingarolía og fitan í matnum getur valdið brjóstsviða. Skyndibitamatur er einnig oft ansi saltur en saltið bindur vatn í líkamanum og getur valdið bjúg.

En hvað áttu þá að borða?

Þeir sem hafa mestu reynsluna af því að fljúga mæla helst með trefjalitlum ávöxtum, fitulitlu kjöti, ósöltuðum hnetum og drekka hreint vatn eða jurtate með því.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert