Tveir jöklar á tveimur dögum

Veðrið og útsýnið af Langjökli var ótrúlega fallegt.
Veðrið og útsýnið af Langjökli var ótrúlega fallegt. Ljósmynd/aðsend

Þar sem ég er algjörlega heilluð af jöklum þessa lands og finnst þeir vera fegursta náttúruundur þessa heims þá fannst mér vera komin tími til að kynna börnin mín fyrir þessum ískalda veruleika. Spenningurinn var mikill þegar við hentum okkar allra hlýjustu fötum í tösku og rukum af stað enda fátt eins skemmtilegt að fylgja eftir skyndihugdettum. Ég hef reynt að leggja mig fram við að kynna syni mína fyrir náttúrunni og útivist eftir fremsta megni og svei mér þá ef það er bara ekki að skila sér.

Við lögðum af stað seinnipartinn á föstudegi og kíktum við hjá frænda mínum á Kaffi Krús á Selfossi en þar stoppa ég iðulega á leið minni úr bænum. Mér finnst eins og ég sé að rækta fjölskyldutengsl þegar ég kíki við, jafnvel þó frændi minn sé ekki ,,heima”. Það er bara eitthvað svo heimilislegt að kíkja við, vitandi það að mamma hans bakar kökurnar sem standa í glerborðinu og grátbiðja mann um að taka sig með sér. Að loknum kvöldverði komum við við í matvörubúð og keyptum það helsta, fullt af nammi fyrir komandi spilakvöld.

Við mættum á Minniborgir síðla kvölds með skottið fullt af farangri. Þegar við komum þangað fengum við aðgang að dásamlegum bústað sem varð aðsetur okkar næstu tvær nætur. Þau voru svo gestrisin að vera búin að láta renna í heitan pott fyrir okkur þegar við komum. Við komum okkur vel fyrir og spiluðum þar til andinn gat ei meir og við sofnuðum eins og englar á dúnmjúku skýi.

Tignarleg sjón á Sólheimajökli

Á laugardeginum var förinni heitið á Sólheimajökul. Þar skyldu strákarnir fá að kynnast því hvernig væri að ganga á jökli í broddum með axir, belti og hjálm. Maksim frá Moldavíu tók hlýlega á móti okkur og fór yfir öll helstu öryggisatriði sem allir þurfa að hafa á hreinu þegar jöklar eru heimsóttir enda hættu víða að finna. Jökullinn var grár þennan daginn og sendinn en alltaf ef það jafn tignarlegt að komast í tæri við þetta náttúruundur okkar Íslendinga. Á göngu okkar að jöklinum komum við að skilti sem á voru upplýsingar um það hversu mikill jökullin hefði hopað á undanförnum árum, það var óhugnanlegt að sjá hversu hratt þetta er að gerast.

Strákarnir í öruggum höndum Maksims.
Strákarnir í öruggum höndum Maksims. Ljósmynd/Aðsend

Strákarnir stóðu sig með prýði á broddunum og ekki laust við að mamman fyndi fyrir smá stolti af litlu ungunum sínum. Þar sem við vorum komin svo langt austur ákváðum við að nota tækifærið og skoða Dyrahólaey og Vík í Mýrdal. Rokið við Dyrhólaey var það mikið að varla var stætt en hressandi var það þó og þrýsti fersku súrefni ofan í lungun á okkur. Um kvöldið stóð til að taka upp spilin á ný en sumir voru orðnir það þreyttir að koddinn heillaði meira en margt annað.

Útsýnisins notið við Dyrhólaey.
Útsýnisins notið við Dyrhólaey. Ljósmynd/Aðsend

Langjökull í blankalogni

Að morgni sunnudags lá leið okkar að Gullfossi þar sem við biðum eftir fari okkar að Langjökli. Strákunum fannst spennandi að ferðast um í sérútbúnum jöklabíl með tilheyrandi dekkjabúnaði sem skilaði okkur alla leið. Þegar við komum við rætur jökulsins beið okkar stillilogn, glampandi sólskin og glaðlyndir einstaklingar sem voru að fara með okkur í vélsleðaferð.

Samrýmdir bræður njóta útsýnisins við rætur Langjökuls.
Samrýmdir bræður njóta útsýnisins við rætur Langjökuls. Ljósmynd/Aðsend

Ég hef sjaldan séð Langjökul svona fallegan og var upplifunin og útsýnið alveg stórfenglegt. Yngri sonurinn sat aftan á sleðanum hjá mér, kannski var ég of áköf en hann bað mig vinsamlegast um að keyra hægar þar sem honum var orðið flökurt af látunum í móður sinni.

Aðstæður á Langjökli voru einstakar.
Aðstæður á Langjökli voru einstakar. Ljósmynd/Aðsend

Að lokinni vélsleðaferðinni snérum við heim á leið með viðkomu í sundlauginni á Selfossi, gripum okkur verskuldaða Tomma hamborgara og að sjálfsögðu Huppu ís. Fjölskyldan var afskaplega ánægð með helgina og minntust strákarnir á það að þetta hefði verið besta helgi sem þeir hefðu átt lengi, það gladdi mömmuhjartað.

Gisting var í boði Minniborga

Jöklaferðir voru í boði Arctic Adventure

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert