Fróðleg fjöruferð með börnunum

Margt skemmtilegt leynist í fjörunni sem gaman er að leika …
Margt skemmtilegt leynist í fjörunni sem gaman er að leika sér að. Ljósmynd/Aðsend
Það er einmitt við þannig aðstæður sem Ferðafélag barnanna og Háskóli Íslands ætla saman í fjöruferð í Gróttu á stórstraumsfjöru laugardaginn 6. apríl. Mæting er eigi síðar en kl. 12:00 við bílastæðið við Gróttu. „Við erum svo heppin að fara í þessa ferð á stórstraumsfjöru og þá er enn meiri fjölbreytni í Gróttu,“ segir Hildur Magnúsdóttir, doktorsnemi í líffræði við Háskóla Íslands. Hún mun leiða gönguna sem er í röðinni Með fróðleik í fararnesti sem helgast af afar vel heppnuðu samstarfi Háskólans og Ferðafélags Íslands.

Fjölbreytt lífríki fjörunnar

Hildur og samstarfólk hennar mun segja göngufólki frá lífverum sjávarins og fjörunnar og í vændum er því frábær skemmtun fyrir alla fjölskylduna.
„Við eigum von á að sjá gnótt af fjörusniglategundum eins og klettadoppu, þangdoppu og nákuðungi en einnig beitukóng sem yfirleitt lifir að mestu leyti neðan fjöru,“ segir Hildur. „Í fyrra sáum við mjög mikið af ungum kuðungakröbbum sem nýta sér kuðunga lítilla snigla sem bústað. Og ekki má gleyma að líta milli steina og undir klapparþangið og klóþangið, þar sem leynast marflær, litlir krabbar og jafnvel sprettfiskar, en einnig fallegir gulir svampar.“
Það er þannig augljóslega margs að vænta í ferðinni. Hildur segir að eitt af aðaleinkennum fjörunnar sé hið öfgakennda umhverfi sem myndast vegna samspils flóðs og fjöru. Það móti fjölbreytilegt dýra- og plöntulíf. „Lífverurnar sem finnast í fjörunni þurfa að geta lifað af bæði mikinn þurrk á fjöru og að vera á kafi þegar flóð er. Annað aðaleinkenni fjörunnar er beltaskipting en það má yfirleitt finna mismunandi tegundir lífvera eftir því hversu ofarlega maður er í fjörunni, þ.e. eftir því hversu mikinn þurrk tegundin getur þolað.“
Fjölskylduferð niður í fjöru er alltaf jafnskemmtileg.
Fjölskylduferð niður í fjöru er alltaf jafnskemmtileg. Ljósmynd/Aðsend

Hvert fer vatnið?

Ef við víkjum aftur að spurningunni, um hvert vatnið fari þegar flæðir út, þá segir Vísindavefurinn að það fari í raun ekki langt.
„Auðvitað er vatnið í sjónum varðveitt,“ segir Vísindavefurinn, „og getur ekki eyðst eða orðið að engu við venjulegar aðstæður. Sjávarbotninn er heill og breytist ekki heldur þannig að það getur ekki lækkað í sjónum af þeim sökum eins og þegar við tökum tappa úr vaski. Tunglið er helsta orsök sjávarfalla á jörðinni en sólin kemur þó einnig við sögu. Þegar fjara er hafa sól og tungl sem sé togað hluta vatnsins þangað sem flóð er á sama tíma, og fjara og flóð breyta síðan um stað vegna snúnings jarðar.“
 

Magnað að rölta í fjörunni

Flestir njóta þess að rölta í fjörunni og margir verða alveg heillaðir af fegurðinni og þessum sífelldu átökum lands og sjávar, fuglalífið er magnað og lífríkið óvenjufjölbreytt sem valdi því að fólk sé almennt spennt fyrir fjöruferðum. Hildur segir auðvitað magnað að sjá hversu vel aðlagaðar mismunandi tegundir eru að lífsskilyrðunum í fjörunni.
„Hreyfanleg dýr eins og sniglar, t.d. draga sig inn í kuðung sinn og fela sig í sprungum á fjöru til að viðhalda rakanum, á meðan krossfiskar og slöngustjörnur nota sogskálar sínar til að koma í veg fyrir að sogast út með öldunum á flóði. Kyrrstæð dýr eins og skelfiskar og hrúðurkarlar loka sig inni í skel sinni á fjöru en á flóði teygja þau sig út og sía eða fanga fæðu úr vatnsbolnum. Og ýmsar þangtegundir t.d. hafa blöðrur yst á blöðum sínum sem gera þeim kleift að komast nær sólarljósinu á flóði, til að viðhalda ljóstillífuninni.
Hildur og samstarfólk hennar munu segja göngufólki frá lífverum sjávarins …
Hildur og samstarfólk hennar munu segja göngufólki frá lífverum sjávarins og fjörunnar og í vændum er því frábær skemmtun fyrir alla fjölskylduna. Ljósmynd/Aðsend

Mikilvægur hluti af vistkerfi hafsins

Hildur segir að fjaran sé mikilvægur hluti af vistkerfi hafsins sem búsvæði fyrir ungviði ýmissa dýrategunda og vegna mikillar framleiðni. „Hún er líka mikilvæg fyrir útivist og náttúruskoðun þannig að hana ber að vernda eftir bestu getu. Vegaframkvæmdir, skólp og olíumengun frá landi geta haft neikvæð áhrif á lífríkið í fjörunni og svo sérstaklega olíulekar vegna skipsstranda þar sem mikið af olíu fer oft í sjóinn. Á Íslandi þarf að huga að því að vernda fjöruna fyrir öllu þessu en líka frá plasti og öðru rusli sem safnast í fjöruna, fýkur þaðan af landi eða berst með hafstraumum. Svo eru ótalin áhrif hlýnunar jarðar sem getur valdið því að tegundasamsetning í fjörunum við Ísland breytist og svo einnig áhrif súrnunar sjávar sem getur haft slæm áhrif á kalkmyndandi lífverur líkt og lindýr og kalkþörunga.“
Hildur hvetur alla til að búa sig vel og til að vera í góðum vaðstígvélum. Ekki saki að hafa með sér fötu og auðvitað eru allir hvattir til að tína upp rusl í Gróttu.
Hér má nálgast fróðleik um sögu Gróttu sem er sannkölluð náttúruperla í návígi við borgina.
 
Ath. vegna sjávarfalla hefjist ferðin kl. 12 en ekki klukkan 11 eins og áður hafi verið auglýst. 
 
Með fróðleik í fararnesti, laugardaginn 6. apríl - gönguferð fyrir alla – mæting eigi síðar en kl. 12:00 við Gróttu.
Þátttaka er ókeypis og öll velkomin. Ekkert að panta, bara að mæta!
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert