Hvetjandi að fá viðurkenningu

Iceland Bike Farm býður upp á skemmtileg fjallahjólanámskeið í sumar.
Iceland Bike Farm býður upp á skemmtileg fjallahjólanámskeið í sumar. Ljósmynd/Iceland Farm Bike

Á vef Markaðsstofunnar kemur fram að fjallahjólabændurnir í Mörtungu hafi skapað sér sérstöðu með því að leita fanga í sínu nánasta umhverfi. Þau séu svo heppin að hafa úrvalsfjallahjólaslóða í bakgarðinum sem kindurnar hafi mótað í gegnum aldirnar, og séu enn að. Það mætti því segja að Mörtunga sé fyrsta og eina náttúrulega fjallahjólalandið á Íslandi. Að sögn Rannveigar Ólafsdóttur hjá Iceland Bike Farm hefur viðurkenningin heilmikla þýðingu fyrir þau. „Þetta er í raun staðfesting á því að við séum að gera eitthvað sem fólk hefur áhuga á. Það er mjög hvetjandi að fá svona viðurkenningu og skemmtileg athygli sem við fáum í kjölfarið. Við viljum þakka Markaðsstofu Suðurlands og því frábæra starfsfólki þar innanborðs en þau eru að gera mjög flotta hluti fyrir ferðaþjónustuna og við mælum eindregið með því að slást í þeirra hóp.“

Fjallahjólaleiðin á jörðinni er engri lík.
Fjallahjólaleiðin á jörðinni er engri lík. Ljósmynd/Rozle Bregar

Það er allt á fullu þessa dagana hjá hjónunum í Mörtungu en þau eru að byggja upp aðstöðu fyrir hjólafólk á bænum. „Við erum að breyta gömlu fjárhúsi í aðstöðuhús fyrir gesti og hjól. Þar verða salerni, sturtur og sauna, aðstaða til að setjast niður, borða og jafnvel halda lítið hlöðuball en einnig er aðstaða fyrir hjólaverkstæði. Við munum taka á móti hópum í gistingu í sumar, bæði á námskeið hjá okkur og í hjólaferðir,“ segir Rannveig.

Fjallahjólatímabilið í Mörtungu byrjar strax að loknum sauðburði.
Fjallahjólatímabilið í Mörtungu byrjar strax að loknum sauðburði. Ljósmynd/Iceland Bike Farm


Hjólavertíðin hjá Iceland Bike Farm byrjar 31. maí, strax að sauðburði loknum. „Helgina 31. maí til 2. júní verður mjög spennandi námskeið í boði hjá okkur. Það er fjallahjólanámskeið fyrir byrjendur með jógaívafi. Námskeiðið er haldið í samstarfi við Vilja markþjálfun og það er Hildur Ágústsdóttir markþjálfi sem mun sjá um að stilla hugarfarið rétt fyrir helgina og leiða hópinn í endurnærandi yoga nidra-slökun. Námskeiðið er ætlað öllum þeim sem hafa áhuga á að kynna sér fjallahjólasportið og fara svolítið út fyrir þægindarammann í góðum hópi.“ Þeir sem vilja kynna sér námskeiðið frekar geta skoðað það hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert