Draumur að búa á Tenerife

Unnur María ásamt syni sínum sem nýlega náði sér í …
Unnur María ásamt syni sínum sem nýlega náði sér í alþjóðleg köfunarréttindi. Ljósmynd/Unnur María Pálmadóttir

Þau höfðu ferðast nokkrum sinnum þangað áður og líkað vel, og ákváðu að lokum að taka stökkið og prófa að búa á þessari sólríku eyju. Hún segir kostinn við að búa á eyjunni sé óneitanlega vera góða veðrið og minna stress, þar sè stutt að fara á milli staða og að fjölskyldan ferðist mikið og skoði sig um. Þau mæli með að leigja bíl fyrir þá sem eru að koma og keyra hringinn í kringum eyjuna. „Það er lítið mál að keyra hann á einum degi og heimsækja í leiðinni litla smábæi þar sem færri ferðamenn séu að finna,“ segir Unnur María en hún og fjölskyldan býr á Costa Adeje sem er rétt fyrir ofan Duque ströndina. 

Hver er eftirlætis veitingastaðurinn þinn á svæðinu?

„Okkur finnst mjög gaman að prufa nýja staði, en eigum þó nokkra uppáhalds.  Í gamla bænum í Los Cristianos er lítill notalegur pizzastaður sem heitir 500 Gradi, svoldið óhefðbundinn og mjög góður. La Torre del Mirador við Duque ströndina er yndislegur líka og rómantískur. Mæli með að panta borð með útsýni yfir sjóinn og vera komin rétt fyrir sólsetur. Önd í appelsínusósu og gott hvítvín með steinliggur.“

Mælirðu með einhverri skemmtilegri afþreyingu ?

„Köfun og Jet ski! Við höfum mikinn áhuga á allskyns ævintýrum, ég og sonur minn vorum ekki lengi að skrá okkur í köfun. Það var meiriháttar gaman að kafa með skjaldbökum, hann var þó mun brattari en mamma sín, kafaði niður eina 12 metra, tók sig svo til og fór í framhaldinu í köfunarnám og náði sér í alþjóðleg Padi réttindi. Næst á dagskrá hjá okkur er að prufa Kite surf og fara að snorkla. Held að ég láti hann ekki plata mig í Paragliding, allavega ekki strax.“

Unnur María horfir yfir Teresitas ströndina.
Unnur María horfir yfir Teresitas ströndina. Ljósmynd/Unnur María Pálmadóttir

Hvernig lítur draumadagur út í borginni?

„Draumadagur væri að fara með fjölskyldunni og vinum aðeins út fyrir bæjarmörkin og keyra upp í Masca.Taka með teppi, gott nesti, fótbolta og vera úti í náttúrunni. Stoppa svo í bakaleiðinni í Puerto de Santiago, fara í stutta siglingu og skoða Los Gigantes hellana. Setjast svo niður á góðan veitingarstað og rölta um gömlu höfnina. Mjög flott að horfa upp í fjallið og sjá hvernig húsin eru byggð inn í klettana.“

Hver er þín líkamsrækt?

„Ég tók ákvörðun fljótlega eftir að ég kom út að æfa ekki inni í líkamsræktarstöð heldur nota góða veðrið sem er alla daga og hreyfa mig úti. Svo ég fer út að skokka allavega 2-3 morgna í viku, það er þó algjört lykilatriði að vera snemma á ferðinni því eftir kl 10 er eiginlega orðið of heitt til að hlaupa. Ég er forfallin fjallageit svo ég veit fátt skemmtilegra en að vera einhverstaðar uppi á fjalli að labba og með myndavélina á lofti, hef náð að sameina þessi tvö áhugamál alveg þarna, en eyjan er einstaklega heppilegur áfangastaður fyrir fjallgöngufólk og ljósmyndara. Einnig hef ég mjög gaman af því að fara í Jóga og Pilates tíma á ströndinni og hef tekið allar vinkonur mínar með þegar þær hafa komið. Það er hreinlega ekki hægt að byrja daginn betur.“ 

Jóga og Pilates ástundun við ströndina er algjör draumur.
Jóga og Pilates ástundun við ströndina er algjör draumur. Ljósmynd/Unnur María Pálmadóttir

Hvað er ómissandi að sjá á Tenerife?

„Eyjan hefur upp á svo ótrúlega margt að bjóða. Persónulega finnst mér algörlega ómissandi að fara aðeins út fyrir ferðamannasvæðið og keyra um eyjuna. Heimsækja Masca, Náttúrulaugarnar í Garachico, Santiago del Teide, La Laguna og Los Gigantes.  Held að Masca standi samt alveg upp úr, Ofboðslega fallegur staður og mikil saga. Náttúran breytist mjög mikið þegar keyrt er á vesturhlutann á eyjunni, allt mun grænna og fjölbreyttari gróður. Fyrir fjölskyldufólk er eiginlega alveg ómissandi að fara í Siam Park vatnsleikjagarðinn, hann er mjög vinsæll á okkar heimili.“

Fagurt er um að líta á eyjunni sólríku.
Fagurt er um að líta á eyjunni sólríku. Ljósmynd/Unnur María Pálmadóttir

Hvað er áhugavert að gerast á eyjunni á næstunni?

„Ég er mjög spennt fyrir Tenerife Walking festival sem haldið er í lok maí. Þar verður boðið upp á 14 mismunandi gönguleiðir með leiðsögumönnum, um mörg áhugaverð svæði, t.d Maca, Teide ofl. Mig langar að ná sem flestum göngum þessa daga.“

Fyrir þá sem hafa áhuga er hægt að fylgjast með Unni Maríu og ferðalögum hennar um eyjuna á Facebook síðunni Íslendingar á Tenerife. 

mbl.is