Góð hreyfing, matur og húmor í fyrirrúmi

Bjarni mælir með að fólk prófi að reyna meira á …
Bjarni mælir með að fólk prófi að reyna meira á sig en vanalega þegar kemur að hreyfingu um páskana. Ljómsynd/Aðsend

Hann hjólar hins vegar mikið og kann að meta útiveru um hátíðina. Hann mælir með að fólk fari aðeins út fyrir þægindarammann tengt hreyfingu á páskunum. 

Hvað gerir þú alltaf á páskunum?

„Alveg frá því að ég man eftir hef ég borðað meira af páskaeggjum en góðu hófu gegnir. Ég á því miður ekki von á að það breytist að þessu sinni. Svo eru páskar venjulega tími með fjölskyldunni og undantekningalítið förum við í sumarbústað fjölskyldunnar. Þegar páskarnir eru seint á ferðinni, eins og nú, er ég líka byrjaður á einhverjum vorverkum í garðinum. Ég geri einnig ráð fyrir því að hjóla og ganga mikið.“

Ertu duglegur að hreyfa þig?

„Hreyfing er órjúfanlegur hluti af mínum lífsstíl. Hún heldur líkamanum hraustum og sterkum en það sem er mikilvægast er að hún viðheldur ákveðnu andlegu jafnvægi. Ég er í mjög krefjandi starfi og á eiginkonu og fjögur börn. Þótt hreyfing og útivist taki sinn tíma er ég ekki viss um að geta sinnt skyldum mínum nema geta sótt þá andlegu næringu sem ég fæ út úr minni hreyfingu. Á eftir hreyfingunni er næstbesta næringin að spila á hljóðfæri og í hljómsveit en því miður er hljómsveitin mín í hléi.“

Áttu þér uppáhaldsmat um páskana?

„Við erum ekki fastheldin á páskamat en þó er frekar líklegt að einn daginn verði lambalæri á gamla mátann á boðstólum. Annars reynum við að borða sæmilega hollan mat og þannig mat að börnin okkar séu líkleg til að borða.“

Getur maður leyft sér meira þegar maður er svona stefnufastur tengt hreyfingu?

„Já og nei. Ég æfi 8-10 tíma á hjólinu á viku og svo geng ég næstum í hverri viku á fjöll sem fararstjóri fyrir Ferðafélagið þannig að orkuþörfin er mikil. Út frá þeim sjónarhóli er hægt að leyfa sér meira í mat en annars. Hins vegar þarf maturinn helst að vera innihaldsríkur með tilliti til næringar. Það er þó ekkert vit í að leyfa sér meira af óhollustu á grundvelli þess að hreyfa sig mikið.“

Nú ertu hagfræðingur að mennt og hefur lengi starfað tengt iðnaði, hvað kom þér mest á óvart þegar þú hófst starf innan áliðnaðarins í landinu?

„Þegar ég byrjaði að vinna hjá Rio Tinto á Íslandi hafði ég ágæta sýn á hlut og vægi iðnaðar í landinu. Eftir að hafa unnið í Straumsvík í tæp tvö ár kemur það mér á óvart næstum alla daga hversu öflugt og hæft samstarfsfólk mitt er. Þá er frábært að vinna hjá fyrirtæki sem stendur svo framarlega sem raun ber vitni á sviði umhverfis-, öryggis- og jafnréttismála svo eitthvað sé nefnt.“

Bjarni Már Gylfason er hagfræðingur að mennt og hefur náð …
Bjarni Már Gylfason er hagfræðingur að mennt og hefur náð frábærum árangri þegar kemur að jafnvægi á milli vinnu og útivistar Ljósmynd/Aðsend

Hvað ráðleggur þú þeim sem langar að breyta til og koma hreyfingu inn í dagskrána um páskana?

„Páskarnir eru frábær tími til útivistar og sem betur fer nýta mjög margir þá vel til hjólreiða, skíða, gönguferða o.s.frv. Ég ráðlegg öllum að skora á sig að fara aðeins út fyrir þægindarammann. Ef þú hjólar, farðu þá aðeins lengra eða hraðar en venjulega. Hafðu hlaupið, gönguferðina eða skíðaferðina aðeins meira krefjandi. Ef við gerum alltaf það sama af sömu ákefð er erfitt að bæta sig. Þessi hugsun á jafnt við um alla, hvort sem þeir eru stíga upp úr sófanum eða hreyfa sig þegar af miklum krafti.“

Áttu þér uppáhaldssjónvarpsefni sem þú munt horfa á um páskana? „Ég horfi ákaflega lítið á sjónvarp og á ekki von á að það breytist um páskana. Ég á þó tvo þætti eftir af nýju Klovn-seríunni sem ég vonast til að horfa á með frúnni og hlæja svolítið. Þá er sería 2 af Norseman komin á Netflix og ég gæti trúað að ég myndi byrja á henni. Það er eiginlega það fyndnasta sem ég hef séð lengi.“

Hvernig sinnirðu þínum andlega þroska?

„Hreyfing er mín leið. Allra bestu stundirnar á þessu sviði eru að ganga langar jöklagöngur eins og á Hvannadalshnjúk. Við göngum lengi í línu á jöklinum og það eru alltaf nokkrir metrar á milli manna. Það þýðir að við erum löngum stundum ein að erfiða í þungu færi bara með okkar eigin hugsanir. Þögnin er dásamleg á köflum.“

Manstu góðan málshátt sem þú hefur fengið um páskana?

„Nei, ekki í fljótu bragði, en góður maður sem ég þekki vel átti eitt sinn stórafmæli um páska. Hann fékk stóra og mikla köku sem á stóð: „Flest er fertugum fært“. Mér þykir alltaf gaman að sjá mismæli í málsháttum.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert