Menn og dýr í samhljómi við náttúruna

Sigrún Sól með leiðsögumanninum Malley.
Sigrún Sól með leiðsögumanninum Malley. Ljósmynd/Aðsend

Virka daga vinnur Sigrún Sól að leikaravali fyrir kvikmyndir og auglýsingar, heldur námskeið fyrir leikara og áhugafólk um leiklist sem miðar að því að leikararnir fái aukið öryggi í kvikmyndaleik. Þess á milli skundar hún upp um fjöll og firnindi hvort sem er á eigin vegum eða með hóp af ferðamönnum í eftirdragi. „Ég vinn að hluta sem leiðsögumaður hér á Íslandi og Grænlandi  og vinn mestmegnis fyrir bandarísk fyrirtæki. Þeir bjóða leiðsögumönnum, sem gengur vel og kúnninn er ánægður með, sérstök vildarkjör á ferðum hjá sér. Viðkomandi fyrirtæki, Odysseys Unlimited, er með æðislegar ferðir í öllum heimsálfum og ég gat í rauninni valið hvert ég vildi fara,“ segir Sigrún Sól. Hún hafði heyrt margt spennandi um Tanzaníu og hafði alltaf haft löngun til að heimsækja Afríku og sló því til. „Mér fannst bara fín hugmynd að byrja á þessu fallega landi í Austur-Afríku. Svo langar mig auðvitað að kynnast fleiri löndum í heimsálfunni. Ég er strax byrjuð að plana fleiri ferðir til Tanzaníu því ég komst í kynni við aðila sem skipuleggja frábærar minni safaríferðir sem henta íslendingum vel.“

Náttúrufegurðin í Tanzaníu er engri lík.
Náttúrufegurðin í Tanzaníu er engri lík. Ljósmynd/Aðsend

Tsetse flugur til vandræða

Áður en haldið er í svona ævintýraferðir segir Sigrún Sól mikilvægt að huga að bólusetningum og lesa sér vel til um smitleiðir sjúkdóma því maður þurfi að vera við öllu búinn í þeim efnum. „Maður þarf að taka malaríulyf í ferðinni og vera með forða af lyfjum með sér ef maður veikist. Það er líka mikilvægt að pakka rétt og vera með föt sem henta veðri, en það er bæði rakt og heitt.“ Moskítóflugur eru helstu smitberarnir á þessu svæði en einnig svokallaðar tsetseflugur sem eru víst ansi skæðar og geta borið með sér sjúkdóma á milli manna. „Það er líka mikilvægt að vera með föt með sér sem draga ekki að sér flugurnar. Ég var til dæmis með svört og dökkblá föt með mér, sem var algerlega ekki málið , ég þurfti að fá lánuð ljós föt og kaupa mér á leiðinni, því tsetse flugurnar sækja sérstaklega í svartan og bláan lit.“

Sigrún Sól segir það hafa verið mikla upplifun að sjá …
Sigrún Sól segir það hafa verið mikla upplifun að sjá villt dýr í sínu náttúrulega umhverfi. Ljósmynd/Aðsend

Kafað við strendur Zanzibar

Ferðin hófst í borginni Arusha þar sem Sigrún Sól og ferðafélagi hennar hittu bandaríska hópinn sem þau ferðuðust með. „Eftir að hafa eytt nokkrum dögum þar við að skoða mannlífið og hina stórkostlegu litríku matarmarkaði borgarinnar ferðuðumst við með hópnum á nokkrum sérútbúnum jeppum yfir Tanzaníu. Þar skoðuðum við dýr og náttúru og  fórum í nokkra þjóðgarða; Arusha, Tarangire, Serengeti og svo hinn víðfræga Ngorogoro gíg þar sem við dvöldum á hóteli á barmi gígsins. Ngogoro svæðið er í raun ekki þjóðgarður heldur náttúruverndarsvæði. Við heimsóttum líka ættbálka eins og Maasai fólkið býr sem í kofum og lifir sjálfbæru lífi í mikilli harmoníu við náttúruna. Frá Ngogoro flugum við með litlum rellum til eyjunnar Zanzibar þar sem við eyddum nokkrum aukadögum. Það er stórkostleg eyja með yndislegum ströndum og mikilli kryddrækt sem við fengum fræðslu um. Á eyjunni lærði ég einnig köfun og skoðaði kóralrif sem eru enn lifandi.“

Sigrún Sól lærði að kafa við strendur Zanzibar.
Sigrún Sól lærði að kafa við strendur Zanzibar. Ljósmynd/Aðsend

Við rætur hæstu fjalla Afríku

Aðspurð að því hvað var það merkilegasta sem fyrir augu bar segir Sigrún Sól erfitt að velja úr en það hafi verið mikil upplifun að sjá öll þessi villtu dýr í miklu návígi. „Þarna voru þau algerlega frjáls í sínu náttúrulega umhverfi og við vorum gestir þeirra. Við ferðuðumst um  í opnum bílum og það var magnað að sjá hvað þau voru afslöppuð með að hafa manndýrin svona nálægt sér og virtist standa á nokk sama. Á einum staðnum sem við gistum á - voru til dæmis allt í einu hlébarðar að labba í mestu rólegheitum á milli kofanna eitt kvöldið og manni stóð ekki alveg á sama.Við máttum til dæmis aldrei labba ein á milli húsanna á kvöldin, maður þurfti að hafa vörð með sér hvert sem maður fór.“  Sigrún Sól segir náttúrufegurðina líka hafa verið magnaða og ekki síður fjöllin en hæsta fjall Afríku, Kilimanjaro, er í Tanzaníu sem og Meru sem er það næsthæsta. „Náttúrufegurðin í Ngorogoro var svo gersamlega mögnuð, að vera þarna á eldfjallasvæði, á flekamótum, og sjá landslag sem minnti á Ísland, en skreytt með sebrahestum og gíröffum. Mér fannst í rauninni það merkilegasta að sjá hversu fólkið og dýrin í Tanzaníu eru í samhljómi við náttúruna og þrátt fyrir talsverða fátækt þá virðist manni fólkið einhvernvegin í betra sambandi við sjálft sig og umhverfið en margir hér í velmeguninni.“

Í heimsókn hjá Maasai ættbálknum.
Í heimsókn hjá Maasai ættbálknum. Ljósmynd/Aðsend

Ekkert rafmagn né rennandi vatn

Sem fyrr segir kynntist Sigrún Sól því hvernig Maasai ættbálkurinn lifir en hann er sá flokkur fólk sem heldur sem fastast í gamlar hefðir. „Þau búa  í strákofum og klæða veggina með fílaskít. Þau lifa samkvæmt ströngum ættbálkareglum þar sem allir deila því sem landið gefur, en eru um leið inn í miðju hringiðu ferðamanna og nútímalífs. Þessar andstæður var mikil upplifun að sjá. Til dæmis eru þau ekki með rafmagn og rennandi vatn en eiga mörg samt farsíma sem þau hlaða með sólarbatteríum. Einnig var upplifun að vera í múslímalandi en 97% íbúa Tanzaníu eru múslímar. Þau eru til dæmis með sunnudaga sem frídaga og það er unnið á föstudögum, konurnar eru flestar ekki í heilbúrkum, og slæðurnar eru í allavega stíl. Það var líka magnað að skoða borgina á Zanzibar, þar sem stærsti þrælamarkaður Afríku var fyrr á tímum. Við fórum á safn og sýningu á gamla þrælasölumarkaðstorginu og lærðum um þessa hrikalegu sögu þrælaverslunarinnar.“

Sjálfa með ljóni.
Sjálfa með ljóni. Ljósmynd/Aðsend

Lærði að staldra við og njóta

Sigrún Sól staldrar ekki lengi við á Íslandi þar sem hún er á leiðinni til Berlínar með syni sína en það halda þau páskana að þessu sinni. „Ég nota tímann til að vinna aðeins, því ég er í samstarfi við þýska aðila í hinni vinnunni minni sem fjallar um Casting eða leikaraval.“ Í sumar er svo stefnan tekin á okkar næsta nágrannaland Grænland þar sem Sigrún Sól mun leiða bandaríska ferðamenn um þetta ævintýralega land. „Við munum ferðast frá norðvestri að suðausturhluta eyjunnar og upplifa alls konar, meðal annars sigla, veiða, ganga og fara á hestbak. Ég fer svo kannski aftur til Tanzaníu með íslendinga næsta vetur og tökum þá Kenya með en það er enn í vinnslu,“segir Sigrún Sól sem greinilega hefur skilið eftir hluta af sínu hjarta í Tanzaníu.  „Mér leið að vissu leyti eins og ég væri að upplifa kjarna lífsins og fann einhvernvegin fyrir auðmýkt gagnvart náttúrunni. Einnig hvað fólkið var elskulegt og í samhljómi minnir mann á að staldra við og njóta betur alls sem við höfum, gefa okkur tíma til að bara vera í augnablikinu og þakka fyrir lífið.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert