Brýnt að laga reiðhjólið að líkamshlutföllum notandans

Stefán Haukur fer í dag leikandi létt með að hjóla …
Stefán Haukur fer í dag leikandi létt með að hjóla til vinnu sinnar í Reykjavík alla leið frá Mosfellsdal. Mbl./Hari

Þegar Stefán Haukur Erlingsson hóf störf hjá reiðhjólaversluninni Erninum ákvað hann að nota tækifærið og hjóla meira. Fljótlega var Stefán byrjaður að fara allra sinna ferða á hjólhestinum, og núna lætur hann sig ekki muna um að hjóla daglega til og frá vinnu í Faxafeninu alla leið úr Mosfellsdal, 18 km aðra leið. „Eftir að ég byrjaði að hjóla daglega jókst áhuginn bara: fljótlega var ég farinn að keppa og komst á endanum í meistaraflokk,“ útskýrir Stefán, sem í dag er verkstæðisformaður.

Líflegt er í búðinni hjá Stefáni og segir hann að það sé liðin tíð að það sé ekki nema rétt yfir köldustu vetrarmánuðina að salan sé róleg. „Vissulega glæðist reiðhjólamarkaðurinn ef sumarið er bjart og þurrt en hjólreiðafólk er á ferðinni allt árið og nóg að gera bæði í versluninni og á verkstæðinu.“

Í krefjandi hjólaferðum munar miklu ef hjólið er ekki rétt …
Í krefjandi hjólaferðum munar miklu ef hjólið er ekki rétt stillt. Ljósmynd/Ómar

Fer löngu leiðina heim

Stefán var í ágætu formi þegar hann byrjaði að hjóla, en varð fljótlega var við að hitaeiningabrennslan af daglegum hjólatúrum hafði jákvæð áhrif á hreysti og vaxtarlag. Eftir því sem þrekið jókst opnuðust nýir möguleikar til æfinga og útivistar og þykir Stefáni fátt skemmtilegra en að fara löngu leiðina heim, eða hjóla upp að Þingvöllum og komast í návígi við fallega náttúruna. „En hjólreiðafólk sækir líka mikið í Hvalfjörðinn enda umferðin tekin að þyngjast víða í kringum Höfuðborgarsvæðið en vegurinn um Hvalfjörð lítið notaður og líka hæfilega krefjandi og fjölbreyttur. Þá er alltaf gaman að fara í Heiðmörk eða upp að Bláfjöllum á fjallahjóli.“

Eflaust þætti mörgum lesendum gaman að hjóla meira, bæði til að njóta útivistarinnar, missa nokkur kíló og jafnvel leggja bílnum. Bendir Stefán á að margir gætu jafnvel verið fljótari til og frá vinnu á reiðhjóli en á bíl, enda geti umferðin í borginni orðin mjög þung á álagstímum.

Þeir sem vilja byrja í hjólasportinu ættu, að sögn Stefáns, fyrst af öllu að velja sér reiðhjól við hæfi. Skipta má reiðhjólum í nokkra flokka þar sem sumar gerðir henta betur til hjólreiða á malarvegum og torfærum, en aðrar gerðir eru hannaðar til að þjóta á rennisléttu malbiki. Síðan eru hjól sem staðsetja má þar mitt á milli og nota bæði á gangstéttum innanbæjar sem og á vegaslóðum. „Er ætlunin að nota hjólið fyrst og fremst í bænum, eða langar kaupandann frekar að vera á fjallastígum? Gæti jafnvel verið ráð að kaupa tvö hjól: annað fyrir torfærurnar og hitt fyrir daglega notkun á malbiki, eða þá blending eins og Cyclocross-hjól þar sem skipta má um dekk eftir því hvort halda skal til fjalla eða hjóla á stígum.“

Ljós, hjálmur og púði

Eftir að búið er að velja rétta hjólið segir Stefán að þurfi að skoða hvaða aukabúnað og fatnað vantar. Yfirleitt er skynsamlegt að fjárfesta í kröftugu framljósi til að sjá langt fram á veginn, og afturljósi sem skín skært svo að ekki fari fram hjá öðrum vegfarendum. Hjálminn má heldur ekki vanta og vekur Stefán sérstaka athygli á nýjum hjálmum frá Trek sem nota skel úr þrívíðum möskva sem dreifir höggum betur og dempar þau svo að dregur stórlega úr hættunni á heilahristingi.

„Púðabuxur koma í líka í góðar þarfir enda algengt að fólk kenni einhverra ónota í afturendanum þegar byrjað er að hjóla mjög oft. Sjálfur nota ég púða-stuttbuxur og klæðist léttum síðum buxum utan yfir á veturna,“ útskýrir Stefán og bendir á að gott sé að miða við þegar lagt er af stað á hjólinu að vera örlítið kalt í fyrstu. Líkaminn hitnar fljótlega svo að eftir 4-5 km hverfur kuldatilfinningin, en ef valinn hefur verið of heitur fatnaður gæti hitinn á þessum tímapunkti farið að valda óþægindum.

Hárnákvæm stilling

Eitt sem allir ættu að gera, sem taka hjólreiðarnar alvarlega, er að bóka tíma í „bike fit“ hjá Erninum. Þar er farið af mikilli nákvæmni í allar stillingar á hjólinu svo að það smellpassi við líkama eigandans. Stefán segir alls ekki nóg að einfaldlega stilla hnakkinn í rétta hæð, og getur t.d. staða pedalanna, fjarlægð að stýri og breidd stýrisins haft veruleg áhrif.

„Mátunin tekur í kringum tvær klukkustundir og byrjum við á stuttu viðtali þar sem við athugum hver markmið viðskiptavinarins eru, förum yfir meiðslasöguna og komum auga á líkamleg einkenni eins og hvort notandi hjólsins er inn- eða útskeifur,“ útskýrir Stefán, en sérstök tölva er notuð til að greina upptöku af viðskiptavininum á hjólinu og byggt á þeim niðurstöðum má finna bestu fjarlægð milli hjóls og ákveðinna punkta á likamanum. „Strax og hjólið hefur verið rétt stillt finnur fólk töluverðan mun, og til samanburðar leyfum við þeim að máta hjólið bæði með nýju stillingunum og eins og það var.“

Bike fit kostar tæplega 25.000 kr og segir Stefán að vestanhafs sé tekið tvöfalt hærra gjald fyrir sömu þjónustu. Stefán Haukur og Kjartan kollegi hans í búðinni eru báðir með Precicsion Fit-vottun frá Trek og sjá um mátanirnar í Erninum. „Altaf er mikilvægt að hjólið sé vel stillt og sérstaklega brýnt að láta stilla hjólið rétt þegar mikið stendur til, svo sem ef á að hjóla langa leið eða taka þátt í krefjandi keppni, og ekkert grín að ætla t.d. að hjóla hundrað kílómetra á hjólhesti sem ekki passar vel við hlutföll líkamans.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert