Einungis 550 keppendur komast að

Sigurvegarar síðustu ára saman komnir, frá vinstri Helgi Berg, Hafsteinn …
Sigurvegarar síðustu ára saman komnir, frá vinstri Helgi Berg, Hafsteinn Ægir, Ingvar, Elvar Örn, Birkir Snær og María Ögn. Ljósmynd/Aðsend

Askja kom fyrst að mótinu árið 2014 undir merkjum Kia og hefur síðan verið aðalkostandi mótsins. „Við höfum verið virkilega ánægð með samstarfið undanfarin 5 ár. Keppnin hefur vaxið og dafnað. Þetta er einn liður í því að koma Kia á framfæri og eiga góðan dag með íslensku hjólreiðafólki og fjölskyldum þeirra. Þetta verkefni hefur gengið vel. Við leggjum enn meira í keppnina á komandi árum og þá sérstaklega til þess að tryggja öryggi keppenda, og um leið gera umgjörðina enn skemmtilegri,“ segir Jón Trausti Ólafsson framkvæmdastjóri Öskju.

Jón Trausti Ólafsson, forstjóri Öskju, KIA á Íslandi, og Einar …
Jón Trausti Ólafsson, forstjóri Öskju, KIA á Íslandi, og Einar Bárðarson, eigandi KIA-gullhringsins handsala áframhaldandi þriggja ára samning um KIA-gullhringinn. Ljósmynd/Aðsend

Skráning hefst formlega í Kia-gullhringinn laugardaginn 30. mars í nýjum húsakynnum Kia á Íslandi klukkan 13:00 en keppnin er nú haldin í áttunda sinn, en hún hefur verið haldin á Laugarvatni frá því 1. september 2012. Keppnin hefur verið ein sú vinsælasta og fjölmennasta í hjólreiðunum og hefur það verið sérstakt aðdráttarafl hennar að hún býður upp á vegalengdir við allra hæfi og þar keppa byrjendur jafnt sem lengra komnir og allir skemmta sér konunglega saman. Takmarkanir hafa verið settar á mótið í ár og verða ekki fleira en 500 keppendur skráðir til leiks. Keppnin fer svo fram 31. ágúst og ræst verður frá Laugarvatni að vanda.

Einar Bárðarson, framkvæmdastjóri Meðbyrs, eiganda keppninar, segir að það sé mjög ánægjulegt að keppnin skuli áfram vera kennd við Kia en bílaframleiðandinn höfðar til hjólreiðafólks meðal annars vegna þess hve rúmgóðir bílarnir eru. „Kia hefur staðið vel að baki gullhringnum undanfarin ár og það er jákvætt að á komandi árum verður enn meira lagt í umgjörð keppninnar. Þetta á að vera skemmtileg keppni þar sem vinir og fjölskyldur koma saman á Laugarvatni í fallegu umhverfi og náttúrunni.“

Nánari upplýsingar um mótið, dagskrá, reglur, öryggi keppenda og almennar upplýsingar má finna á vefsíðu keppninnar, Kia Gullhringurinn.

mbl.is